28.02.1986
Neðri deild: 56. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2939 í B-deild Alþingistíðinda. (2459)

303. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Frsm. 3. minni hl. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. sem er á þskj. 567 frá 3. minni hl. fjh.- og viðskn. Það hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Þjóðartekjur á mann á Íslandi eru ofan við meðallag OECD-ríkjanna. Íslendingar eru meðal 10-15 ríkustu þjóða heims. Dagvinnulaun eru hins vegar hvergi jafnlág í álíka ríkum þjóðfélögum.

Á Íslandi ríkir láglaunastefna sem á sér engan líka á Vesturlöndum. Afleiðingar hennar eru m.a. vinnuþrældómur, átök á vinnumarkaði og vinnutap, svart hagkerfi, lítil afköst vegna langs vinnutíma, lítil framleiðni fyrirtækja og upplausn fjölskyldunnar. Þetta kemur fram í grein eftir Stefán Ólafsson lektor í Morgunblaðinu í dag, 28. febr. 1986. Þennan sama dag hefur frv. til l. um að viðhalda þessari láglaunastefnu sameinað gömlu flokkana á Alþingi í lofsöng um þjóðarsátt um lífskjarasáttmála.

Þau lífskjör sem flokkarnir fylkja sér um eru þau sömu og stjórnarflokkarnir komu á við valdatöku sína. Þessi lífskjör valda því að hluti þjóðarinnar hefur ekki efni á því að taka þátt í samfélaginu. Hin pólitísku og lagalegu réttindi þess fólks verða merkingarlaus. Þannig er láglaunastefna í raun mannréttindabrot.

Helgustu mannréttindin eru þau að fá að halda sjálfsvirðingu sinni. Það varðar sjálfsvirðingu manns að geta séð fjölskyldu sinni farborða. Láglaunastefnan brýtur því gegn sjálfsvirðingu fólks.

Stjórnvöld hafa ekki kjark til að hefja þær aðgerðir einar sem geta til lengdar bætt lífskjör í landinu. Þar má telja breytt skattalög til að stuðla að nýtingu fjármagns, breytt samskipti ríkisvalds og sveitarfélaga til að auka sjálfsstjórn og minnka sóun, vinnustaðasamninga, frjálst fiskverð og gjaldeyrismarkað. Einnig er óumflýjanlegt að hætta að dekra við illa rekin fyrirtæki með ívilnunum af ýmsu tagi.

Láglaunastefna er daður við atvinnurekendur sem ekki hafa vilja, getu og siðferði til þess að greiða mannsæmandi laun. Samningakerfið er úrelt. Þar notast menn við meðaltalsreikninga sem eiga ekkert skylt við raunverulega afkomu fólksins í landinu. Þessi aðferð hefur aldrei skilað og mun aldrei skila þeim lífskjörum sem eru sambærileg við það sem gerist með öðrum vestrænum þjóðum.

Þingið er nú beitt þvingunum. Á rúmum 24 klukkustundum er því ætlað að afgreiða þetta frv. Með framkvæmdavaldið fara nú menn sem þjóðin hefur ekki kosið til þeirra starfa.

BJ hefur haldið því fram að stjórnkerfið sé ónýtt. Núverandi ástand er óræk sönnun þess. Þessi samningur samrýmist ekki sjónarmiðum jafnaðarmanna. Til hans er stofnað á ólýðræðislegan hátt og hann innsiglar áframhaldandi kúgun þeirra sem búa við lágu launin. BJ getur því ekki stutt hann. BJ getur ekki tekið undir lofsöng gömlu flokkanna um þjóðarsátt, um fátækt hluta þjóðarinnar. Svo miklir ójafnaðarmenn viljum við ekki vera.

