30.01.1986
Sameinað þing: 39. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2213 í B-deild Alþingistíðinda. (1896)

Lánasjóður íslenskra námsmanna

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það er erfitt hlutskipti að koma í þennan ræðustól í kjölfar orðheppinna ræðuskúma eins og hæstv. menntmrh. og hv. 4. þm. Norðurl. e. þótt því verði ekki neitað að stundum ber stráksskapurinn málefnin ofurliði, einkanlega í málflutningi hæstv. ráðherra. En málefnið hlýtur að ráða, hv. þm.

Ég vil í upphafi máls míns þakka hv. 4. þm. Norðurl. e. fyrir að hefja þessa þörfu umræðu. Það er brýn nauðsyn til þess að hér fari fram þessi umræða til þess að fá fram sjónarmið sem flestra þm. fram í dagsljósið.

Á þingflokksfundi Kvennalistans 27. jan. s.l. var samþykkt svohljóðandi ályktun, með leyfi forseta: „Kvennalistinn mótmælir harðlega fram komnum hugmyndum um breytingar á lögum og reglum um Lánasjóð ísl. námsmanna. Kvennalistinn vill sérstaklega vara við vaxtaálagningu samfara hertum innheimtureglum sem valda mundi mörgum óbærilegri greiðslubyrði vegna námslána. Það er eitt af grundvallaratriðum þessa lánakerfis að fólk geti lært það sem hugur þess stendur til án þess að þurfa fyrst og fremst að hugsa um afkomumöguleika að loknu námi.

Þá lýsir Kvennalistinn yfir eindreginni andstöðu gegn hugmyndum um styrki til námsmanna sem hyggja á þjóðhagslega hagkvæmt nám, en slíkt væri dæmi um fráleitan stórabróðurhugsunarhátt sem leitt gæti út í hinar verstu ógöngur enda á fárra færi að meta hvaða nám muni reynast þjóðhagslega hagkvæmt til lengri tíma litið.

Enn fremur telur Kvennalistinn þá hugmynd fráleita að einskorða lánaúthlutun við fjárlagaupphæð án tillits til annarra aðstæðna. Kvennalistinn varar eindregið við þessum hugmyndum og lýsir sig reiðubúinn til að taka þátt í endurskoðun á lögum og reglum um Lánasjóð ísl. námsmanna en leggur áherslu á að niðurstöður slíkrar endurskoðunar brjóti ekki í bága við yfirlýst markmið sjóðsins um jafnrétti til náms.“

Þessu vildi ég koma að hér í upphafi máls míns þar eð þessi yfirlýsing hefur ekki farið hátt enn þótt hún hafi verið send til allra fjölmiðla. Er það svo sem ekki verri afgreiðsla en vant er, en sannar aðeins enn þá einu sinni hvernig aðstöðu við erum í sem ekki höfum tryggan aðgang að fjölmiðlum.

Þá vil ég einnig geta þess að afstaða Kvennalistans í málefnum Lánasjóðs ísl. námsmanna ætti að vera þingheimi kunn svo oft sem við höfum látið þau til okkar taka. Sú afstaða var raunar áréttuð í grein í DV 14. jan. s.l. Aðbúnaður námsfólks er í hæsta máta kvennapólitískt mál að okkar dómi - og kem ég nánar að því síðar - enda höfum við allt frá upphafi látið okkur málefni lánasjóðsins varða og notað hvert tækifæri til að minna á hlutverk hans og nauðsyn þess að búa vel að honum.

Fjárfesting í menntun er forgangsverkefni að okkar mati. Í því sambandi er vert að geta þess að hæstv. ráðh. spurði að því áðan hvernig ætti að fjármagna þetta kerfi, hann spurði um skatta um erlend lán en hann gleymdi forgangsröðuninni. Kvennalistinn er tilbúinn að leita með hæstv. menntmrh. og öðrum áhugamönnum um Lánasjóð ísl. námsmanna að kostnaðarliðum sem spara megi svo að lánasjóðurinn fái eðlilega fjármögnun.

