18.02.1986
Sameinað þing: 49. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2627 í B-deild Alþingistíðinda. (2246)

Búmark í mjólkurframleiðslu

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Þetta er fróðleg umræða þótt auðvitað sé þess enginn kostur að ræða þetta mál neitt efnislega á þeim stutta tíma sem mönnum er hér skammtaður, en ég verð að segja að mér þykir einkennilegt að heyra þá heilögu vandlætingu sem kom fram hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni t.d. sem talaði hér af meiri þunga og var meira niðri fyrir en ég minnist að hafa heyrt eða orðið vitni að hér áður. Hv. 2. þm. Austurl. kemur líka og segir: Við Alþýðubandalagsmenn höfum um langt skeið talað fyrir framleiðslustjórnun. Ég hef ekki átt sæti á hinu háa Alþingi mjög lengi. Ég minnist þess þegar heillaráð Alþb. í landbúnaðarmálum var að framleiða meira, og eins og sumir orðuðu það: Það væri hægt að leysa þennan vanda með því að borða meira. Það voru lausnarorð Alþb. á sínum tíma. Það er gott að þeir skuli hafa séð að sér og séð nauðsyn framleiðslustjórnunar í landbúnaði sem Alþfl. hefur talað um í áratugi og allir viðurkenna nú.

Hitt er svo það að það hefur tekist mjög illa til um framkvæmdina núna, alveg hrapallega. Um það eru menn sammála og um það bera vitni þeir fjölmörgu fundir sem bændur boða nú til víða um land. Þetta verður auðvitað að leiðrétta, en það er ekki deilt um nauðsyn framleiðslustjórnunar. Fulltrúar Alþýðuflokksins hér á þingi hafa talað um þetta í mörg ár. Bændum varð þetta snemma ljóst. Forustumönnun bændastéttarinnar varð þetta seinna ljóst, en nú er öllum þetta ljóst og auðvitað verður að vinna að því að framkvæma þetta með skynsamlegum hætti. Það hefur ekki tekist núna, það hefur tekist mjög óhönduglega til. Raunar er annað vandamál sem er kannske miklu stærra og það er að þessar hefðbundnu búvörur, eins og lambakjötið og minnst hefur verið á hér, eru ekki lengur samkeppnisfærar. Þar hleðst og hrannast upp vandamál sem menn hafa ekki byrjað á að leysa.

Ég tek undir það að að ýmsu leyti hafa bændur verið blekktir og það er ljóst að við mörgum einstaklingum í bændastétt blasir nú alveg gífurlegur vandi. Þess vegna eru það stór orð sem hv. 11. landsk. viðhefur er hann segir: Það verða hvergi nein slys í þessu sambandi. Betur að satt væri, en ég efast stórlega um að hann sé maður til að standa við slíkar fullyrðingar. Ég vona að það verði engin slys en þetta er ansi stórt til orða tekið. Hér hefur illa tekist til og úr því þarf að bæta. Það er hægt, vissulega. Það tekur tíma, en sú gagnrýni sem hér hefur verið sett fram á fullan rétt á sér. Hæstv. fjmrh. er nú illa fjarri góðu gamni. Þingbróðir hans og flokksbróðir, hv. þm. Eggert Haukdal, hefur lýst þeirri bjargföstu skoðun sinni að hækka beri og auka niðurgreiðslur. Ég geri ráð fyrir að hæstv. fjmrh. sé á öðru máli og það væri fróðlegt að heyra hvort þriðji fulltrúi Sjálfstfl. úr þessu bænda- og landbúnaðarkjördæmi hefur kannske þriðju skoðunina á þessu máli, en það kemur væntanlega í ljós hér á eftir.