Undirritaður tekur ekki þátt í atkvæðagreiðslu um frv.“

Vegna athugasemda sem hafa komið fram hérna langaði mig aðeins að víkja að beinu kjöri forsrh. sem hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson og Svavar Gestsson gerðu að umræðuefni. Það vill svo vel til að ég minntist aldrei á þann ágæta forsrh. eða beint kjör hans í minni ræðu. Hins vegar taldi ég upp fjöldamörg atriði sem ég er sannfærður um, og það eru reyndar fleiri, að eru forsenda þess að hér verði lífskjör sem geti einhvern tíma orðið sambærileg við það sem gerist á öðrum Vesturlöndum. Þá nefndi ég í fyrsta lagi að það verði fýsilegt að hætta að festa fjármagn og fara að nýta fjármagn. Hér á ég þá við umfangsmiklar breytingar á skattalögum sem hafa afskræmt allan fyrirtækjarekstur á landinu í áratug ef ekki meira. Spurningin um hvort menn vilja bæta hér lífskjör er t.d. spurningin um hvort þeir treysta sér til að taka á skattamálum.

Ég nefndi annað dæmi, en það er hvort menn treysta sér til að hætta að styðja illa rekin fyrirtæki með ívilnunum af ýmsu tagi. Þá á ég við að menn hætti að ákveða verð á ýmiss konar afurðum, hvort sem það eru landbúnaðarafurðir, sjávarafurðir eða verðlagning á vinnu fólks, með algerlega ónýtum meðaltalsákvörðunum sem gera það eitt að halda skussunum uppi.

Ég nefndi dæmi áðan um hvort menn vildu, og ég sagði reyndar að menn treystu sér ekki til þess, auka aðhald og virkni í opinberum rekstri t.d. með því að veita stjórnum eða stjórum opinberra stofnana afmarkaðar fjárhæðir sem þingið veitti þeim einu sinni og þeir síðan ráðstöfuðu t.d. til að hækka laun starfsmanna sinna ef þeir gætu viðkomið sparnaði með breytingu á rekstri eða jafnvel frestun fjárfestinga eða einhvers konar tilfærslum innan stofnananna eða fyrirtækjanna. Þetta er leið til að hækka laun.

Ég nefndi líka dæmi um hvort menn treystu sér til að breyta þannig samskiptum ríkisvalds og fólks í landinu að fólk fengi aukna sjálfsstjórn, réði meira um eigin hagi og gæti betur lagt á það sjálft mat í hvað peningar ættu að fara á heimaslóð en þyrfti ekki að fara í póstlúgur þm. hérna fyrir sunnan, elta þá í bankaráð eða elta þá upp í byggðastofnanir eða aðra kontóra þar sem þeir hreiðra um sig þegar ekki situr þing.

Ég nefndi líka hvort menn vildu breyta launasamningakerfinu þannig að fólkið gæti sótt arðinn í fyrirtækin. Það er fólkið í fyrirtækjunum sem veit best hvernig arðurinn liggur. Það veit um Range Roverkaup og bílakaup forstjórans, það veit um fjölskyldu hans sem kannske er öll á launum. Með því að gerbreyta skipulagi verkalýðshreyfingarinnar þannig að fólk semji á vinnustöðum væri hægt að ná verulega miklu meira af þeim arði sem við vitum að liggur eftir fyrirtækin en við getum ekki nálgast. Við getum ekki nálgast þennan arð vegna þess að launasamningakerfið er ónýtt og skattakerfið er ónýtt.

Ég nefndi líka hvort menn treystu sér til að breyta lögum um fiskverðsákvarðanir þannig að ákvörðun fiskverðs verði frjáls og að menn hættu hinum gamaldags og fjarstæðukenndu verðlagsgrundvallarmeðaltalsútreikningum sem dekrar við skussana eins og reyndar fleira sem menn hafa komið sér upp hér. Bara þessi leið, að tryggja að fiskurinn sé rétt verðlagður og rétt metinn, mundi færa gífurlega fjármuni til fólksins sjálfs, á heimaslóð, á skipum, í fiskverkunarfyrirtækjum, og væri miklu, miklu stórkostlegri leið til að styrkja byggð í landinu en einhver kontór uppi á Rauðarárstíg.

