28.02.1986
Neðri deild: 56. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2948 í B-deild Alþingistíðinda. (2464)

303. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég hygg að fæstir hv. þm. hafi verið viðstaddir í dag þegar ég hélt ræðu mína. Ég fyrirgef mönnum að vilja horfa á skemmtilegan handboltaleik. Þess vegna hefur hæstv. fjmrh. e.t.v. ekki heyrt meginspurningu mína þá. Því hlýt ég að endurtaka hana núna og biðja um svar við henni. Það varðar fyrirhugaðar aðgerðir í vaxtamálum.

Mér er ekki nokkur leið að fá annað út en verið sé að hækka vexti, bæði á almennum skuldabréfum og verðtryggðum lánum. Nafnvirðislækkun úr 32% í 20%, takist nú að koma verðbólgunni niður eins og fyrirhugað er, hlýtur að vera beinlínis hækkun á vöxtum almennra skuldabréfa. Ég hef ekki mikla trú á því að þar verði áframhaldandi vaxtalækkun látin ríkja og þar með verði vextirnir úr öllu samræmi við breyttar verðlagsforsendur.

Hækkun á vöxtum verðtryggðra lána er auðvitað ekkert annað en hækkun raunvaxta. Ef þetta er rangt hjá mér vil ég biðja reikningsglögga menn, og einkum og sér í lagi hæstv. fjmrh., að útskýra þetta fyrir mér. Ég get ekki fengið annað út en hér sé fyrirhuguð hækkun á vöxtum.