28.01.1986
Sameinað þing: 38. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2138 í B-deild Alþingistíðinda. (1863)

Stjórnmálaástandið að loknu þinghléi

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að verða hér orðmörg um þær fjölbreytilegu uppákomur sem núverandi ríkisstj. hefur staðið fyrir á undanförnum vikum. Það hafa þeir ræðumenn gert sem hér hafa á undan mér talað og hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir hefur þar um fjallað fyrir hönd Kvennalistans. Ég hef hins vegar þrjár brennandi og beinar spurningar sem ég vil nota þetta tækifæri til að beina til hæstv. forsrh. og til fjmrh. eða staðgengils hans hér í dag, hv. þm. Friðriks Sophussonar, en á fundi þingflokksformanna, forseta og forsrh. í gær var ákveðið að þessi umræða hér í dag mundi einkum beinast að þeim málefnum sem eru í verkahring þessara ráðherra og umræða um aðberðir menntmrh. bíða fram til fimmtudags. Þær spurningar, sem ég vil beina til forsrh. í þessari umræðu og til forsvarsmanns fjármála landsins þessa stundina, eru þessar:

Í fyrsta lagi, hvernig hefur ríkisstj. hugsað sér að mæta þeim gífurlega halla sem varð á ríkissjóði á síðasta ári og þeim halla sem fyrirsjáanlegur er á ríkissjóði á þessu ári? Á að gera það með auknum erlendum lántökum? Á að gera það með auknum skattaálögum á þjóðina eða á að gera það með auknum sparnaði og þá hvaða sparnaði? Við þessum spurningum á íslenska þjóðin heimtingu að fá svör vegna þess að svörin munu snerta daglegt líf hennar náið um mörg ár í framtíðinni og því ber ég þessa spurningu hér fram.

Önnur spurningin sem mig langar til að beina til þeirra forsvarsmanna ríkisstj. sem hér sitja fyrir svörum er: Hvernig má það vera að nú þegar hvert aflaárið siglir í kjölfarið á öðru, og það síðasta eitthvert albesta aflaár í sögu nútímaútgerðar á Íslandi, virðist þjóðarhagur ekki taka nokkrum framförum ef marka má síendurtekin ummæli ráðamanna í íslensku þjóðfélagi, bæði innan þings og utan, um erfiða tíma, efnahagsþrengingar og hertar sultarólar? Hvernig má það vera að silfrið úr sjónum skili engu í sameiginlega sjóði landsmanna þeim öllum til hagsbóta? Þessu vil ég fá svör við hér á eftir.

Þriðja spurningin sem ég vil beina til forsvarsmanna ríkisstj. í dag er: Á hvern veg hafa þeir hugsað sér að halda á kjarasamningum við opinbera starfsmenn á næstunni? Ég spyr einungis um opinbera starfsmenn því það er í verkahring ríkisstj. að semja við þá en ekki aðra aðila vinnumarkaðarins. Þess vegna spyr ég: Á hvern veg hafa þeir hugsað sér að halda á kjarasamningum við opinbera starfsmenn á næstunni?

Í því efni hef ég margar spurningar:

Í fyrsta lagi spyr ég: Hvers vegna eru samningaviðræður ríkisins og opinberra starfsmanna ekki þegar komnar á skrið þegar samningar hafa verið lausir í nærri mánuð? Hafa einhverjar samningaumleitanir farið fram eða situr ríkisstj. aðgerðarlaus í þessum málum, eins og á haustdögum 1984, og bíður eftir óveðrinu?

Í öðru lagi: Hvaða kjarabætur hyggst ríkisstj. bjóða opinberum starfsmönnum í þessum samningum? Hver verður launastefna ríkisstj. nú í kjölfar þess mikla aflaárs sem ég gat um áðan og góðra almennra efnahagsskilyrða? Hyggst hún leiðrétta þá kjaraskerðingu sem hún stóð fyrir fyrir nærri þrem árum? Og hyggst hún leiðrétta hlut opinberra starfsmanna gagnvart þeim sem starfa í einkageiranum? Við þessum spurningum vil ég fá skýr svör.

Í þriðja lagi: Hvers vegna hafa kjör kennara ekki þegar verið leiðrétt, eins og lofað var fyrir margt löngu síðan? Og hvernig hyggst ríkisstj. launa þeim sem sjá eiga um uppfræðslu barnanna okkar í framtíðinni? Við þessu vil ég líka fá skýr svör.

Og að lokum: Hvernig hyggst ríkisstj. leiðrétta það kynbundna launamisrétti sem á sér stað meðal opinberra starfsmanna, eins og alls staðar annars staðar á vinnumarkaðinum? Hvernig hafa hæstv. ráðh. hugsað sér að taka á því máli nú í kjölfar kvennaáratugar Sameinuðu þjóðanna og í kjölfar nýsamþykktra laga um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla og - ekki má gleyma því - í kjölfar nýsamþykkts alþjóðasamnings um afnám allrar mismununar gagnvart konum?

Ef hæstv. forsrh. ætlar að svara mér því til, eins og hann gerði í haust, að það þurfi að kanna þessi mál betur áður en hafist sé handa er það hrein bábilja og enn ein undanfærslan því þegar liggja fyrir yfrið nógar upplýsingar, kannanir og úttektir á þessum málum.

Leiðrétting á því launamisrétti, sem hér um ræðir og sem nú viðgengst, snýst um pólitískan vilja og ekkert annað og um það er spurt. Við þessum spurningum öllum vonast ég til að fá svör.