13.02.1986
Sameinað þing: 47. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2558 í B-deild Alþingistíðinda. (2144)

229. mál, skólasel

Flm. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Á yfirstandandi skólaári þurfa 459 nemendur á aldrinum 7 til 12 ára að dveljast í heimavist hér á landi. Þar af eru 180 á aldrinum 7-9 ára. Dvalartími er mislangur, 7-24 vikur hjá yngri börnunum en 16-30 vikur samtals hjá þeim eldri.

Þessar upplýsingar komu fram í svari menntmrh. við fsp. minni í nóv. s.l. en svarið er birt í heild sinni sem fskj. á þskj. 457. Upplýsingarnar, sem þar koma fram, hafa vakið talsverða athygli og umtal enda er hér minnt á vanda sem margir þéttbýlisbúar eiga erfitt með að gera sér grein fyrir.

Í ljósi þessara upplýsinga hef ég leyft mér að leggja fram till. til þál. um skólasel ásamt hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur og Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur. Till. er á þskj. 457 og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela menntmrh. að sjá til þess að skólaseljum, þ.e. útibúum frá aðalskólum fyrir yngstu bekki grunnskóla, verði komið á fót þar sem þeirra er þörf. Stefnt skal að því að engin börn innan 10 ára aldurs þurfi að dveljast í heimavist á næsta skólaári.“

Áhugi þingflokks Kvennalistans á þessu máli vaknaði á ráðstefnu sem Kvennalistinn á Vesturlandi hélt í júní 1985 þar sem m.a. var fjallað um skólamál í dreifbýli. Hópur kvenna hafði kynnt sér skólahald, einkum á Vesturlandi. Þær höfðu rætt við kennara og foreldra og grúskað í lögum, reglugerðum og skýrslum. Niðurstaða þeirra var sú að margt mætti betur fara. En eitt fannst þeim brýnast alls og það var afnám þess sem þær kölluðu „nútímafráfærur“, þ.e. heimavistardvöl skólabarna.

Nú vill svo til að fyrir því er lagaheimild því að í 4. gr. laga nr. 63/1974, um grunnskóla, segir svo, með leyfi forseta: „Í strjálbýli skal stefnt að heimanakstri nemenda þar sem honum verður við komið vegna vegalengda, vegakerfis og veðurfars. Heimilt er ráðuneytinu að fenginni tillögu hlutaðeigandi fræðsluráðs að koma á fót útibúum frá aðalskóla skólahverfis fyrir 7-10 ára börn þar sem heimanakstri til aðalskóla verður ekki við komið.“

Þrátt fyrir þessa lagaheimild hafa aðeins fá slík útibú verið stofnsett og starfrækt hér á landi til þessa. Vafalaust eru ýmsar ástæður fyrir því að ekki hafa enn verið stofnsett fleiri skólasel. Það er ljóst af orðalagi greinarinnar að fræðsluráð viðkomandi staða ráða mestu um framkvæmdina. En fyrst og fremst hljóta það að vera foreldrarnir sem knýja á um aðgerðir og víst er að það hefur ekki alls staðar verið auðsótt mál. Veit ég til þess að a.m.k. á einum stað hafðist þetta ekki í gegn fyrr en eftir mikla baráttu og fyrir algera samstöðu heimafólks. En þar ríkir síðan mikil ánægja með þetta fyrirkomulag.

Reyndar er rík ástæða til að ætla að mörgum foreldrum sé allsendis ókunnugt um þennan möguleika til úrlausnar og hafi því ekki reynst sá þrýstihópur sem virðist þurfa til auk þess sem foreldrar eru oft býsna ósamstæður þrýstihópur.

Rökin, sem heyrst hafa gegn skólaseljum, hafa einkum verið þau að rekstur þeirra sé of kostnaðarsamur, þau verði alltaf illa búin námsgögnum vegna nemendafæðar og erfitt sé að fá kennara til að taka að sér kennslu í skólaseljum, einkum vegna þess að þeim þyki þeir verða einangraðir frá stærri skólum. Þessi rök eru léttvæg miðað við þann ávinning sem skólaselin hafa í för með sér og engin afsökun fyrir því að nýta ekki þessa lagaheimild. Auk þess getur í mörgum tilvikum verið um hreinan peningalegan sparnað að ræða eftir því sem mér er tjáð, það fer allt eftir aðstæðum.

Stofnun skólaselja þarf alls ekki alls staðar að vera svo mikið fyrirtæki þar sem víða má nýta lítt notað húsnæði svo sem félagsheimili eða sveitaheimili þar sem aðstæður hafa breyst og rýmkast. Kennsla í yngstu bekkjum grunnskóla krefst heldur ekki svo mikilla gagna að það geti á nokkurn hátt verið hindrun í vegi fyrir stofnun skólaselja. Erfiðast kann að vera að fá kennara til starfa en það er gömul saga sem á rætur sínar í ómaklegum kjörum þeirrar stéttar sem við treystum fyrir uppfræðslu og að hluta til uppeldi barnanna okkar.

