30.10.1985
Efri deild: 10. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í B-deild Alþingistíðinda. (239)

75. mál, umferðarlög

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég mun ekki fara út í efnislega umræðu um það lagafrv. sem hér liggur fyrir. Ég fagna því eins og aðrir sem hér hafa talað að þetta frv. er fram komið. Þar sem atvikin hafa hagað því þannig til að ég á sæti í þeirri nefnd sem mun fá þetta til umfjöllunar og mun stýra starfi hennar í vetur þá vil ég láta það koma fram hér úr þessum ræðustól að ég mun að sjálfsögðu ekki liggja á liði mínu til þess að þetta mál verði afgreitt hér á hv. Alþingi því sem nú situr. Hins vegar sé ég að hér er mikil vinna fram undan og vil taka það fram að ég er alveg reiðubúinn fyrir mína parta til samstarfs við hv. samgn. Nd. ef málin þróast þannig að nefndirnar næðu samkomulagi um að vinna saman að þessu máli.

Það hafa komið fram í máli manna hér margar athugasemdir. Bunkinn af umsögnum um frv. sem hv. 2. þm. Austurl. kom með upp í ræðustól áðan er ansi þykkur. Það er því mikið verk fram undan við að yfirfara þær og ég vil taka það fram að ég vil leggja mig fram um að vinna að þessu máli því að ekki mun af veita. Ef samþykkt þessa frv. gæti bætt umferðarmenningu okkar þá er til mikils barist. En það er með þessi lög eins og önnur lög sem sett eru að ekki er nóg að setja þau heldur þarf að framkvæma þau og stóraukin fræðsla í umferðarmálum þarf að fylgja framkvæmd þeirra.

Ég vil taka undir það sem hér hefur fram komið að umferðarmálin, umferðarslysin eru eitt mesta þjóðfélagsvandamál sem við eigum við að stríða. Við höfum orðið vitni að mörgum hörmulegum atvikum á þessum vettvangi, það er mjög mörg harmsagan sem skeð hefur. Þess vegna er það skylda okkar þm. að leggja okkar lóð á vogarskálina í baráttunni við þennan vágest, í baráttunni fyrir bættri umferð og slysaminni. Þess vegna verðum við að vinna að framgangi þessa frv. af fullum krafti og á þann hátt sem tryggir það að málið hljóti afgreiðslu hér á hv. Alþingi, á þessu þingi, og ég vil halda öllum leiðum opnum í því efni.