20.12.1985
Sameinað þing: 34. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2019 í B-deild Alþingistíðinda. (1737)

1. mál, fjárlög 1986

Frsm. minni hl. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Fjárlagafrv. fyrir árið 1986 var lagt fram á áætluðu desemberverðlagi í ár. Við 2. umr. var ljóst að talsvert vantaði á að það verðlag væri rétt metið og jafnframt að uppfærslan yrði meiri á gjöldum en tekjum. Sama niðurstaða blasti við gagnvart uppfærslu frá réttu desemberverðlagi yfir á meðalverðlag ársins 1986. Til þess að sá halli sem leiddi af slíkri beinni uppfærslu í samræmi við endanlegar forsendur kæmi ekki fram við endanlega afgreiðslu fjárlagafrv. hefur verið gripið til ýmissa ráða.

Má þar fyrst nefna að í stað þess að hækka launaliði í frv. um 14,5% í samræmi við forsendur Þjóðhagsstofnunar um gjöld og tekjur eru launaliðirnir í raun hækkaðir um 12,2%. Rekstrargjöld hafa á sama hátt verið hækkuð frá grunni fjárlagafrv. um 15,4% í stað 17,5% , eins og forsendur Þjóðhagsstofnunar um verðlagsþróun á næsta ári segja fyrir um.

Hér er samtals um að ræða gat á útgjaldahlið fjárlaga um 250-300 millj. kr. og hefur það ekki verið skýrt með öðru en almennum hugleiðingum um sparnað, en slík fyrirheit við síðustu fjárlagaafgreiðslur hafa jafnan reynst marklaus og útgjöldin þvert á móti aukist. Viðhaldsliðir hafa engri uppfærslu tekið né heldur stofnkostnaðarframlög með örfáum undantekningum. Vaxtaútgjöld hafa verið færð upp að öðru leyti en því að þau eru miðuð við að halli á ríkissjóði í ár verði sá sem tilgreindur er í grg. fjárlagafrv., en litið fram hjá ítrekuðum spám Þjóðhagsstofnunar um að hallinn verði um 450 millj. kr. meiri en þar er áætlað. Ef sú tala reynist réttari vantar um 150 millj. kr. í fjárlög næsta árs vegna aukinna vaxtaútgjalda af þeim sökum.

Ýmsir útgjaldaliðir eru beinlínis vanáætlaðir í fjárlagafrv. og hljóta enga lagfæringu við endanlega afgreiðslu nú. Má þar nefna skrifstofukostnað Lánasjóðs ísl. námsmanna. Áætlað er að raunveruleg útgjöld á árinu 1985 muni nema ríflega 23 millj. kr. Það gæti þýtt nær 30 millj. kr. á verðlagi ársins 1986. Í fjárlagafrv. fyrir næsta ár eru þessi útgjöld á hinn bóginn áætluð 8 millj. kr. og taka engri uppfærslu nú við 3. umr.

Inn í útgjöld almannatrygginga vantar enn 150 millj. kr. og hafa engar skýringar fengist á því með hvaða hætti verður vikið frá núgildandi reglum um greiðslur almannatrygginga.

Veigamiklir liðir sem skertir voru í fjárlagafrv. skerðast nú enn meir að raungildi þar sem þeir eru ekki hækkaðir í samræmi við verðlag við uppfærslu á fjárlagafrv. af desemberverðlagi 1985 á meðalverðlag 1986. Má þar helst nefna framlög til húsnæðismála, vegagerðar og Lánasjóðs ísl. námsmanna.

Sérstök fjáröflun sem átti að tryggja viðbótarfjármagn í húsnæðislánakerfið var samþykkt með samkomulagi allra þingflokka s.l. vor. Sá skattur er með fjárlagaafgreiðslu stjórnarflokkanna nú gerður að almennum skatti í ríkissjóð því að framlag ríkissjóðs til húsnæðismála hefur verið dregið saman sem nemur þessum sköttum sem áttu að tryggja viðbótarfjármagn í húsnæðislánakerfið.

Þessi sérstaka tekjuöflun nam á árinu 1985 353 millj. kr., en er í fjárlagafrv. fyrir árið 1986 áætluð 665 millj. kr. eða 88,4% hærri þar sem skattarnir verða í gildi allt næsta ár en aðeins hluta ársins 1985. Miðað við verðlagsþróun hækkar þessi viðbótarskattheimta að raungildi um 213 millj. kr. á næsta ári skv. fjárlagafrv.

Framlag ríkissjóðs að öðru leyti, sú upphæð sem nýja skattheimtan átti að bætast við, nemur í ár 904 millj. kr. Með 28% verðlagshækkun milli ára ætti hið raunverulega fyrra framlag ríkissjóðs að vera 1157 millj. kr. en nemur í fjárlagafrv. 935 millj. kr. þannig að 222 millj. kr. vantar upp á að það haldi raungildi á sama tíma og nýja skattheimtan vex um 213 millj. kr. að raungildi.

