28.02.1986
Neðri deild: 54. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2901 í B-deild Alþingistíðinda. (2442)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Orð mín fóru eitthvað í taugarnar á hv. 1. þm. Norðurl. v. Ég vildi sagt hafa og stend við það að víða í héruðum hafa sýslunefndir ekki skilað því sem þeim var ætlað. Það hljóta allir að sjá að það er ekki lengur lýðræðislegt kerfi að hafa sýslumann oddvita sýslunefndar. Það er kerfi frá síðustu öld. Hann er ekki kosinn af fólkinu. Þetta hentar ekki lengur. Þegar af þeirri ástæðu er nauðsyn að breyta þessu. Það er enginn með tillögur um óbreytt kerfi. Það er stóra málið. Hvorki hv. þm. Friðjón Þórðarson né Pálmi Jónsson eru með tillögur um það. Þvert á móti. Það sýnir að þetta kerfi er að nokkru úrelt og má bæta. En að sjálfsögðu hefur víða í héruðum verið vel staðið að þessum málum, eins og ég sagði áðan, undir forustu röggsamrar sýslunefndar og að sjálfsögðu sýslumanna og alls staðar hafa þær skilið eftir sig spor sem betur fer. Enginn skilji orð mín öðruvísi.

En út af orðum hv. þm. Pálma Jónssonar segi ég að þetta frv. er búið að liggja hér í þinginu í tvö ár. Af hverju hefur hv. þm. ekki komið með tillögur og reynt að hafa áhrif á tillögur sumra forustumanna úr Sjálfstfl. einmitt í sveitarstjórnarmálum?

En einnig vil ég segja við þessa ágætu hv. þm.: Í brtt. við 6. gr. segir: „Verkefni þau, sem sýslunefndunum eru nú falin með lögum, skulu falla til sveitarfélaga.“ Væntanlega eru hv. þm. ekki á móti því að þessi málefni verði þar. Og síðan stendur, eins og áður hefur verið rakið: „Héraðsnefndir skulu myndaðar um lausn þeirra verkefna.“ Það verður nákvæmlega með þeim hætti, vil ég vona, að í staðinn fyrir sýslunefndirnar komi héraðsnefndir sem eru skipaðar ýmist oddvitum eða hreppsnefndarmönnum og þannig miklu betur tengdar þessum málum, því að fyrst og fremst eru þetta sveitarstjórnarmál eins og ég hef áður lagt áherslu á.

Út af ræðu hv. 1. þm. Vesturl. Ég tók ekkert sérstaklega fram um sýslunefnd Rangárvallasýslu. Ég nefndi hana ekki neitt. Þetta var almennt og ég hafði ekkert orðað hana. Við erum einfaldlega með þessu máli að tengja þetta starf betur sveitarfélögunum. Það er meginmálið. Það er enginn að svipta sveitarfélögin vettvangi. Þau hafa hann áfram í héraðsnefndum sem eru og verða þeim betur tengdar en áður.

Út af orðum hæstv. ráðh. áðan um sýsluvegina. Ég er alveg sammála hv. 1. þm. Norðurl. v. Það kerfi að halda sýsluvegunum hjá sýslunefndum hefur verið ágætt. Við erum að samþykkja að verkefni þau sem sýslunefnd eru nú falin með lögum skuli fara til sveitarfélaga. Ég ætla að sýsluvegir verði eitt þeirra. Að sjálfsögðu verði áfram góð samvinna við Vegagerð ríkisins. En það telst valddreifing að hafa þetta áfram tengt sveitarfélögunum sem verður jafnt hér eftir sem hingað til.

Við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon vil ég segja að það er einmitt vegna þess að þetta frv. er ekki óbreyttar tillögur endurskoðunarnefndarinnar að ég get samþykkt það.