19.12.1985
Efri deild: 40. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1888 í B-deild Alþingistíðinda. (1608)

145. mál, stjórn fiskveiða

Frsm. 1. minni hl. (Skúli Alexandersson):

Virðulegi forseti. Það er nú ekki meiningin að lesa þetta allt upp. Ég ætla svona að hafa þetta hjá mér hérna, öll þessi plögg sem ég er með.

Það var fróðlegt að heyra lokaorð framsögumanns meiri hluta sjútvn. í sambandi við samráð í sjútvn. deildarinnar og heyra hann biðjast afsökunar á því að hann hefði ekki getað hlýtt kalli ráðuneytisins til samráðsins, vegna þess að einhver misskilningur hafi verið í boðun. (VI: Ég var ekki boðaður á fundinn vegna misskilnings í ráðuneytinu.) Já, formaður sjútvn. segist ekki hafa verið boðaður á fundinn vegna misskilnings. Ég vil því spyrja sjútvrh.: Var það samráð, sem samþykkt var í lögum hér fyrir ári síðan, ætlað fyrst og fremst fyrir formenn viðkomandi nefnda? Var ekki ætlast til þess að allir nefndarmenn, ef um samráð væri að ræða, hefðu sama aðgang að því samráði? Ég tók a.m.k. hlutina á þann veg að það samráð væri ekki eingöngu fyrir stjórnarsinnana heldur væri það jafnt fyrir okkur stjórnarandstæðingana.

Ég hef nefnt það áður hér, við 1. umr. þessa máls, að ég tel að það hafi algjörlega brugðist að standa við þau fyrirheit frv. að nefndarmenn í sjútvn. fengju að fylgjast með gangi mála í sambandi við stjórn fiskveiða og í sambandi við undirbúning þess frv. sem hér er verið að ræða nú. Þegar maður heyrir svo að það hafi átt að reyna að betrumbæta þetta á einhvern máta á þann veg að aðeins skyldu kallaðir til stjórnarsinnarnir, formenn nefndanna, þá finnst manni skörin vera farin að færast upp í bekkinn og vinnubrögðin einkennileg. Og flest sem hnígur reyndar að því að þessi stjórnun fiskveiða sé fyrst og fremst einkamál ákveðins flokks og jafnvel ákveðins manns, jafnvel ákveðins ráðherra. Það er hægt að tala um samráð og að það sé opin umræða um þessa hluti en þegar það er upplýst að vinnubrögðin séu á þennan máta þá fer maður að halda að það sé önnur tilætlun í öllu saman.

Við héldum tvo fundi í hv. sjútvn. Til okkar komu starfsmenn ráðuneytisins, ráðuneytisstjóri og fulltrúi úr ráðuneytinu, og upplýstu okkur um stöðu mála í sambandi við væntanlega reglugerð um stjórnun fiskveiða á næstu tveimur árum. Ég vil þakka fyrir þær upplýsingar sem þar komu fram og þakka einnig fyrir það að nú skuli þó vera komið það langt á veg með reglugerð að hún liggi svo gott sem ljós fyrir. Það er í fyrsta skipti sem það er gert og það má segja að það sé svona viss framför í sambandi við undirbúning á stjórnun fiskveiða að sjútvn. séu kynnt sú reglugerð sem stjórna skal eftir á fiskveiðistjórnunartímabilinu.

Umræður í nefndinni fóru fyrst og fremst í það að fara yfir reglugerðina. Ekki var talin ástæða til þess að kalla fleiri til skrafs vegna þess að tími var naumur. Við gerðum okkur öll grein fyrir því að það varð ekki undan því komist að ganga frá þessu máli í dag og þar af leiðandi ekki tími til þess að kalla hagsmunaaðila til skrafs um málið, þó þess hefði verið full þörf vegna þess að sú umræða sem átt hefur sér stað á fundum sameiginlegu nefndanna var alls ekki á þann veg sem æskilegt hefði verið.

