11.02.1986
Efri deild: 47. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2505 í B-deild Alþingistíðinda. (2100)

248. mál, póstlög

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég tel það alveg sjálfsagt að verða við beiðni hv. 5. landsk. þm. um að samgn. komi því áleiðis til þeirra þm. hv. deildar sem ekki eiga sæti í nefndinni hver þessi tillaga hafi verið frá endurskoðunarnefndinni þannig að þm. geti, ef hann kærir sig um, flutt brtt. þar um, ef nefndin kemur ekki til með að gera það, sem ég auðvitað veit ekki um.

Það er mikill misskilningur hjá hv. 8. landsk. þm. að það sé verið að setja lög sem ekki á að fara eftir. Þetta eru fyrst og fremst lög um það sem eru skyldur Pósts og síma. Síðan kemur aftur framkvæmd laganna, hvað Póstur og sími ætli að ganga langt í þessum skyldum sínum. En eftir sem áður hvíla skyldurnar á Pósti og síma og jafnframt er hægt að koma í veg fyrir að stórfelld misnotkun eigi sér stað, þannig að farið sé að bera út bréf í hverfi almennt af einhverjum óskyldum aðila, en Pósti og síma sé aftur á móti ætluð sú skylda að fara, þó að komi bara eitt bréf, og bera þau út um allt land. Þetta er það sem er höfuðatriði þessa máls. Og þá auðvitað bregður Póstur og sími við.

Það er erfitt að segja fyrir um hvað eigi að gera og hvað ekki. Það sem þetta frv. gerir ráð fyrir er að geta stýrt þessu fremur með reglugerðum og frjálslega. Þau rúm 21/2 ár sem ég hef verið samgrh. hafa komið á mitt borð tilmæli um stöðvun á útburði bréfa á tilteknum stöðum þar sem farið hafi verið inn á verksvið Pósts og síma og ég hef úrskurðað það að menn skyldu ekki skipta sér af því þar sem það er innan þeirrar hefðar sem hefur verið látin viðgangast. Og þannig er ætlunin að framkvæma þetta frv., ef að lögum verður, því þarna er í raun og veru lítil breyting frá hinum 45 ára gömlu lögum. En allt þetta er miklu auðveldara með tilliti til breyttra tíma, breyttra verkefna, að stýra fremur með reglugerðum. En til þess að reglugerð sé gild þarf hún að hafa stoð í lögum.