Sú umfjöllun, sem nú fer hér fram, er tvíþætt. Annars vegar eru það málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna í heild sinni og þær hugmyndir sem heyrst hafa um breytingar á lögum hans og reglum. Hins vegar er framkoma hæstv. menntmrh. gagnvart fyrrv. framkvæmdastjóra sjóðsins, Sigurjóni Valdimarssyni.

Hæstv. menntmrh. er litríkur maður, orðheppinn oft og snöggur til athafna. Þetta geta verið hinir ágætustu eiginleikar en oft er þó farsælla að hafa þolinmæði til að kynna sér hlutina og velta þeim fyrir sér áður en þeir eru framkvæmdir. Vald er vandmeðfarið og ekki á allra færi. Hæstv. menntmrh. hefur farið illa með það vald sem honum var trúað fyrir. Oft hafa vinnubrögð ráðherra í núv. ríkisstj. vakið furðu og hneykslun. En segja má að með framkomu Sverris Hermannssonar menntmrh. hafi keyrt um þverbak. Á það einkum við um skipan hans í kennarastöðu í Háskólanum og viðskipti hans við framkvæmdastjóra Lánasjóðs ísl. námsmanna. Um hið fyrrnefnda ræði ég ekki nú. Það verður gert síðar þegar til umræðu kemur fsp. sem hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir hefur lagt fram hér um það efni.

Stöðuveitingar að geðþótta ráðherra eru sannarlega ekki einsdæmi þótt þeim hafi trúlega fækkað á síðari árum og nánast einsdæmi að gengið sé svo freklega gegn vilja ráðgefandi aðila sem í þessu fyrrnefnda tilviki við skipan í lektorsstöðu í Háskóla Íslands. Hins vegar mun afar fátítt að menn séu sviptir stöðu sinni nánast fyrirvaralaust og án þess að gefast tækifæri til að bæta ráð sitt ef um semdist, svo sem raunin varð með framkvæmdastjóra Lánasjóðs ísl. námsmanna.

Sigurjón Valdimarsson hafði unnið hjá lánasjóðnum í 11 ár og hafði átt snurðulausa samvinnu, það ég best veit, við alla menntmrh. þar til Sverrir Hermannsson tók þar sæti og Sigurjón var manna kunnugastur öllum innviðum sjóðsins. Þær ástæður, sem menntmrh. hafði fært fyrir brottrekstri Sigurjóns, eru furðulegar að mínum dómi og benda ekki til þess að hæstv. ráðherra hafi haft fyrir því að kynna sér málefni lánasjóðsins né heldur fylgst með því undanfarin ár hvernig rekstur hans hefur gengið til.

Hæstv. menntmrh. minntist á starfsmannahald í lánasjóðnum áðan og býsnaðist yfir því að þar ynni fjöldi manns án heimilda. Hæstv. menntmrh. lét sem þetta væru nýuppgötvuð sannindi. Ég get upplýst ráðherrann um það að fjárveitingavaldið hefur vitað um þetta a.m.k. þann tíma sem ég hef fylgst með þessum málum. Stjórn sjóðsins hefur sífellt sótt um fjölgun stöðuheimilda og yfirvöld fjármála hafa vitað um þennan vanda alla tíð. Þeirra er ábyrgðin að hafa ekki tekið á þessu þrátt fyrir ótal kannanir og athuganir á rekstri sjóðsins. Staðreyndin er sú að fjölgun starfsmanna sjóðsins hefur haldist í hendur við fjölgun lánþega þau ár sem sjóðurinn hefur starfað.

