18.02.1986
Sameinað þing: 49. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2618 í B-deild Alþingistíðinda. (2231)

Búmark í mjólkurframleiðslu

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég held að það orki ekki tvímælis að sú reglugerð sem hér er um að ræða sé í samræmi við þau lög sem voru sett á s.l. vori. Hvorugt er hins vegar gallalaust.

Það var auðvitað nauðsynlegt að takmarka mjólkurframleiðsluna og það áttu allir bændur að vita. Það er ekki gild afsökun að það þurfi að koma flatt upp á bændur nú að þeir hafi þurft að draga saman eftir lagasetninguna, sérstaklega eftir lagasetninguna í fyrravor þar sem ákvarðað var að 30% samdráttur á útflutningsbótum yrði á einu ári.

Héraðakvótinn var sjálfsagður og eðlilegur. Það er hörmulegt til þess að vita að hv. þm. Pálmi Jónsson skyldi ekki beita sér fyrir honum í sinni ráðherratíð. Það hefur reyndar tekist að sumu leyti óhönduglega til við setningu héraðakvótans og þá sérstaklega skiptingu framleiðsluréttar á milli einstakra bænda vegna þess að það er gróflega hallað rétti þeirra svæða og sérstaklega þeirra bænda sem urðu við tilmælum stjórnvalda að draga saman á sínum tíma. Þeirra hlutur er skertur mjög á kostnað þeirra sem ekkert mark tóku á stjórnvöldum og framleiddu eins og ekkert hefði í skorist og jafnvel juku við framleiðslu sína.

Mín samúð er ekki sérstaklega með þeim svæðum og þeim einstaklingum sem á þessu verðlagsári hafa ausið fóðurbæti sem aldrei fyrr og aukið framleiðslu sína í stórum stíl, kannske um fjórðung eða meira einstöku menn. Þetta hafa menn gert vitandi vits um að þeir yrðu að draga verulega saman á síðari hluta ársins eða þá að framleiða verðlausa mjólk í árslok.

Samúð mín er fyrst og fremst með þeim sem drógu framleiðslu sína saman og fá nú verulega skerðingu ofan á mikinn samdrátt frá viðmiðunarárunum.

Ég tel að sú reikniregla sem var notuð til að skipta á milli einstakra bænda sé stórgölluð. Búmarkið er eign bóndans. Búmarkið ákveður lífsbjargarmöguleika af hefðbundinni framleiðslu á viðkomandi jörð. Eðlilegra hefði verið að hlutfall af búmarki hefði vegið þyngra í skiptingunni milli bænda. Ákvörðun um að enginn fái að framleiða meiri mjólk en hann gerði í fyrra plús hugsanlega 10%, hversu langt sem hann var undir búmarki, er ekkert annað en að svipta menn réttmætri eign sinni. Með þeirri aðferð sem nú er upp tekin þorir náttúrlega enginn bóndi annað en að framleiða að fullu upp í framleiðslurétt sinn hvort sem hann ætlaði sér að gera það eða ekki því annars á hann á hættu að glata því. Bændur geta í mörgum tilfellum hagrætt framleiðslu sinni verulega þannig að samdráttur í framleiðslu þarf ekki að vera samdráttur í nettótekjum.

Ég held að héraðakvótann hafi þurft að setja og skipting milli einstakra framleiðenda í þetta skipti sé ófullkomin frumsmíð. Ég held að sú stefna megi ekki verða ofan á, sem örlað hefur á í umræðunni undanfarið, að það beri að stækka stóru búin og gera minni bændunum ókleift að búa. Þeirri stórbændastefnu er ég algjörlega andvígur.