Þegar nefnd sem er skipuð 14 mönnum kallar til sín kannske fjóra til sjö og jafnvel fleiri menn til viðræðna, verður úr því fyrst og fremst fundur, fundur þar sem mjög lítið er hægt að fá fram af því sem æskilegt og unnt er að gera í þrengri hóp, sem sagt fámennari nefnd, auk þess sem vinnubrögðin í nefndinni voru þannig að ég fyrir mitt leyti hafði takmarkaðan áhuga á að spyrja þar mikið. Við vissar aðstæður fékk maður það svar frá áköfustu stuðningsmönnum ráðherrans að maður skyldi bara halda kjafti og í öðrum tilfellum var sagt að maður skyldi frekar færa sig yfir á annan kant borðsins vegna þess að það væri ekki við hæfi að úr þingmannahópi heyrðust raddir sem væru algjörlega meðmæltar þeim mönnum sem voru að ræða við okkur. Slík fundarstjórn og slík umræða er ekki til þess að opna eða gera málin eðlilegri og gefa manni upplýsingar um það sem æskilegt er að fá fram.

Við sjáum nú fyrir endann á þessari umræðu um stjórn fiskveiða. Við vitum nokkurn veginn fyrir víst að það frv. sem hér er til umfjöllunar verður samþykkt hér í hv. deild og verður væntanlega að lögum í kvöld. Við stöndum frammi fyrir því að við erum að samþykkja reglur um það hvernig við skulum sækja fisk í sjó á næstu tveimur árum við þær aðstæður að fiskvinnslan og útgerðin eru að meginhluta til rekin með tapi. Kannske má undanskilja loðnuflotann - að hann skili einhverjum afgangi við hagstæðustu skilyrði síðustu viku og mánaða. Því var lýst yfir af fulltrúum fiskvinnslunnar, sem voru á fundum fyrir nokkrum dögum hér í Reykjavík og gengu á fund stjórnvalda, að fiskvinnslan væri rekin með 8-9% halla og ég hef ekki séð koma fram tölur sem afsanna þá fullyrðingu. Það blasa við og hafa þegar átt sér stað nauðungarsölur skipa og það blasir við að ekki verði langt í það að fiskvinnslan fari á sama veg. Það má kannske ekki orða það á þann máta, sem gert var hér í þinginu fyrir nokkrum dögum, að fjöldi fyrirtækja væru í biðsal dauðans. Fjöldi fyrirtækja, sérstaklega í fiskvinnslu, hefur gengið á eigið fé þannig að við blasir rekstrarstöðvun hjá stórum hluta fiskvinnslunnar.

Það hefur verið gripið til þess hér á höfuðborgarsvæðinu, til að koma í veg fyrir að eitt af stærstu fiskvinnslufyrirtækjunum stöðvaðist, að láta borgarsjóð Reykjavíkur hlaupa undir bagga með því og koma því þannig áfram í rekstri. Ég á hér við Ísbjörninn, ég skal ekki tala neinni tæpitungu um það. Vitaskuld hefur ekkert skeð annað, með tilfærslu og samruna Bæjarútgerðar Reykjavíkur og Ísbjarnarins, en að borgarstjórn Reykjavíkur hefur tekið ábyrgð á rekstri þessa fyrirtækis. Vitaskuld var það nauðsynlegt, þetta er eitt af stærstu atvinnufyrirtækjum í Reykjavík, og slíkrar aðgerðar verður sjálfsagt þörf í auknum mæli víða um landi ef áfram heldur sem horfir að fiskvinnslan í landinu verði rekin með 8-9% halla. Það sjá allir hvað fram undan er ef slíku heldur áfram.