Ráðherra býsnaðist einnig yfir óhóflegri yfirvinnu. Vist er hún óhófleg. En, hæstv. ráðh., á þessari yfirvinnu eru skýringar hvort sem þær verða teknar góðar og gildar. Og veit ekki ráðherra að víða í opinberri þjónustu eru greiddar stórar fúlgur fyrir yfirvinnu sem aldrei er unnin? Vill ekki hæstv. ráðh. reyna að gera eitthvað í þeim málum?

Uppgefnar ástæður fyrir brottrekstrinum hafa vakið furðu manna og spurningar um misjafnar kröfur til hinna ýmsu starfsmanna ríkisins, eins og hv. málshefjandi vék að hér áðan. Hæstv. menntmrh. rak Sigurjón Valdimarsson vegna vanrækslu í starfi og nefndi í bréfi sínu sérstaklega óviðunandi upplýsingar um fjárhagsstöðu sjóðsins sem Sigurjón lét ráðuneytinu í té í september s.l. Virðist ráðherra ekki hafa áttað sig á því hvernig slíkar áætlanir eru unnar. Sú áætlun var byggð á tölum námsársins á undan hvað varðar fjölgun og dreifingu námsmanna þar sem tölur vegna haustlána voru ekki farnar að skila sér og skiluðu sér ekki fyrr en löngu síðar. Má undarlegt heita að hæstv. ráðh. skuli ekki hafa notfært sér reynslu og þekkingu starfsfólks í ráðuneytinu sem hlýtur að hafa einhverja hugmynd um gang mála hjá lánasjóðnum auk þess sem ætla má að fyrrv. menntmrh. hafi verið kominn nokkuð vel inn í þau mál. Er þetta vafalaust til marks um samskiptaörðugleika eins og við heyrum svo oft um á ríkisstjórnarheimilinu.

Þess utan er svo ljóst af lögum og reglum Lánasjóðs ísl. námsmanna að það er stjórn sjóðsins sem ber ábyrgð á fjárhagsáætlun hans og þar með þeirri „vanrækslu“ sem ráðherra sakar Sigurjón um. Það er því álit margra að aðgerð ráðherrans sé byggð á röngum forsendum og varði jafnvel við lög. Um það get ég vissulega ekki dæmt.

Starfsmenn lánasjóðsins hafa skorað á forsrh., sem því miður virðist ekki staddur hér í dag, að láta rannsaka embættisfærslu menntmrh. varðandi brottvikningu Sigurjóns og ítrekar þá beiðni sína auk þess sem þeir hafa lýst yfir fullu trausti við Sigurjón og vitnað um trúmennsku hans í starfi. Væri ástæða til að inna hæstv. forsrh. eftir því hvað hann hyggst gera í því máli, en við því fást væntanlega ekki svör núna þar sem ráðherra er ekki viðstaddur.

Enda þótt það kunni að sannast að brottvikning Sigurjóns standist gagnrýni á lagalegum grunni er jafnvíst að framkoma hæstv. ráðh. í þessu máli öllu hefur gersamlega ofboðið siðferðiskennd allra réttsýnna manna. Kvennalistinn hefur þegar gagnrýnt ráðherrann harðlega á opinberum vettvangi fyrir þessa furðulegu embættisfærslu og ég vil lýsa hér vanþóknun okkar Kvennalistakvenna á gerræðislegum vinnubrögðum ráðherra sem lýsa fádæma skorti á samstarfshæfileikum og vilja til að leysa vandamál á farsælan hátt með tilliti til allra aðila og ekki síst málefnisins sjálfs. Það verður að teljast ljóður á ráði þeirra manna, sem treyst er til stjórnunarstarfa, að kunna illa að umgangast fólk.

Það versta við þetta mál er að með framkomu sinni í þessu máli og með sífelldum yfirlýsingum út um allar trissur hefur hæstv. menntmrh. magnað áhyggjur námsmanna sem enn mega þola óvissu í stað þess afkomuöryggis sem lánasjóðnum er ætlað að veita. Námsmenn eru nú upp til hópa ráðvilltir og kvíðafullir um sinn hag.

