28.02.1986
Neðri deild: 55. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2924 í B-deild Alþingistíðinda. (2451)

303. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ef einhver þm. hefði hafið þingstörf á s.l. hausti með því að leggja fram þáltill. um að ríkisstj. skuli taka 2 milljarða lán til að bæta lífskjör landsmanna er ég nokkuð viss um að hann hefði verið álitinn alvarlega ruglaður. Þetta er það sem nú er verið að gera.

Ég ætla, herra forseti, að lýsa því yfir hér alveg strax að ég mun ekki greiða atkvæði með því frv. sem hér er til umræðu og ástæðan fyrir því er sú að ég tel að ekki sé um það unnt að ræða öðruvísi en sem hluta af þeim kjarasamningum sem nú hafa verið gerðir. Mér finnst í stuttu máli algjörlega fráleitt að svona sé staðið að málum. Í landinu er nú það ástand að fólk framfleytir ekki sjálfu sér hvað þá öðrum af venjulegum dagvinnulaunum. Og að verkalýðshreyfingin skuli una því og hjálpa ríkisstj. til að losa atvinnurekendur við að greiða fólki laun fyrir vinnu sína er nokkuð sem ég fæ ekki skilið og get ekki átt samleið með.

Mörg þeirra ákvæða sem í þessu frv. eru, sem eru svo sem ekkert annað en tæknilegar lagfæringar til þess að ríkisstj. sé heimilt að ganga þvert á nýgerð fjárlög, ganga þvert á vilja Alþingis í hinum ýmsu málum, skipta svo sem ekki öllu máli. Það má vel vera að út úr þessum kjarasamningum komi ýmsir smámunir og jafnvel nokkuð góð mál, eins og sjálfsagður réttur fiskvinnslufólks til að vera ekki rekið af vinnustað með viku fyrirvara, en drottinn minn dýri að slíkt skuli þurfa að knýja fram í kjarasamningum! Ég veit ekki betur en hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson hafi borið fram frv. þess efnis sem var fellt. Ég veit ekki betur en fyrir þinginu liggi nú frv. hv. þm. Ragnars Arnalds um leyfi foreldra vegna veikinda barna. Er hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson eitthvað merkari þegar hann situr niðri í Garðastræti en á hinu háa Alþingi? Þetta er öllu skynsömu fólki óskiljanlegt.

En, herra forseti, ég hlýt að hafa leyfi til að gera hér fyrirspurnir um nokkur atriði sem fram hafa komið í þeim umræðum og yfirlýsingum sem yfir okkur hafa dunið á síðustu dögum. Þá ætta ég að víkja fyrst að þessum miklu úrbótum í húsnæðismálum. Ég hef aldrei stært mig af að vera mikil reikningsmanneskja, en hvernig sem ég reyni að gera mér grein fyrir hvað þær yfirlýsingar þýða, sem látnar hafa verið fram ganga í vaxtamálum, er mín niðurstaða þessi: Það er umtalsverð hækkun boðuð á vöxtum. Nafnvirðislækkun úr 32% niður í 20% á almennum skuldabréfum fylgir ekki eftir, fer ekki eftir breyttum verðlagsforsendum. Fari verðbólgan niður úr öllu valdi er augljóst að 20% vextir er beinlínis vaxtahækkun og þá er ég að tala um almenn skuldabréf. Reyni menn að hrekja þetta.

Varðandi hækkun á vöxtum verðtryggðra lána. Sú hækkun felur beinlínis í sér hækkun raunvaxta. Geta menn hrakið þetta? Ég óttast þess vegna beinlínis að skuldabaggi manna hreinlega þyngist með þessum aðgerðum. Ég bið þá fróða menn og góða að leiða mig í allan sannleikann ef þetta er alrangt.