Í rauninni finnst mér vart sæmandi að blanda peningamálum í þessa umræðu. Það er allt of mikið horft í kostnað og reynt að spara fyrirhöfn þegar börn eiga í hlut en of lítið skeytt um sálarheill.

Þótt bernskuárin séu orðin fjarlæg ætti hver og einn fullorðinn að geta sett sig í spor foreldris sem verður að láta frá sér 7-12 ára barn sitt vikum saman og veit oft lítið hvað það má reyna. Aðstæður í heimavist eru yfirleitt gerólíkar því sem barnið hefur vanist á heimili sínu og viðbrigðin eru gífurleg. Slík reynsla getur haft varanleg áhrif á viðkvæma barnssál og áreiðanlega í fleiri tilvikum til hins verra.

Ég vil nú, með leyfi forseta, vitna beint í erindi sem tvær konur í skólamálahóp Kvennalistans á Vesturlandi fluttu á fyrrnefndri ráðstefnu á Varmalandi. Konurnar heita Svava Guðmundsdóttir og Sigríður Pétursdóttir. Þær segja m.a.:

„Með hagsmuni barna og foreldra í huga teljum við að þau eigi rétt á að vera hjá foreldrum sínum svo lengi sem kostur er. Hér er um að ræða börn sem í flestum tilfellum hafa lítið sem ekkert dvalið annars staðar en heima hjá sér, t.d. ekki á leikskólum og dagheimilum, ekki einu sinni á róló eins og flest þéttbýlisbörn. Því verða viðbrigðin geysileg.

Hugsum okkur bara 6-7 ára barn sem er að fara að heiman frá pabba og mömmu í fyrsta sinn á ævinni. Þetta barn kemur inn í stóran hóp barna sem flest eru eldri en það sjálft, allt upp í 16-17 ára slöttólfa. Lætin eru óskapleg miðað við rólegt fjölskyldulíf og barnið hefur aldrei kynnst neinu slíku og þekkir sennilega ekkert þá sem ólátunum valda. Eðlileg fyrstu viðbrögð hljóta því að verða hræðsla við það sem koma skal. Og hvert getur barnið leitað með ótta sinn? Það þekkir ekkert starfsfólk skólans. Um kvöldið á barnið svo að sofa í ókunnu herbergi með þrem öðrum börnum, stundum eldri börnum sem eru með yfirgang. Kannske er sums staðar í skólum kona sem les fyrir litlu krakkana á kvöldin, segir sögu eða les bænir með þeim og klappar á litlu kollana áður en þau fara að sofa og þess háttar. En því miður, það er ekki nema sums staðar. Svo er vistunum læst, enginn fullorðinn þar lengur, bara tugir krakka á öllum aldri.

Það var mikil umræða í vetur um grimmd eldri barna við þau yngri á leikvöllum í Reykjavík þá stuttu stund sem er milli kennslustunda í skólunum þar. Hvernig er þá mórallinn í heimavistarskólunum þar sem börnin þurfa að umbera hvert annað fimm daga vikunnar? Þau komast aldrei út úr hópnum, hvergi er afdrep þar sem þau geta verið ein utan við skarkalann sem skólum og heimavistum hlýtur alltaf að fylgja. Við mæður þekkjum vel þegar börnin okkar koma heim á föstudögum alveg örþreytt. Oftast fara þau beint upp í rúm að leggja sig og eru svo að ná sér yfir helgina. Oft verða þau öryggislaus og kvíðin, nokkuð sem mjög erfitt getur verið að losna við og það getur haft slæm áhrif á skólagöngu þeirra og líf svo árum skiptir.

En hvað er þá helst til ráða? Við teljum skólaselin vera bestu lausnina í þeim sveitum þar sem heimanakstur kemur ekki til greina. Þar læra börnin að umgangast önnur börn og sá hópur, sem er saman í skólaseli, stendur gjarnan saman þegar í móðurskólann kemur. Það er líka mikill munur á hvað börn eru orðin þroskaðri og betur undir það búin að fara að heiman 10 ára gömul en þrem til fjórum árum fyrr.

Sjálfsagt þykir einhverjum þetta afturför til þeirra tíma þegar farkennsla var algeng í sveitunum í gamla daga. En var það í rauninni svo slæmt? Við sem munum þessa gömlu sveitaskóla vitum að tíminn var vel nýttur og nú finnst mér með ólíkindum hvað börn lærðu mikið þann stutta tíma sem skóli var oft starfræktur, enda var skólaleiði víst svo til óþekkt fyrirbrigði í þá tíð.