Það hefur sýnt sig að næstum því hver sú ráðstöfun sem hæstv. ríkisstj., sem nú situr, hefur gripið til til þess að reyna að styrkja sjávarútveginn, að nafninu til, hefur farið á annan veg. Hún hefur farið á hinn veginn, orðið til skaða fyrir sjávarútveginn. Eilíft umtal og breytingar á rekstrarlánum sjávarútvegsins í það að vera annan daginn tryggt í gjaldeyri, hinn daginn aftur fært yfir í íslenska mynt og síðan nú á síðustu mánuðum yfir í SDR. Það er yfirlýst að hver þátturinn á fætur öðrum hefur verkað beint á þann veg að tap útgerðarinnar og fiskvinnslunnar hefur aukist.

Undanfarin ár, á tímabili þeirrar fiskveiðistjórnunar sem við nú búum við, hefur verið í gangi stöðug millifærsla frá sjávarútvegi til eyðsluþátta þjóðfélagsins, sem við höfum orðað svo, og við höfum séð hvað hefur verið að ske. Við sjáum hvað er að ske hér í versluninni. Við sjáum höllina sem er að rísa í nýja miðbænum. Hvaðan skyldu þessir peningar koma eða á hvaða peninga skyldi vera treyst til þess að standa undir þessu öllu saman? Vitaskuld á þá peninga sem íslenskir fiskimenn og íslensk fiskveiði koma með í þjóðarbúið.

Fiskveiðistefnan, fiskveiðistjórnunin, er vitaskuld ekki nema að hluta völd að þessari útkomu, en hún er ákveðinn þáttur í þessu. Hún gerir það að verkum að umræðan um hana, þessi mikla umræða sem hefur verið um fiskveiðistefnuna, hefur dregið athyglina frá þeirri stöðu sem sjávarútvegurinn í heild er í. Það hefur tekist að halda uppi umræðu mánuðum saman um fiskveiðistefnuna, deila um hvort vera skuli tegundamark eða aflamark, en á sama tíma hefur enginn litið á það hvernig rekstrarstaða sjávarútvegsins væri. Á sama tíma hefur eiginfjárstaða fiskvinnslunnar og útgerðarinnar stöðugt versnað og tap aukist.

Sú fiskveiðistefna sem nú er verið að samþykkja er að sumu leyti að gera það að verkum að Ísland verði síður byggilegt, ég vil ekki segja óbyggilegt, heldur en áður hefur verið. Það er verið að flytja til ágæti landshluta. Það er verið að skammta á þann veg að ganga á hlut þeirra svæða sem búa við betri aðstöðu gagnvart fiskimiðum, það er verið að jafna þetta út, og sú stefna sem núna er tekin upp, sérstaklega þá sóknarmarksstefnan, hún er áframhald þessarar stefnu. Það er verið að gera það að verkum að t.d. Vestfirðir, sem hafa verið í áranna röð eitt besta fiskisvæðið á Íslandi gagnvart því að sækja þorsk í sjóinn, - og ég vil hafa Breiðafjörð þar með - það er verið að gera það að verkum með fiskveiðistefnunni og fiskveiðistjórnuninni að það er ekki betra í sjálfu sér að sækja fisk í sjó frá Vestfjörðum heldur en bara héðan frá Reykjavík. Og með þeirri stefnu sem fiskveiðistjórnunin ýtir undir að fleiri og fleiri komi sér upp frystitogurum, fleiri og fleiri flytji út fiskinn ísaðan í gámum og þess háttar - þá er enn þá verið að draga úr þeirri sérstöðu sem þessi svæði hafa.