Það sem fyrir liggur í þjóðfélaginu nú er að atvinnurekendur þurfa ekkert að greiða. Felldur er niður launaskattur, auk hinnar miklu tekjuaukningar. 23% aukning útflutningstekna á föstu gengi þýðir að útflutningstekjur þjóðarinnar jukust um nærri því 1/4 á s.l. ári. Þjóðartekjur jukust um 10 milljarða. Hvar eru þessir peningar? Einu sinni boðaði Sjálfstfl. að tekjur Íslendinga ættu að fara eftir útflutningstekjum. Samræmið virðist orðið harla lítið. Og hvað hafa menn þá verið að semja um? Jú, það á að veita tvær ölmusur fullvinnandi fólki sem gjörsamlega er útilokað að lifi af laununum sínum, og þó að þetta sé 3000 kr. ölmusa eða 2000 kr. eða hvað það nú er, sem er beinlínis niðurlægjandi og til skammar, skiptir það auðvitað engu máli. Þetta fólk er svo fjarri því að geta séð fyrir sér. Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson auglýsti eftir því áðan hversu stór hópur þetta væri, t.d. einstæðir foreldrar. Ekki veit ég nákvæmlega hvað þeir eru margir. Þó minnir mig að þeir séu einhvers staðar á milli fimm og sex þúsund manns. En eitt veit ég, að það eru yfir 7000 börn á framfæri þessa fólks. Ég leyfi mér að segja það hér, hv. 5. þm. Reykv., að þessi börn eru illa fóðruð. Þau fá ekki nóg að borða, þetta veit hvert mannsbarn í skólum bæjarins, vegna þess að það er ekki hægt að fæða þau af þessum tekjum. Ég spyr Alþingi Íslendinga: Er þetta velferðarþjóðfélagið okkar? Drottinn minn!

Menn eru að semja úti í Garðastræti um hugsanlegar bensínlækkanir. Þegar olíuverð lækkar þá lækkar bensín. Á þetta hefur t.d. bent Arinbjörn Kolbeinsson sem er formaður í einhverjum bifreiðasamtökum sem ég man ekki hvað heita. I Danmörku er margoft búið að lækka bensínið fyrir lifandi löngu í samræmi við olíuverð. Þarf að semja um þetta í kjarasamningum? Þetta er gjörsamlega út í hött!

Hvað hefur t.d. komið fram í þessari þjóðarsátt um bættan hag landsmanna, um verðlag í landinu? Það held ég að hljóti að vera harla lítið. Ég hef ekki séð mikið um það. Alls kyns hátollavara, eins og fatnaður, þetta verðlag er algjörlega frjálst, enda hefur verslunarstéttin blómstrað. Góður slatti af þessari þjóðarteknaaukningu og útflutningsteknaaukningu er t.d. í höndum hennar. Það þarf ekki nema að tala við bankafólk á lægstu launatöxtum. Það segir manni hvar þessir peningar eru allir. Það veit þetta.

Ég veit ekki hvort menn kippa sér lengur upp við neitt, en fyrir örfáum dögum kom skondin frétt í einu af dagblöðum bæjarins. Maðurinn sem fyrir örfáum vikum var tekinn fastur fyrir að reka okurviðskipti, sem þrautpíndir húsbyggjendur þurfa stundum að nota sér, hafði komið í einn af bönkum bæjarins og leyst út ávísun upp á 3,2 millj. kr. Og fær hana afgreidda eins og ekkert sé! Menn hætta svo sem ekkert þó að það vofi yfir þeim einn og einn dómur. Auðvitað ekki. Hvaða máli skiptir það? Ætti það sé ekki einhver varasjóður til.

Hv. þm. Svavar Gestsson spurði eftir elli- og örorkulífeyri. Það sem því fólki sem þess lífeyris nýtur er gert að lifa af á mánuði er auðvitað fyrir neðan allar hellur og varla hægt að taka sér þær upphæðir í munn. Alþingi Íslendinga ætlaði einu sinni að gulltryggja þetta fólk með því að hvenær sem hækkun yrði á dagvinnutekjum í almennri verkamannavinnu yrði hækkun á tekjum elli- og örorkulífeyrisþega. Nú eiga sáralitlar launahækkanir að verða og hverjir fara harðast út úr því? Auðvitað elli- og örorkulífeyrisþegar, fólkið sem byggði upp þetta þjóðfélag.

Það á að lækka tolla af bifreiðum. Í fyrra bar ég fram till. hér á hinu háa Alþingi um að fjölga bílum um 50 handa hinum verst settu öryrkjum sem eru svo hreyfihamlaðir að þeir komast ekki leiðar sinnar án þess að hafa bíl en eins og allir vita eru ekki greidd aðflutningsgjöld af þeim bifreiðum. Ég lagði til að þeim yrði fjölgað um 50. Það náði ekki fram að ganga. Nú á að niðurgreiða alla bíla.