Tekist hefur að efla óvild í garð námsmanna og lánasjóðs þeirra með fullyrðingum um misnotkun og klifun á endurtekningum sem eiga að sýna fram á fáránleika þessa kerfis sem byggt var upp til að tryggja öllum jafnrétti til náms óháð kynferði, efnahag eða búsetu.

Ábyrgðarlaust tal þeirra, sem ættu að vita betur, veldur því að fjöldi manns heldur að allur þorri námsmanna fái yfir 50 þús. kr. til framfærslu á mánuði. Sögur eru sagðar af námsmönnum sem feli tekjur sínar, búi í foreldrahúsum og nýti námslánin til fjárfestingar í íbúð, bíl eða skuldabréfum.

Menn hneykslast á vaxtaleysinu og lengd endurgreiðslutímans og býsnast yfir því að eftirstöðvar séu felldar niður. Menn tala þessa dagana eins og það sé frekar reglan en undantekningin að menn endurgreiði ekki námslánin sín til fulls. Hæstv. menntmrh. kyndir undir þessa villutrú, m.a. með orðum sínum hér.áðan í ræðustóli og með svörum eins og lesa mátti í DV í gær, þar sem hann var á beinni línu hjá blaðinu. Þar er hann m.a. spurður hvað sá þurfi að borga til baka sem skuldi 5-6 millj. að loknu námi. Þú mundir ekki borga milljón til baka, svarar menntmrh. þar og segist síðan í miðjum klíðum að afnema soddan óráðsíu. Hann tekur undir við fsp. eins og hér sé um líklegt tilvik að ræða þótt staðreyndin sé einfaldlega sú að um 91% þeirra sem skulda lánasjóðnum eru með innan við 1 millj. kr. í skuld. Svona er nú farið að því að villa um fyrir almenningi. Er ekki að undra þótt menn haldi hið versta um þetta bákn sem þeim sýnist orðið að skrýmsli, en hæstv. menntmrh. í hlutverki hins hugrakka konungssonar sem ætlar að vinna á óvættinni.

Nei, sannleikurinn um Lánasjóð ísl. námsmanna er vitanlega allt annar. Markmið sjóðsins er að tryggja öllum jafnrétti til framhaldsnáms óháð kynferði, búsetu og efnahag og við megum vera stolt að því að það hefur honum tekist bærilega. Vitaskuld eru einhverjir sem misnota þetta kerfi. Ekkert kerfi er skothelt. Langflestir lántakendur eru þó heiðarlegar manneskjur sem stunda sitt nám með eðlilegum hraða og munu endurgreiða lán sín á 25-30 árum. Undantekningarnar sem sífellt er klifað á eru í rauninni fáar og skipta litlu fyrir heildina.

Lánasjóður ísl. námsmanna tekur vissulega til sín mikið fé, er jafnvel farinn að nálgast heilög vegamálin og á töluvert langt í land með að standa undir sér 90% eins og stefnt er að. Sjóðnum hefur raunar verið gert æ erfiðara að ná því marki þar eð of lág bein framlög úr ríkissjóði hafa neytt hann til mikillar lántöku sem aftur hefur í för með sér óhóflegan fjármagnskostnað. Á þessu ári munu t.d. fara um 200 millj. í fjármagnskostnað meðan innheimtar afborganir eru áætlaðar um 80 millj. á árinu.

Annar veigamikill þáttur sem hægt hefur á uppbyggingu sjóðsins er láglaunastefnan sem gerir það að verkum að endurgreiðslur lána skila sér verr og hægar en reiknað hafði verið með. Og það er láglaunastefna núv. ríkisstj. sem gerir það að verkum að námslán tryggja nú betri kjör en lægstu launataxtarnir. Það er þessi stefna og afleiðingar hennar sem rekið hafa fleyg milli námsmanna og láglaunafólks og alið á tortryggni á milli þeirra sem helst og best ættu að standa saman.

