29.10.1985
Sameinað þing: 8. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í B-deild Alþingistíðinda. (214)

47. mál, kynlífsfræðsla í skólum

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Fyrir um tveimur árum eða 8. nóv. 1983 svöruðu þáv. hæstv. heilbrrh., Matthías Bjarnason, og þáv. hæstv. menntmrh., Ragnhildur Helgadóttir, fsp. minni um framkvæmd I. kafla laga nr. 25/1975 um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir. Svör þeirra voru allítarleg og vitnuðu að mínum dómi um áhuga þeirra og skilning á mikilvægi þess að þessi kafli laganna verði framkvæmdur á viðunandi hátt. En á það skortir töluvert að margra dómi. Er það þeim mun alvarlegra sem sá kafli var í raun og veru grundvöllur lagasetningar nr. 25 á sínum tíma.

Í svari þáv. hæstv. menntmrh. kom fram að kennarar væru mjög misvel í stakk búnir að annast þessa lögboðnu fræðslu. Þar kom einnig fram að kennaranemar fengju töluverðan undirbúning í kennslu á þessu sviði. En um leið - og ég vitna orðrétt í ummæli þáv. hæstv. menntmrh., með leyfi forseta: „Full þörf virðist vera á námskeiðum um kynfræðslu fyrir kennara og leiðbeiningum um kennslu og auk þess á samstarfi við foreldra um þessi efni.“ Og á öðrum stað sagði menntmrh.: „Hins vegar þarf að gera átak í að fylgja nýju efni eftir í skólum með námskeiðum fyrir kennara og leiðbeiningu og aðstoð.“

Fyrri liður fsp. minnar á þskj. 47 er til að leita svars við því hvort eitthvað hafi gerst í þeim efnum sem hér var vikið að.

Síðari liðurinn hljóðar svo, með leyfi forseta: „Hefur menntmrn. haldbærar upplýsingar um hvernig þessari fræðslu er sinnt í skólum landsins?" Og þarfnast þetta ekki skýringa.