Kvótinn er beinlínis hvati að því að fleiri og fleiri fiskiskip verði gerð þannig út að þau vinni fiskinn um borð. Þegar mönnum er skammtaður ákveðinn afli fara þeir að hugsa sem svo: Hvernig á ég að gera þennan afla sem verðmætastan? Ég hef nægilegan tíma til þess að gera ýmsa hluti öðruvísi en ég hef gert áður. Og menn leita vitaskuld að þessum þætti, að gera aflann verðmætari með því að vinna hans eins mikið um borð og mögulegt er. Það gerir það að verkum að afli til fiskvinnslustöðvanna í landi minnkar og minnkar. M.ö.o. það fer ekki að skipta miklu máli hvort íslensku fiskiskipin eru gerð út frá Hull eða Bremerhaven eða frá Bolungarvík eða Hellissandi. Ef hverju skipi fyrir sig er skammtaður ákveðinn afli þá þarf útgerðarmaðurinn ekki að huga að tímabilum eða ákveðnum degi og ákveðinni aðstöðu til þess að ná í sinn afla. Hann getur dundað við þetta árið út í gegn, honum er aðeins skammtað ákveðið magn. Nákvæmlega sama er að ske í sambandi við gámaútflutninginn. Það er verið að hvetja til þess að hver og einn, sem gerir út bát, líti á þann möguleika að afla sér pínulítið aukinna tekna með því að flytja fiskinn út óunninn. Með þessu er raunverulega verið að gera eyjuna okkar, sem er fyrst og fremst byggileg vegna þess að við erum með fiskimiðin í nálægð við veiðistöðvarnar, að sumu leyti óbyggilega.

Þetta er einn af þeim þáttum sem sú fiskveiðistjórn sem við nú búum við stefnir að. Með hverju ári sem líður verður meira flutt út af gámafiski. Með hverju ári sem líður verða fleiri og fleiri frystitogarar við strendur landsins og taka stærri og stærri hluta af þorskveiðikvótanum okkar sem við þyrftum að afla og færa til lands og gera þar að betri vöru og auka verðmæti hennar.

Hæstv. ráðherra nefndi það hér í framsöguræðu sinni fyrir frv. að átt hefði sér stað mikil verðmætaaukning vegna fiskveiðistjórnunarinnar, vegna kvótans. Hann nefndi m.a., ég man nú ekki hvað hann nefndi þá háa tölu, að rækjan hefði komið vegna kvótans og þar hefði orðið mikil verðmætaaukning og við hefðum fengið aukinn afla, það hefði verið vegna kvótans. Ja, hverju reiddust goðin, mundi nú einhver segja, þegar þessi hlutir skeðu? Hvað gerðist á Íslandi þegar menn tóku upp á því að afla loðnu? Hvaða kvóti var þegar Breiðfirðingar fóru að afla skel? Á að fara að þakka fiskveiðistefnunni það að við erum að veiða rækju? Það eru skrýtnar kenningar. Ef íslenskir sjómenn hafa frelsi til þess að leita á miðin þá gera þeir það vitaskuld. Það þarf enga þvingun og enga skömmtun til þess. Ég veit ekki betur en að Íslendingar, án þess að nokkur kvóti hafi verið til, hafi farið norður í höf og sótt grálúðu. Þeir eru meira að segja að ýta sér undan því núna, undir kvótanum. Ég skil bara ekkert í þessu. Hvernig stendur á því að þeim er ýtt í rækju? Af hverju sækja þeir ekki í grálúðu líka? Mér er sagt að það hafi bara verið orðið frekar lítið um það, þó þeim væri gefið frelsi til þess um mitt sumarið, að sækja grálúðu. Það er vitaskuld út frá því hvað er hagkvæmast að gera. ef sjómenn hafa frelsi til þess þá velja þeir bestu leiðina sem gefur þeim mestar tekjur. En það er ekki fiskveiðistjórn að þakka og síst af öllu þeirri fiskveiðistjórn sem við búum við nú.