Hins vegar hefði ört vaxandi fjárþörf sjóðsins ekki átt að koma neinum á óvart. Með síauknum menntunarkröfum og uppbyggingu framhaldsskóla um allt land hefur lánshæfum umsóknum að sjálfsögðu fjölgað mikið. Það er aðeins gleðileg þróun. Við eigum að leggja metnað okkar í að búa þannig að námsfólki að allir fái notið menntunar og þroskað hæfileika sína. Menn verða að hugsa dæmið til enda. Þörfin fyrir háar fjárveitingar úr ríkissjóði mun fara ört minnkandi innan tiltölulega fárra ára þegar sá stóri hópur sem nú nýtur námslána verður farinn að endurgreiða lánin sín. Ætla má að um aldamótin þurfi fjárveiting ríkissjóðs ekki að vera nema sem svarar 100-200 millj. kr. á núvirði, þ.e. ef skammsýnum mönnum tekst ekki að eyðileggja þetta kerfi. Það fólk sem nú nýtur námslána mun að stórum hluta standa undir námslánakerfi barna sinna með endurgreiðslum eigin lána.

Ég vil aðeins víkja að þeim hugmyndum sem heyrst hafa um breytingar á lögum og reglum um Lánasjóð ísl. námsmanna. Um þær hugmyndir má vitna í ekki ómerkari heimildir en sjálft Morgunblaðið sem virðist hafa nokkuð hæg heimatök í menntmrn.

Í fyrsta lagi hefur verið talað um 3% ársvexti á námslán auk verðtryggingar, en námslán hafa verið verðtryggð í mörg ár, voru raunar á meðal fyrstu lána, ef ekki þau fyrstu, sem voru að fullu verðtryggð. Þessu til viðbótar er rætt um árlega lágmarksendurgreiðslu og gert ráð fyrir að lánin verði greidd til fulls á 30 árum. Þessum hugmyndum mótmælir Kvennalistinn harðlega svo sem fram kom í ályktun okkar sem ég las í upphafi máls míns. Endurgreiðsla lána er nú miðuð við ákveðið hlutfall af launum hvers og eins eða 3,75% sem tryggir að greiðslubyrði vegna námslána fer aldrei fram úr greiðslugetu og setur mönnum ekki óhóflegar skorður við heimilisstofnun og rekstri, íbúðarbygginga eða öðru því sem menn standa í þegar þeir eru að koma sér fyrir í lífinu að námi loknu. Það blasir auðvitað við hverjum slíkt endurgreiðslulágmark kæmi verst. Það eru vitanlega konurnar, hæstv. ráðh., sem alltaf eru tekjulægstar.

Við megum ekki gleyma því að einmitt þetta kerfi, sem við erum hér að tala um, námslánakerfið, hefur geysilega þýðingu fyrir konur og baráttu þeirra fyrir jöfnum rétti til náms og starfa. Árás á námslánakerfið jafngildir að mínu mati árás á jafnréttisbaráttuna. Það sannaðist m.a. þegar yfirvöld menntamála sviptu fyrsta árs nema rétti til víxillána hjá lánasjóðnum haustið 1984. Þá var nokkur hópur sem ekki treysti sér til að hefja nám þar eð bankarnir neituðu að hlaupa undir bagga. 2/3 úr þeim hópi voru konur.

Við vitum líka að margar konur reyna að samræma störf sín uppeldi barna sinna og eðlilegri samveru við þau. Þær reyna því að láta hálft starf eða 75% starf nægja, a.m.k. meðan börnin eru sem yngst. Lágmarksendurgreiðsla námslána mun reynast þeim þung í skauti. Hafði hæstv. menntmrh. hugsað út í þessa hlið málsins eða finnst honum nóg að samþykkja snyrtilega orðaðar yfirlýsingar um afnám mismununar gagnvart konum?

