18.12.1985
Neðri deild: 34. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1852 í B-deild Alþingistíðinda. (1521)

84. mál, skráning skipa

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Þetta frv. er 84. mál Ed. Ed. gerði nokkrar breytingar á þessu frv. Nál. samgn. hljóðar svo:

„Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fengið umsagnir um það frá Sambandi ísl. kaupskipaútgerða, Landssambandi ísl. útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands. Mæltu þessi samtök öll með samþykkt frv. Magnús Jóhannesson siglingamálastjóri og Gísli Auðunsson komu á fund nefndarinnar og skýrðu frumvarpið og svöruðu spurningum.

Veigamesta breytingin frá gildandi lögum felst í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins þar sem samgrh. er veitt heimild til þess að leyfa skráningu kaupskipa hér á landi án þess að meginkröfu laganna um eignarhald íslenskra aðila sé fullnægt, en þó með því skilyrði að um sé að ræða skip sem gert er út hér á landi með íslenskri áhöfn, að skipið uppfylli ákvæði íslenskra laga og reglna og hafi ekki heimild til að sigla undir fána annars ríkis. Með þessari breytingu verða kaupskip, sem skráð verða á skipaskrá skv. þessari heimild, að lúta eftirliti íslenskra stjórnvalda hvað varðar öryggi skips og búnaðar.“

Þegar við vorum að fjalla um þetta frv. kom upp í hugann hvort nógu vel væri gengið frá öllum hlutum þar að lútandi, sérstaklega í sambandi við veðbönd, sem kynnu að hvíla á því skipi sem ætti að skrá, hvort þyrfti að þinglýsa þeim áður en skráning færi fram. Við höfðum samband við þrjá lögfræðinga út af þessu og það var ekki fyrr en í gær sem við fengum niðurstöðu í málinu. Nefndin flytur því eftirfarandi brtt.:

„Við 3. mgr. 1. gr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: e. Að veðbönd, sem hvíla á skipi þegar skráning þess fer fram hérlendis eða stofnast í því eftir að það er skráð, séu skráð hjá viðkomandi þinglýsingardómurum hér á landi.“

Nefndin mælir með að frv. verði samþykkt með þessari breytingu.