Við höfum heyrt undanfarið að það séu nokkuð margir sem bjóði í þau skip sem nú eru til sölu hjá Fiskveiðasjóði, eða sem Fiskveiðasjóður hefur keypt inn á nauðungaruppboðum. Maður hefur heyrt tölu eins og 13 í sambandi við Helga S. og jafnvel eins háa tölu í sambandi við Kolbeinsey en lokafrestur mun vera til að gera tilboð í hana í dag eða á morgun. Maður hefur líka heyrt alls konar sögur um að það sé bara boðið þó nokkuð hátt í þessi skip, það séu þó nokkuð háar tölur sem séu nefndar. En á sama tíma heyrir maður það að hægt sé að fá skip keypt fyrir miklu minni pening ef farið er út fyrir landsteinana, fyrir miklu minni pening en verið er að nefna í sambandi við þessi skip sem eru á uppboði og hægt er að fá keypt hjá Fiskveiðasjóði eftir að búið er taka þau á nauðungaruppboði frá eigendum sínum. Hvað segir þetta? Þetta segir það að sjávarútvegurinn okkar stendur raunverulega enn þá verr en reikningar og matsverð á skipum gefa til kynna. Ef innflutningur skipa væri gefinn frjáls, ef sjávarútvegurinn nyti sömu stöðu og verslunin eða jafnvel bara fragtskipaútgerðin þá gætum við fengið fiskiskip fyrir miklu lægra verð en skráðir reikningar þeirra fyrirtækja sýna sem gera út skip hér á Íslandi. Og hvernig væri staðan þá? Ég býst jafnvel við því að það yrði bara heilmikill skjálfti í mörgum bankaráðum, hvað þá stjórn Fiskveiðasjóðs. Fiskveiðasjóður hefur kannske búið sig betur en margir bankar undir það að slíkir hlutir gætu gerst. Ef verðmæti íslenska fiskiskipaflotans væri nú reiknað á markaðsverði væru mörg fyrirtækin eignalítil og hallinn ansi stór. Það er haldið uppi fölsku verði á íslensku fiskiskipunum með því að loka fyrir endurnýjun og loka fyrir innflutning. Það er haldið uppi fölsku verði á þeirri forsendu að það megi ekki fjölga skipum, það megi ekki stækka íslenska fiskiskiptaflotann. Það eru vitaskuld rök fyrir því að því fylgi ákveðnar hættur að stækka flotann en það eru ekki jafnframt rök fyrir því að verðlagning á flotanum sé í takt við það sem er umhverfis okkur. Til þess að svo megi verða verður vitaskuld að gefa það eftir að kaupa megi skip á erlendum markaði þannig að íslenskur sjávarútvegur fái að njóta þess verðs sem hann getur fengið lægst.

Staðreyndin er sú að íslenski fiskiskipaflotinn er kannske ekki endilega allt of stór. Hv. frsm. meiri hl. sjútvn. nefndi hér áðan að kvótakerfið hefði bara reynst sæmilega vel á árinu 1984. Það reyndist það vel, eins og ég nefndi hér í ræðu minni við 1. umr., að það tókst ekki að veiða þann skammt sem okkur var ætlaður. Það tókst ekki 1984 með þessum óskaplega stóra flota. Ein af aðalröksemdum ráðherra fyrir flutningi kvóta yfir áramót var að ýmsir hefðu skilið eftir kvóta og þyrftu að færa hann yfir áramótin. Eins og við munum tókst okkur ekki á árunum 1982 og 1983 að veiða það sem lagt var til bæði af ráðuneytinu og Hafrannsóknastofnun. Meira að segja á því mikla aflaári 1981, með þeim mikla afla sem þá var og hv. þm. Valdimar Indriðason var að lýsa hér áðan, komumst við rétt fram úr tillögum ráðuneytisins. Hann lýsti því nefnilega réttilega að flotinn er ekki of stór. Hann hefði mátt vera stærri og það hefði ekki átt að fiska með einstökum kröftum. Það hefði átt að fara aðra leið að því að nýta sjávarfangið okkar, halda ekki áfram þessari kraftafiskisókn sem stunduð hefur verið hér í áraraðir, heldur breyta sókninni frá þeirri hefð sem við höfum búið við og stefna að því að koma með góðan afla að landi, verðmætan afla að landi, miklu verðmætari en við höfum gert á undanförnum árum. En til þess að svo megi verða þurfum við fleiri og betri og líka ný skip. Já, ég sagði fleiri og stærri og betri og sjálfsagt ný skip. En slík endurnýjun og slík breyting á flotanum kostar mikla peninga. Ég er ekki að segja að hægt sé að koma því í kring í dag en það þarf að breyta til og það þarf að viðurkenna það að við þurfum að fara að endurnýja flotann. Og það þarf að viðurkenna það líka að við verðum að hætta því að koma með jafnlélegan afla að landi og við höfum gert á undanförnum árum. En það gerum við ekki og greinilegt er að það er enginn hvati í þeirri fiskveiðistjórn sem við höfum búið við s.l. tvö ár til þess að ýta undir það. Það er frekar á hinn veginn eins og ég sagði í ræðu minni við fyrri umræðu.