Við skulum líka gera okkur grein fyrir því að þyngri greiðslubyrði vegna námslána kallar vitanlega á hærri laun að loknu námi. Síst mundi ég sýta það að betur yrði gert t.d. við opinbera starfsmenn sem margir eru með langt nám að baki.

Önnur hugsanleg afleiðing er aukinn flótti menntaðra manna til útlanda þar sem hærri laun bjóðast. Þetta hlýtur að vera okkur verulegt umhugsunarefni.

Menn tala um að námslánin séu of ódýr og bjóði upp á misnotkun, óprúttnir námsmenn taki full námslán og fjárfesti í íbúðum, bílum, hávaxtareikningum eða skuldabréfum, meðal annars ríkissjóðs. Heldur hæstv. menntmrh. virkilega að þær ráðstafanir sem hér eru til umræðu muni stöðva þann ósóma sem vissulega er því miður til en vonandi í litlum mæli? Nei, það verða ekki þessir barónar sem hætta að taka námslán þótt þau verði dýrari. Það verða hinir efnaminni, námsmenn utan af landi, börn einstæðra og efnalítilla foreldra og stúlkur sem sjá ekki fram á að geta ráðið við endurgreiðslu þeirra. Það verða einnig konurnar sem verst fara út úr því ef hætt verður að taka tillit til tekna við úthlutun námslána. Þær eiga erfiðara með að fá vel launuð störf og geta síður bætt sér upp óhagstæðari námslán. Þannig leggst allt á eitt. Reiknað er með lækkuðum reksturskostnaði ef hætt yrði að taka tillit til tekna, en nú má búast við að hækkun lánveitinga af þeim sökum verði töluverð og er þá vandséð hver ávinningur yrði af þeirri ráðstöfun.

Þá má svo undarlegt heita að í sömu andrá og verið er að ræða leiðir til að draga úr kostnaði ríkisins vegna námslána er í fúlustu alvöru talað um að koma á fót einhvers konar styrkjakerfi. M.a. á að styrkja efnilega stúdenta í þjóðhagslega hagkvæmu námi, eins og það er látið heita í fyrstu fréttum af þessu. Var nema von að marga hryllti við. Ég fagna yfirlýstu hiki hæstv. menntmrh. í Morgunblaðinu í dag varðandi þessar tillögur. Látum nú vera þótt efnilegir stúdentar væru styrktir umfram hina óefnilegri, sem reyndar reynast oft ekkert síðri þegar lífsbaráttan kemur til, en ef „stóri bróðir“ ætlar að fara að ákveða hvaða nám sé þjóðhagslega hagkvæmt og styrkja hina efnilegu samkvæmt því líst mér ekki á blikuna. Slíkum hugmyndum mótmælir Kvennalistinn harðlega. Nægir að vísa til þess að ef slíkt styrkjakerfi hefði verið til fyrir áratug eða svo hefðu líklega flestir efnilegir námsmenn verið styrktir til verkfræðináms og við sætum uppi með hóp manna sem væru sérfróðir í byggingu orkuvera og væru nú komnir til útlanda í vinnu. Handritafræði hefði t.d. tæpast hlotið náð fyrir augum „stóra bróður“.

