24.10.1985
Efri deild: 7. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í B-deild Alþingistíðinda. (169)

70. mál, kjaradómur í deilu Flugfreyjufélags Íslands og Flugleiða hf.

Magnús H. Magnússon:

Hæstv. forseti. Það er auðvitað rétt hjá hæstv. samgrh. að það er neyðarúrræði að fresta verkfalli með lagasetningu. Sú staða getur þó komið upp að slíkt sé nauðsynlegt, einkum þegar um er að ræða fámenna en tiltölulega vel launaða starfshópa sem hafa aðstöðu sinnar vegna margfalt beittara verkfallsvopn í höndum en launþegar almennt. Sú er raunin nú að mati meiri hl. þingflokks Alþfl. Þess vegna, og þó einkum vegna þess gífurlega tjóns sem af hlytist ef verkfall flugfreyja héldi áfram, ekki aðeins fyrir Flugleiðir heldur fyrir þjóðfélagið allt, munum við fulltrúar Alþfl. í þessari hv. deild greiða atkvæði með því lagafrv. hæstv. ríkisstj. sem hér er á dagskrá. Til enn frekari rökstuðnings vísa ég, hæstv. forseti, til nál. fulltrúa Alþfl. í samgn. hv. Nd. á þskj. 74.