Hv. þm. Valdimar Indriðason nefndi einmitt hér áðan að við yrðum að gera okkur grein fyrir því að við yrðum að koma á hagræðingu í vinnslu og auka gæðin til að auka verðmætin en við værum ekki að biðja um miðstýringu til þess að koma því í kring. Það er einmitt það sem við þurfum að losna við. Við þurfum að losna við þá skömmtunarmiðstýringu sem við höfum nú búið við í tvö ár til þess að koma hagræðingu og verðmætaaukningu við.

Því hefur verið mikið haldið á lofti að frá okkur, sem erum andstæðingar aflamarksins, kvótakerfisins, hafi ekki komið tillögur um aðra leið en þá sem hefur verið farin. Þetta eru hin mestu ósannindi. Það hafa komið fram margar tillögur víðs vegar um landið um aðra fiskveiðistjórnun. En einhverra hluta vegna hafa fjölmiðlar ekki haft áhuga fyrir því að kynna slíkar tillögur. Það hefur verið mjög erfitt að koma gagnrýni á þá stefnu, sem í gildi hefur verið, á framfæri. Má vera að það sé m.a. vegna þess, sem ég nefndi hér um daginn, að hæstv. sjútvrh. hafi með sínum dugnaði tekist að fá fjölmiðlamenn og marga aðra til að trúa því að sú stefna sem hann berst fyrir sé hin rétta vísindalega stefna, hafi tekist það með þeirri aðferð, sem ég vil nefna að vissu leyti óskammfeilni, að fara um landið með vísindamenn sér við hlið sem skýra frá ýmsum staðreyndum í sambandi við sjávarrannsóknir, bæði hita sjávar og stöðu fiskistofna, á sama tíma og hann messar sjálfur sínar pólitísku skoðanir.

Við hv. þm. Kolbrún Jónsdóttir höfum lagt fram minnihlutaálit á þskj. 362.

Full ástæða væri til að fjalla um fiskveiðistjórnunartillögurnar sem fylgja þessu nál. en ég mun ekki gera það, a.m.k. ekki í þessari ræðu. Það er aldrei að vita hvað ég geri hér seinna. En þar koma fram í fyrsta lagi tillögur sem ég lagði fram í þingflokki Alþb. Fengu þær að sumu leyti svolítið misjafnar undirtektir. Í öðru lagi eru tillögur Farmanna- og fiskimannasambands Íslands sem voru samþykktar af þingi þess sambands. Í þriðja lagi eru tillögur 45. fjórðungsþings fiskideildanna á Vestfjörðum.

Eins og ég sagði áðan komu fram margar tillögur og breytilegar um stjórnun fiskveiða vítt um landið en þessar tillögur hafa því miður fengið litla umfjöllun. Það þjónar kannske ekki tilgangi fyrir okkur hv. 3. þm. Vesturl. að fara að deila um ágæti hvers þáttarins. En jafnsannfærður og hann er um að það kerfi, sem nú er í gangi og á að fara að samþykkja hér, sé hið æskilega kerfi, sem við skulum nota, býst ég við að mikill meiri hluti íbúa heilu landshlutanna sé á allt annarri skoðun. Er það mögulegt fyrir hv. Alþingi að samþykkja tillögur um fiskveiðistjórnun sem ganga þvert á skoðun og þvert á hagsmuni heilla landshluta? Það fullyrði ég að frv., sem verið er að fjalla um hér, geri.