Það hefur verið komið víða við í þeim kjarasamningum sem nú hafa verið gerðir og allir eru ósköp skelfing sáttir við. Það er eiginlega næstum enginn málaflokkur sem Vinnuveitendasambandið og verkalýðshreyfingin ekki hafa fjallað um. Ég harma að þeir skyldu gleyma frv. til laga um sveitarstjórnir. Þá hefðum við getað losnað við þessar þrautleiðinlegu umræður um sýslunefndir síðustu daga. Það hefði ekki verið mikill vandi að leysa það niðri í Garðastræti.

Það hlýtur að koma manni spánskt fyrir sjónir á hvað er lögð áhersla að ríkisstj. geri nú til að létta landsmönnum róðurinn. Einu sinni kom verkalýðshreyfingin ýmsum þjóðþrifamálum í gegn eins og virkilega raunhæfum aðgerðum í húsnæðismálum. Nægir þar að nefna framkvæmdaáætlun sem varð til þess að íbúðum í Reykjavík fjölgaði verulega. Menn sömdu um áætlun í dagvistarmálum. Hvernig hefði verið að stinga upp á því við þessa greiðviknu ríkisstj. að fella niður gjöld fyrir börn á dagvistarstofnunum? Það var þó eitthvað sem nálgaðist að vera raunhæf kjarabót. Nei, það á að draga aðeins úr gjöldunum. Það verður 5% lækkun á dagvistargjöldum, segja menn. Vita hv. þm. hvað það er mikil upphæð á mánuði? Það eru 165 kr. Ég veit ekki hvað bíómiði kostar. Ég held að hann sé dýrari en það. (KSK: Það er nýbúið að hækka gjöldin.) Það er rétt, hv. þm. Kristín Kvaran, dagvistargjöld voru hækkuð um 20% um áramót.

Hvaðan á svo að taka peningana? Jú, það liggur beint við að fara í sjóði verkafólksins sjálfs, lífeyrissjóðina. Mig langar að spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann ætlar enn þá að vera fjmrh. þegar ríkið á að fara að borga þann kostnað sem hlýst af þessum viðskiptum. Mjög lauslega áætlað er fljótlegt að komast upp í 2 milljarða eftir örfá ár. Ég ætla að vona hæstv. fjmrh. sjálfs vegna að hann verði laus úr embætti þegar að því kemur. Maður má satt að segja þakka fyrir að vinnudeilusjóðir verkalýðshreyfingarinnar voru látnir í friði. Hefði ekki mátt fá þá lánaða eins og í tíu ár svo að það væri alveg gulltryggt að atvinnurekendur þyrftu ekki að borga einn einasta eyri?

Menn töluðu um eignarskatt, kannske væri hægt að ná einhverju af stóreignamönnum. Að sjálfsögðu náði það ekki fram að ganga. Auðvitað ekkil Það skal haldið áfram að láta okkur sjálf borga brúsann. Og enn einu sinni liggur alveg á borðinu að þeir sem fara verst út úr þessu og fá næsta lítið eru eins og ævinlega opinberir starfsmenn sem verða að borga skatt af hverjum einasta eyri sem þeir vinna fyrir. Það er svo sem engin nýlunda. Þeir hafa gert þetta allan tímann.

Herra forseti. Það var samkomulag að reyna að tefja þessar umræður ekki mikið, en mér sýnist að þeir sem á undan mér hafa talað hafi virt það rétt mátulega, en aðeins eitt atriði í viðbót. Hvað ætla menn að taka úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga? Og má ég spyrja hvaða áhrif mun það hafa á Tryggingastofnun ríkisins sem hingað til hefur nú verið ærinn útgjaldaliður íslenska ríkisins. Ég vildi gjarnan vita hvernig á að standa skil á barnsmeðlögum svo dæmi sé tekið. Ég held að þetta hafi ekki verið mikið útreiknað. Og ég held að það séu afskaplega mörg atriði í allri þessari umræðu og öllum þessum loforðum sem menn vita hreinlega ekkert um hvað koma til með að kosta.