Það eru örugglega allflestir, bæði börnin og foreldrarnir, sem finnst það of snemmt að krakkar fari að heiman 10 ára gömul, hvað þá fyrr, og komi úr því eins og gestir heim, aðeins um helgar allan veturinn. Núverandi ástand þar sem eingöngu er heimavist minnir einna helst á fráfærurnar í gamla daga nema hvað nú eiga í hlut foreldrar og börn en ekki sauðfé.“

Í umræðum um þetta erindi fengum við, sem tókum þátt í þessari ráðstefnu, að heyra margar reynslusögur og þær ófagrar sumar. M.a. sagði ein kona frá því þegar hún kom í heimsókn í stóran heimavistarskóla að hún hafði heyrt skarkala og óp frá salernum drengjanna og var þá verið að baða einn pollann upp úr klósettskálinni. Vonandi eru slíkir atburðir ekki algengir en víst er að skólastjórar, kennarar og umsjónarmenn heimavista bera mikla ábyrgð sem misjafnlega gengur að axla. Börnin eru líka eins misjöfn og þau eru mörg og ekki þarf nema einn gikk til að skapa illviðráðanleg vandamál í heimavist. Þótt allt sé með felldu er heimavistardvöl ávallt áraun og því meiri sem barnið er yngra.

Eftir að till., sem hér er til umræðu, var kynnt í þingfréttatíma útvarpsins hafði m.a. samband við mig sveitakona sem á tvö ung börn, að mig minnir 7 og 9 ára, í heimavistarskóla. Þeirra reynsla er slík að börnin eru nánast yfirkomin af þreytu þegar þau koma heim um helgar og foreldrarnir geta vart á heilum sér tekið að þurfa að leggja þetta á þau og eru að velta fyrir sér að flytja í þéttbýlið þess vegna.

Þá frétti ég af tónlistarkennara sem kennir í tveimur skólum á landsbyggðinni, annar er heimavistarskóli, hinn heimanakstursskóli. Hann sagði erfiðara að ná athygli barnanna í heimavistarskólanum á þriðjudegi en barnanna í heimanakstursskólanum á föstudegi.

Í sambandi við heimanakstur má kannske geta þess að flestir virðast telja að hann sé betri, það sé betra að hafa heimanakstur en heimavist. Þó getur sá kostur reynst mjög erfiður þeim sem lengst eiga og dæmi eru um börn sem þurfa að eyða allt að 2-3 klst. daglega í skólabíl. Þarf ekki mörg orð um það hvílík raun það getur verið ungu barni sem auk þess er svo ætlað að skila heimavinnu.

Slíkar aðstæður eru vitanlega ekki sæmandi og víða hefur niðurstaðan orðið sú að börnin fá mjög samþjappaða kennslu í nokkra daga en eru svo heima hjá sér á milli. Þá getur stundaskráin hljóðað eitthvað á þessa leið: Lestur, skrift, reikningur, lestur, skrift, reikningur. Má geta nærri hvað orðið eru um áhugann og eftirtektina í síðustu kennslustundunum.

Raunin eru sú að fjölmörg íslensk börn búa við skerta skólagöngu en foreldrar þeirra kjósa fremur skerta skólagöngu en langa heimavistardvöl. Í rauninni ætti ekki að þurfa að bjóða nokkru barni undir 12 ára aldri upp á það að dveljast langdvölum í heimavist fjarri foreldrahúsum en að fyrirmynd grunnskólalaganna setur till. okkar, sem hér er til umræðu, mörkin við 10 ára aldurinn. Sjálfsagt finnst okkur þó að stefna að því á allra næstu árum að börn innan 12 ára þurfi ekki að dveljast í heimavist.

Enda þótt lagaheimildin virðist gera ráð fyrir að frumkvæðið að stofnun skólaselja komi frá fræðsluráðum viðkomandi staða er ábyrgðin hjá menntmrn. og því eðlilegt að það taki nú af skarið um að koma á fót skólaseljum þar sem þeirra er þörf.

Okkur flm. er þó ljóst að þrátt fyrir tvímælalausan rétt foreldra og barna um allt land eru aðstæður sums staðar slíkar að ekki er unnt að framfylgja markmiðum þessarar till. En lögð skal áhersla á að leitað verði ýtrustu leiða til að gera hér verulegt átak til úrbóta. Mér þykir vænt um að hæstv. menntmrh. hefur gefið sér tíma til að hlusta á framsögu mína hér og vona að hann sé mér sammála um að hér þurfi að ráða bót á. Í þjóðfélagi okkar, sem við viljum kenna við velferð, er með öllu óverjandi að bjóða 180 börnum undir 10 ára aldri upp á það að þurfa að dveljast langdvölum í heimavist.

Herra forseti. Að lokinni umræðu um þetta mál legg ég til að því verði vísað til hv, félmn.