19.02.1986
Efri deild: 49. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2642 í B-deild Alþingistíðinda. (2258)

228. mál, Seðlabanki Íslands

Jón Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð um það frv. til laga sem hér liggur fyrir um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands. Ég vil láta hér í ljós skoðun á frv. í örfáum orðum en sleppa öðrum málum sem verið hafa hér til umræðu, eins og tollamálum, því að það er bálkur sem er þörf á að ræða sérstaklega en ekki í tengslum við það mál sem hér liggur fyrir.

Frv. kveður á um það að breyta 11. gr. laga um Seðlabanka í það horf að hámark bindiskyldu af innistæðufé verði fært úr 28% skv. núgildandi lögum í 10%, en bindiskyldan er nú 18%. Ég vil benda á það, sem reyndar kom fram í framsögu hv. flm., að hér á hv. Alþingi er nú til meðferðar frv. til l. um Seðlabanka Íslands sem fjallar nokkurn veginn um sama efni og er miklum mun víðtækara en það frv. sem hér liggur fyrir. Það er mín skoðun að miklu eðlilegra sé að fjallað sé um þessi mál í tengslum við það frv. eða fella efni þessa frv. að því.

Í seðlabankafrv. er fjallað um þessi mál. 8. gr. þess hefst á orðunum: „Þegar sérstaklega stendur á getur Seðlabankinn með samþykki ráðherra ákveðið að innlánsstofnanir skuli eiga fé á bundnum reikningi í bankanum.“ Þannig er breytt um áherslur og ríkjandi ástand gert að undantekningarákvæði.

Ég vildi láta þetta koma fram hér við 1. umræðu málsins. Að sjálfsögðu er rétt að fjalla mjög rækilega um þetta mál í fjh.- og viðskn. og leiða þar fram rök og gagnrök í sambandi við þær peningamagnskenningar sem hv. flm. Eyjólfur Konráð Jónsson hefur haldið fram og fá þar hina færustu sérfræðinga til að leiða saman hesta sína á því sviði. Ég mun ekki fjalla um þær kenningar hér sérstaklega en vil styðja það að málið fái mjög rækilega umræðu í hv. fjh.- og viðskn.

Ég vil benda á það að aukin þensla á peningamarkaðinum gæti kallað á aukinn viðskiptahalla og aukinn viðskiptahalli kallar á auknar erlendar lántökur. Það er því ekkert einhlítt í þessum efnum.

Ég vil aðeins benda á það í sambandi við ræðu hv. 8. þm. Reykv., þar sem hann ræddi um húsnæðismál, að e.t.v. eru vandamál húsbyggjenda ekki eingöngu fólgin í því að húsbyggjendur fái ekki lánsfé. Vandamál húsbyggjenda er verðbólgan í landinu og afgjaldið fyrir peninga, verðtrygging og vextir. Á þeim málum verður því að taka, eins og menn eru reyndar að reyna þessa dagana.

Ég vildi ekki láta þessa umræðu hjá líða án þess að láta þá skoðun mína í ljós að eðlilegast hefði verið að fjalla um þetta frv. í samhengi við frv. til l. um Seðlabanka Íslands og fella þá efni þess að því frv. Ég er þeirrar skoðunar að það sé tæpast eðlilegt að lögbinda einhver ákveðin mörk bindiskyldu og tel eðlilegra að stjórnvöld hafi svigrúm til ákvarðana í þessum efnum.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu meira að þessu sinni. Mér gefst tækifæri til að fjalla um þessi mál í hv. fjh.- og viðskn. og við afgreiðslu málsins á síðari stigum.