Herra forseti. Að lokum þetta: Ég er ekki að ráðast á einn eða neinn ef einhvern langar að gera sér þann mat úr máli mínu. Ég er hins vegar sósíalisti. Ég er félagi í Alþb. og á oftast samleið með því. En ég get ekki lýst ánægju minni með þessa samninga. Ég hef engan áhuga á að hlífa atvinnurekendum við að greiða landsmönnum laun fyrir vinnu sína því að það þarf sérkennilegt vit til að gleypa það hrátt að atvinnufyrirtækin ráði ekki við launahækkanir. Mörg þeirra gera það - og ansi miklar launahækkanir. Sum gera það ekki, eins og hv. þm.

Guðmundur Einarsson sagði áðan, og sum þeirra ættu ekki einu sinni að vera í gangi. Þessi láglaunastefna, sem viðgengst hér, er satt að segja að gera hálfa þjóðina að afbrotamönnum. Svindl, undandráttur, skattsvik, falsaðar aflaskýrslur, falsaðar upplýsingar um arð fyrirtækja, umboðssvindl. . . Þetta veður uppi. Og þegar við lítum í kringum okkur og sjáum fjölskyldur í þessu landi sem virðast hafa umtalsverð fjárráð, komast vel af, eiga góð húsakynni, góðar bifreiðir, geta leyft sér það sem hugur þess girnist, þá er svo komið að við vitum eitt: Þetta er óheiðarlegt fólk. Það er ekki hægt að lifa á þennan máta af launatekjum. Svo er nú komið. Og ég bara spyr: Hvað á þessi leikur að halda lengi áfram? Á meðan stór hópur launþega upp eftir launastiganum og hátt upp eftir honum er ekki fær um að sjá fyrir sér hvað hefur þá þetta, sem við erum að afgreiða núna, að segja?

Um daginn leyfði ég mér að halda því fram að það væri erfitt að lifa af alþingismannslaunum. Ég stend við það. Það er erfitt. Það ætlaði allt vitlaust að verða. Það var auðvitað fundur í Alþb., ekki þess vegna kannske, en mér þótti rétt að skýra fyrir flokksmönnum mínum hvað ég meinti með þessu. (GJG: Fékkstu skilning?) Þetta var á 50 manna fundi, hv. þm. og flokksbróðir kær, Guðmundur J. Guðmundsson. Þarna sat sauðsvört alþýðan, prentarar, rafiðnaðarmenn, verkamenn, alls kyns fólk. Ég settist niður þegar ég hafði lokið ræðu minni og útskýrt þetta eins skýrt og greinilega og mér er lagið, félagi Guðmundur, og prentarinn sem ég settist hjá sagði: „Aldrei tek ég upp úr launaumslaginu mínu minna en 80 000 kr. á mánuði.“ Fyrir þá sem ekki vita eru laun alþingismanna 68 000. Auðvitað vinnur þessi maður mikið, en það gerum við líka. Og sannleikurinn er sá, þegar er verið að tala um þetta fólk sem lifir af 17 000 kr., af 25 000 kr., að það lifir enginn af því. Það er fölsun og lygi. Þetta fólk vinnur tvö- og þrefalda vinnu. Annars gæti það ekki dregið fram lífið. Og hvað eigum við lengi að halda áfram að tala um laun sem er óhugsandi að lifa af? Þegar hægt er að leysa fram hjá Alþingi og fram hjá nýgerðum fjárlögum á svo auðveldan hátt hina ýmsu málaflokka, snara milljörðum út eins og ekkert sé, eins og hendi sé veifað, er þá óleysanlegt að finna lausn á þessum kjánagangi sem viðgengst í launamálum þjóðarinnar? Og lái mér hver sem vill að ég á erfitt með að sætta mig við að heyra forseta ASÍ, flokksbróður minn og vin, segja í sömu fréttinni í sjónvarpi fyrir nokkrum dögum þetta tvennt: Þetta er auðvitað samningur sem er háður þeim fyrirvara að ríkisstj. samþykki hann. - Það var ekkert minnst á launþega. Í öðru lagi sagði hann í lok fréttarinnar: En við eigum eftir að ræða þetta í ríkisstjórninni. - Menn geta fengið þennan þátt hjá sjónvarpinu ef þeir óska eftir.

Hlutverk mitt er ekki samvinna á þessum grundvelli og ég endurtek því að ég vil ekki með nokkru móti samþykkja frv. sem hér liggur fyrir. Það er hluti af pakka í kjaramálum Íslendinga sem ég get engan veginn sætt mig við og enginn maður þvingar mig til þess.