18.02.1986
Sameinað þing: 48. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2589 í B-deild Alþingistíðinda. (2179)

253. mál, norsku- og sænskunám í grunnskóla og framhaldsskóla

Fyrirspyrjandi (Guðrún J. Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 483 lagt fram fsp. um aðstöðu til norsku- og sænskukennslu í grunn- og framhaldsskólum.

Grunnskólalög kveða á um að kenna skuli öðrum þræði erlend mál sem stuðlað geti að varðveislu tengsla þjóðarinnar við norræna menningu og uppruna sinn. Í samræmi við fyrirmæli grunnskólalaga hafa skólar á grunnskóla- og framhaldsskólastigi haft norræn mál á kennsluskrá sinni. Ýmsar augljósar ástæður eru fyrir því að danska hefur oftast verið það norræna mál sem kennt hefur verið, en á síðustu 15-20 árum hefur íslenskum grunn- og framhaldsskólanemum, sem búið hafa í Svíþjóð eða Noregi en flutt heim til Íslands, fjölgað mjög.

Fyrir 15 árum var farið að veita a.m.k. þeim nemendum sem á Reykjavíkursvæðinu búa kennslu og aðstöðu til að taka próf í sænsku eða norsku í stað dönsku. Þá voru hóparnir ekki stórir og stundum kennt saman fleiri en einum árgangi. Kennarar voru tveir, Björg Juhlin norskukennari og Sigrún Hallbeck sænskukennari. Þær voru ráðnar til stundakennslu í þessum greinum. Bráðlega fóru þær líka að veita nemendum út um landið aðstoð með því að senda þeim lesefni, æfingar og próf.

Skólaárið 1980-1981 voru grunnskólanemendur sem stunduðu norsku í dönsku stað 65 alls, en 100 í sænsku. Þá voru áðurnefndir kennarar skipaðir í hálfa stöðu hvor til að veita nemendum á höfuðborgarsvæðinu kennslu og nemendum vítt og breitt um landið sömu þjónustu og fyrr.

Enn hefur nemendafjöldinn aukist. Nú munu vera í norsku rúmlega 100 nemendur á grunnskólastigi og 3540 á framhaldsskólastigi og 160 nemendur eru á höfuðborgarsvæðinu í sænsku á grunnskólastigi og sennilega 40 úti um land, en 55-60 á framhaldsskólastigi auk nokkurs fjölda út um land.

Nú hefur ríkið ráðið þessa tvo kennara í fulla stöðu hvora fyrir sig og nægir það engan veginn til að veita lágmarksfræðsluþjónustu.

Enn reyndi á velvilja og áhuga stjórnvalda í haust er við blasti sá vandi sem nemendafjöldinn skapar. Nú var gripið til þeirra úrræða að koma á eins konar farkennslu í sænsku og norsku í Reykjavík og nágrenni. En betur má ef duga skal. Mér er kunnugt um að nokkur brögð eru að því að nemendur sæki ekki þessa kennslu vegna fjarlægðar og óheppilegs skólatíma. Einn helsti tálmi nemenda hefur verið skortur á kennsluefni og það hve sænskar og norskar kennslubækur eru dýrar. En bækur fyrir norska og sænska nemendur eru notaðar til kennslu þeirra nemenda sem hér um ræðir því þeir eru oftast allvel talandi á umræddar tungur. Ef við óskum að bjóða fram kennslu í norsku og sænsku til jafns við dönsku er ég hrædd um að það sé langt í land því þá kemur í ljós mikill skortur á kennslubókum og Námsgagnastofnun fjárvana eins og menn vita.

Þeir nemendur sem koma heim frá Noregi og Svíþjóð eða eru svo tengdir þessum löndum að þeir tala málin að meira eða minna leyti og þekkja menningu og líf þessara frændþjóða okkar eru fjársjóður sem okkur ber að leggja rækt við en ekki að gera þeim svo erfitt fyrir að þeir gefist upp á að viðhalda þekkingu sinni í málunum hvað þá að bæta hana. Það að við skulum leggja á okkur nám í Norðurlandamálum er einn þátturinn í viðleitni okkar til að halda menningu okkar og sjálfstæði og það er sannarlega ómaksins vert.

En við erum líka að gera annað þó að við hugsum e.t.v. ekki oft út í það. Við erum að opna frændþjóðum okkar leið til tjáskipta við þá þjóð sem þrátt fyrir allt hefur varðveitt hlóðaeld norrænnar menningar og tungu hvað best. Þau tengsl mega ekki rofna og sá eldur ekki kulna. Því hef ég borið þessa fsp. fram.