18.12.1985
Neðri deild: 38. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1879 í B-deild Alþingistíðinda. (1592)

194. mál, nefnd til að kanna viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf.

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Frv. þetta fjallar um nefnd til þess að kanna viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf. Ein hliðin á máli Hafskips hf. er að það félag var tekið til gjaldþrotaskipta, sem kunnugt er, 6. þ.m. Skiptaráðandinn í Reykjavík fer nú með forræði þrotabús félagsins og er hlutverk hans m.a. að rannsaka hvort einhver lögbrot tengist gjaldþroti fyrirtækisins og byggt er á gjaldþrotalögum.

Mál þetta hefur aðra hlið en þá sem snýr að gjaldþroti Hafskips hf. og hugsanlegu refsiverðu athæfi í tengslum við það. Ljóst er að Útvegsbanki Íslands, sem Hafskip hf. hafði sín bankaviðskipti við, mun tapa verulegum fjárhæðum vegna gjaldþrots félagsins. Með hliðsjón af þessu taldi ríkisstj. þörf á því að auk þeirrar rannsóknar sem beinist að hugsanlegri refsiverðri háttsemi í tengslum við gjaldþrotið færi fram sérstök könnun á viðskiptalegum þáttum málsins. Af þeim sökum hefur þetta frv. verið lagt fram. Í því er kveðið á um að sett verði á laggirnar þriggja manna nefnd sem Hæstiréttur tilnefni og skal hún hafa það hlutverk að kanna hvort um óeðlilega viðskiptahætti hafi verið að ræða í viðskiptum Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf. á undanförnum árum.

Það þótti ekki fært að binda könnunina við ákveðið árabil enda liggur ekki fyrir á þessari stundu hvenær verulega tók að halla undan fæti í rekstri félagsins né heldur með hvaða hætti og á hvaða tíma sú skuldaaukning við bankann varð sem nú hefur leitt til mikils fyrirsjáanlegs tjóns hans við gjaldþrot félagsins.

Í Ed. gerði hv. fjh.- og viðskn., sem fjallaði um þetta mál, þrjár breytingar á frv. Við 2. gr., 1. málsl. er orðalagsbreyting þannig að hann hljóðar nú þannig:

„Hlutverk nefndarinnar er að kanna hvort um óeðlilega viðskiptahætti hafi verið að ræða í viðskiptum Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf. á undanförnum árum eða í viðskiptum Hafskips hf. við aðra aðila.“

Í öðru lagi. Við 3. gr., 1. málsl. fyrri málsgr., var gerð orðalagsbreyting þannig að málsgr. hljóðar nú þannig:

„Nefndin setur sér starfsreglur, aflar nauðsynlegra gagna og er henni heimilt í samráði við skiptaráðanda að krefjast skýrslna, munnlegra og skriflegra, af einstökum mönnum og opinberum aðilum, m.a. starfsmönnum Útvegsbanka Íslands.“

Þriðja breytingin sem nefndin gerði var að á eftir 4. gr. komi ný grein sem hljóði þannig:

„Rannsóknarnefndin skal hraða störfum sínum og skila skýrslu til viðskiptaráðherra sem gerir Alþingi grein fyrir störfum og niðurstöðum nefndarinnar.“ Þar sem þetta mál hefur verið það mikið rætt hér á Alþingi á undanförnum dögum og vikum þá sé ég ekki ástæðu til þess að hafa mál mitt lengra en legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.