Þannig var þetta í fjárlagafrv. Nú er verið að færa frv. upp til áætlaðs verðlags á næsta ári. Hvernig er þá staðið að þessu máli til að stoppa upp í götin í fjárlögunum?

Sérstaka fjáröflunin, sem samkomulag var gert um í fyrra, hækkar við uppfærsluna úr 665 millj. kr. í fjárlagafrv. í líklega 745 millj. kr. eða um 80 millj. kr. Hækkar þá ekki ráðstöfunarfé húsnæðislánakerfisins um þá upphæð? Nei, heildarsumman á að vera óbreytt, 1600 millj. kr., þ.e. þegar verið er að færa útgjaldaþætti almennt frá desemberverðlagi til meðalverðlags 1986 er annað framlag ríkissjóðs til húsnæðislánakerfisins lækkað um 80 millj. kr., úr 935 millj. í 855 millj. kr.

Þannig hækkar sérstaka fjáröflunin um 293 millj. kr. að raungildi á næsta ári, en almennt framlag ríkissjóðs lækkar að raungildi um 302 millj. kr.

Sú nýja skattheimta, sem samþykkt var af öllum flokkum á síðasta þingi að yrði viðbótarframlag til húsnæðismála, er því við fjárlagaafgreiðslu nú hirt í almennan rekstur ríkissjóðs í basli stjórnarflokkanna við að tjasla saman fjárlögunum og hafa upp í hallann.

Í greinargerð með fjárlagafrv. er gert ráð fyrir 97 millj. kr. framlagi til vegamála af beinum skatttekjum ríkissjóðs og útgjöld til vegamála á árinu 1986 talin nema 2% af áætlaðri þjóðarframleiðslu samkvæmt eldri grunni útreiknings á þjóðarframleiðslu.

Við uppfærslu frv. nú fyrir 3. umr. hefur fyrirsjáanlegum halla á fjárlögum verið mætt, eins og ég áðan sagði, með því að skilja eftir göt í frv. svo að nemur mörgum hundruðum millj. kr., með því að hækka ekki upp ýmsa útgjaldaliði.

Þetta á auk húsnæðismálanna, sem ég áðan greindi frá, einnig við um framlag til vegamála þannig að nú stendur hvorugt eftir að 97 millj. kr. sé varið af beinum skatttekjum ríkissjóðs til vegamála né heldur hitt að vegaframkvæmdir á næsta ári nemi 2% af þjóðarframleiðslu, en í langtímaáætlun um vegagerð var gert ráð fyrir að á árinu 1986 yrði 2,4% af þjóðarframleiðslu varið til vegamála.

Við afgreiðslu fjárlaga nú gerist hvort tveggja að markaðir tekjustofnar, bensín- og þungaskattur, hækka mjög að raungildi en framlag til nýrra framkvæmda lækkar að raungildi, hvort sem miðað er við rauntölur fyrir árið 1985 eða það sem gert var ráð fyrir í vegáætlun fyrir árið 1986, en hún var samþykkt á Alþingi 23. maí s.l., fyrir sjö mánuðum.

Ef borin eru saman framlög til nýrra framkvæmda í vegamálum á vegáætlun fyrir árið 1986 og samkvæmt þeim fjárlögum sem hér er verið að samþykkja kemur fram að raungildi framlaga til nýrra framkvæmda verður 34,5% minna en ákveðið var með vegáætlun frá s.l. vori. Skattheimtan, bensíngjald og þungaskattur, hækkar á hinn bóginn um 20,1% að raungildi frá því sem áættað var í vegáætlun.

Ef nýjar framkvæmdir í vegamálum á næsta ári samkvæmt framlögum á væntanlegum fjárlögum eru bornar saman við framkvæmdir á þessu ári minnka þær að raungildi um 6,5%, en skattheimta af bifreiðaeigendum hækkar á sama tíma um 26,9% að raungildi frá árinu í ár. Samtímis því að skattheimtan er stórlega aukin eru framkvæmdir skornar niður til þess að hafa upp í hallareksturinn og í vaxtahítina hjá ríkissjóði. Þessi niðurskurður veldur því að framlög til vegamála verða á næsta ári ekki 2,4%, eins og ákveðið var að stefna að í langtímaáætlun um vegagerð, og ekki 2%, eins og lýst er yfir í grg. fjárlagafrv., heldur 1,7% miðað við áætlun Þjóðhagsstofnunar um 120 þús. millj. kr. þjóðarframleiðslu á eldri grunni. 140 millj. kr. vantar upp á að staðið sé við þá reglu, sem sett hefur verið eða hefur gilt að undanförnu, að a.m.k. 50% af samanlögðum heildarsköttum af bensíni, þ.e. tollum og söluskatti af bensíni og bensíngjaldi, renni til vegamála.