Ég spurði líka hvort menn vildu setja þannig reglur um gjaldeyrisviðskipti að það væri ekki ákvörðun eins eða tveggja eða þriggja í stjórnkerfinu hérna í kringum Austurvöllinn hvað menn fengju fyrir dollarann sem þeir hafa veitt fyrir eða verkað fyrir. Þetta treysta menn sér ekki til að gera, en þetta er enn spurning um byggðastefnu. Gjaldeyrismál, fiskverðsmál eru spurning um byggðastefnu t.d., spurning um lífskjör, spurning um laun. Þetta eru miklu verðugri verkefni fyrir verkalýðshreyfinguna til að álykta um og jafnvel til að skrifa frv. um en skrifa frv. um lækkun aðflutningstolla á dekkjum.

Ég minntist ekki einu orði á beint kjör forsrh. En ég gæti flutt langa ræðu um það ágæta mál (KP: Er það ekki óbreytt?) (SvG: Ertu að skipta um skoðun?) ef menn kærðu sig um.

Það var fleira sem var spurt um. Hv. þm. Svavar Gestsson spurði: Er eitthvað hér sem brýnt er að vera á móti? Ég segi í fyrsta lagi: Það er brýnt að vera á móti því að Alþingi, ríkisstj. og fólkið í landinu sætti sig við þessa niðurstöðu. Þetta ákall fjórflokkanna um þjóðarsátt og lífskjarasáttmála er leið til að sætta fólkið við ónýt stjórnvöld og ónýta verkalýðshreyfingu. Það er brýnt að svæfa ekki fólk, að deyfa ekki fólk fyrir neyð sinni og þrengingum með því að biðja um sátt. Það er brýnt að vera líka á móti því að menn láti sér alltaf nægja næstbesta eða þriðja besta kostinn.

Þessir samningar eru alls ekki sá kostur sem fólkið í landinu á heimtingu á að fá eftir næstum þriggja ára kjaraskerðingu. Það er ekki nóg að bjóða fólki upp á svo til sama kaupmátt til áramóta. Ég bendi á að 8% hækkun kaupmáttar er tittlingaskítur. Fólk sem hefur í dag 17 þús. kr. á mánuði, svo að ég taki dæmi, fengi við fast verðlag 8% í viðbót. Það væru rúmar 1000 kr. Hver er munurinn á því að hafa 17 þús. kr. og 18 þús. kr. í dag? (Gripið fram í: Þúsund kall.) En það skiptir engu máli vegna þess að hvort sem fólk hefur 17 þús. eða 18 þús. kr. býr það við lífskjör sem eru því ekki samboðin og það er ekki stjórnvöldum samboðið að fara fram á það við fólkið að það búi við þessi lífskjör. (Gripið fram í: Þú gleymir fimm hundruð kalli.) Það getur einhvers staðar legið fimm hundruð kall þarna á milli vina.

Það er þetta sem brýnt er að vera á móti. Það er brýnt að vera á móti því að frysta láglaunaástandið til annarra tíu mánaða.

Kannske ég tíni upp eitthvað af gullkornunum sem hérna hafa fallið. Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson sagði eitthvað á þá leið fyrr í kvöld að verkalýðshreyfingin hefði knúið fram stefnubreytingu hjá ríkisvaldinu og átti þá við stefnubreytingu í peningamálum og lánsfjármálum. Það er kannske rétt, en það er ekkert sem gerðist í þessari knúðu stefnubreytingu sem kemur í veg fyrir að eftir tíu mánuði, eftir 22 mánuði, eftir eitt, tvö, þrjú ár verðum við í þessu sama. Það sem ríður á að gera er að hefja þær aðgerðir, og það má ekki fresta því, að byrja einhvern tíma á því verki sem eitt getur bætt lífskjör í þessu landi. Við megum ekki taka öðrum besta kostinum, þriðja besta kostinum, fjórða besta kostinum. Það að lækka aðflutningsgjöld á dekkjum, vídeótækjum, ryksugum og slíku færir ekki fólkinu í landinu þann 100% lífskjaramun sem það þarf. Við erum enn þá í reddingunum og bráðabirgðastússinu.

Ég held að ég hafi tínt upp það sem mestu skipti að kæmi fram.