Loks vil ég vara við þeirri hugmynd að einskorða lánaúthlutun við fjárlagaupphæð án tillits til aðstæðna. Það yrði algjört rothögg á það kerfi sem búið er að byggja upp. Reynslan hræðir í þessum efnum. Á hverju einasta ári hefur verið togstreita milli lánasjóðsins og fjárveitingavaldsins. Forsvarsmenn lánasjóðsins hafa reiknað út fjárþörfina miðað við gildandi lög og reglur og líklega fjölgun lánþega, en fjárveitingavaldið haldið fast á móti og ævinlega úthlutað sjóðnum of litlu fé á fjárlögum. Og það er fjarri því að forsvarsmenn sjóðsins hafi verið einir um misgóðar áætlanir. Aukafjárveitingar á hverju einasta ári hafa ekki síður verið vegna þess að fjármálaspekingar ríkisvaldsins hafa spáð ranglega um þróun efnahagsmála. Svo mun enn vera í ár. Viðurkennt er að ef ráðstöfunarfé sjóðsins verður ekki aukið frá því sem ákveðið var á fjárlögum þessa árs þýðir það einfaldlega um 30% lækkun allra námslána. Er það í raun og veru ætlun menntmrh. að námsmenn geti búið við slíkt óöryggi að vita aldrei fyrr en á miðju námsári hverju þeir geta búist við sér til framfærslu á síðari hluta námsársins? Slíkum hugmyndum mótmælir Kvennalistinn harðlega. Slík tilhögun nær ekki nokkurri átt.

Herra forseti. Ég er sannfærð um að námsmenn hafa ekkert á móti endurskoðun úthlutunarreglna lánasjóðsins og skilja réttmæti þess að kjör þeirra séu í hátt við kjör almennings í landinu. Slík endurskoðun verður þó að fara fram í samráði við rétt kjörna fulltrúa námsmanna og með góðu samstarfi við þá. Námsmenn og umboðsmenn þeirra hafa um árabil deilt á afgreiðslu mála hjá lánasjóðnum og hafa ýmsar tillögur til úrbóta í þeim efnum. Ég þykist líka fullviss um að þeir mundu sætta sig við einhverja lækkun mánaðarlegs framfærslukostnaðar ef fullrar sanngirni væri gætt. En einræðislegum buslugangi menntmrh. verður að linna. Kvennalistinn er reiðubúinn til að taka þátt í endurskoðun á lögum og reglum um Lánasjóð ísl. námsmanna, en leggur áherslu á að niðurstöður slíkrar endurskoðunar brjóti ekki í bága við yfirlýst markmið sjóðsins um jafnrétti til náms. Ég heiti á þingmenn alla að standa vörð um Lánasjóð ísl. námsmanna, eitt helsta skjól jafnréttisins hér á landi.

Ég vil svo vitna í niðurlagsorðgreinar eða opins bréfs eftir ritstjóra Stúdentablaðsins, Ágúst Hjört, sem birtist í Morgunblaðinu í gær, en hann segir þar og beinir máli sínu til hæstv. menntmrh. Sverris Hermannssonar, með leyfiforseta:

„Taktu þig nú saman í andlitinu, bæði því pólitíska og persónulega. Nemdu úr gildi reglugerðarbreytinguna, réttu því starfsfólki sem enn er eftir í sjóðnum sáttahönd og ræddu í fullri alvöru við okkur námsmenn. Þú veist manna best hversu mikið veltur á um að vel takist til með menntun minnar kynslóðar því sú tíð rennur upp fyrr en seinna að við þurfum að borga skuldirnar bæði við lánasjóðinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Og þá er eins gott að kunna eitthvað fyrir sér.“

Ég vil svo að lokum vekja athygli hæstv. ráðh. á hinum mikla fjölda námsmanna sem fylla nú þingpalla. Rétt áður en ég kom í þennan ræðustól barst mér til eyrna að þrefalt fleiri hefðu orðið frá að hverfa. Það sýnir hug námsmanna til þessa máls. Það sýnir ótta þeirra um málefni lánasjóðsins í höndum hæstv. menntmrh. Og ég vorkenni ráðherra að hafa látið í ljós það álit sitt á námsmönnum, að manni skildist upp til hópa, að þeir væru braskarar sem litu á lánasjóðinn sinn sem tæki til að sækja sér ódýrt fjármagn til ávöxtunar. Það er ómaklegt, hæstv. ráðh., og mig undrar hvers konar fólk hæstv. ráðh. þekkir í hópi námsmanna. Ég þekki ekki námsmenn af þessu tagi.