Afgreiðsla á Lánasjóði ísl. námsmanna er með þeim hætti, í sem fæstum orðum sagt, að miðað við þá afgreiðslu sem stefnt er að við 3. umr. telur stjórn sjóðsins að til lánveitinga samkvæmt núgildandi reglum sjóðsins skorti um 650 millj. kr., en Fjárlaga- og hagsýslustofnun telur að ekki sé séð fyrir um 410 millj. kr. vegna lánveitinga á næsta ári. Það telur Fjárlaga- og hagsýslustofnun að muni hafa í för með sér að lækka þurfi lánin úr sjóðnum um 30%.

Hv. þm. geta haft mismunandi skoðanir á því hversu há námslán skuli veita til einstakra námsmanna, en það er alveg ljóst að sé það stefna stjórnvalda að skera lánin niður um 30% getur það ekki gerst með þeim fyrirvaralausa hætti sem hér er lagt til. Þegar lánveitingar fyrir fyrri hluta næsta árs hafa jafnvel þegar verið tilkynntar verða afleiðingarnar þær að naumast yrði um neinar lánveitingar að ræða á síðari hluta ársins. Ég sé ekki að unnt sé að standa þannig að þessu máli.

Fyrirsjáanlegum halla á ríkissjóði á næsta ári er nú við afgreiðslu fjárlaga ekki aðeins mætt með vanáætlun útgjaldaliða og með því að hirða markaðar tekjur í almenn útgjöld ríkissjóðs heldur gerist það einnig við þessa fjárlagaafgreiðslu að afnotagjöld Pósts og síma eru gerð að almennum skattstofni ríkissjóðs. Þessi nýja skattheimta í ríkissjóð jafngildir öllum ársfjórðungsgjöldum af heimilis- og verslunarsímum. Skatturinn jafngildir því að ársfjórðungsgjöldin þurfi að tvöfaldast og ofan á það bætist söluskattur. Heildarhækkunin nemur því alls 235 millj. kr.

Í áætlun um rekstur Pósts og síma á næsta ári nú við afgreiðslu fjárlaga er gert ráð fyrir því að öll afnotagjöld Pósts og síma hækki um 16-17% í upphafi árs. Af hækkuninni fari ríflega 3/4 hlutar beint í ríkissjóð, þ.e. 13% hækkun á afnotagjöldum af 16-17% heildarhækkun fari í ríkissjóð, og ofan á bætist 25% söluskattur.

Þetta er ný aðferð við skattlagningu í ríkissjóð og draga má í efa að hún sé lögleg þar sem ekki er heimilt að ákvarða nýja skatta með fjárlögum einum. Ég tel einnig óvíst að hún samrýmist lögum um rekstur Póst- og símamálastofnunar.

Fjárlagaafgreiðslan að þessu sinni einkennist af því að til viðbótar rekstrarhalla sem samkvæmt núgildandi uppsetningu fjárlaga nemur um 120 millj. kr. á næsta ári vantar mörg hundruð millj. kr. inn í útgjaldahlið fjárlaganna.

Þá eru tekjustofnar, sem ætlaðir voru til sérstakra verkefna, hirtir í almennan rekstur ríkissjóðs.

Tekin er upp ný skattheimta með sérstakri hækkun afnotagjalda Pósts og síma, en sá skattur rennur beint í rekstur ríkissjóðs að viðbættum 25% söluskatti ofan á þann skatt.

Skuldasöfnun ríkissjóðs vex og nemur lántaka til A-hluta á næsta ári 3700 millj. kr. Þar af eru erlend lán tekin til reksturs A-hluta ríkissjóðs 1600 millj. kr.

Vaxtagreiðslur A-hluta hækka á næsta ári úr 1472 millj. kr. í 2370 millj., um 898 millj. kr., eða 61%. Vaxtagjöldin hækka að raungildi um nær 500 millj. kr. á næsta ári. Sú upphæð gæti þó orðið 150 millj. kr. hærri eða 650 millj. kr. raunhækkun ef halli á ríkissjóði í ár verður í líkingu við spá Þjóðhagsstofnunar.

Fjárlagaafgreiðslan markast af sívaxandi skuldasöfnun og auknum vaxtakostnaði sem veldur skerðingu á öllum framlögum til samfélagslegra framkvæmda á sama tíma og framkvæmdir blómstra hjá verslunarrekstrinum á höfuðborgarsvæðinu.

Fjárlagaafgreiðslan ber merki um örvæntingarfulla leit að aðferðum til þess að ná sem næst saman endum á pappírnum, enda þótt um raunverulegan hallarekstur sé að ræða. Hætt er því við að lítið meira mark verði tekið á þeim fjárlögum sem hér er verið að afgreiða en þeim sem nú gilda, en sýnt er að halli á ríkissjóði í ár verður a.m.k. 1100 millj. kr. og jafnvel 1500-1800 millj. kr. meiri en prentað var í fjárlög fyrir u.þ.b. ári síðan.