04.03.1986
Sameinað þing: 55. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2980 í B-deild Alþingistíðinda. (2492)

286. mál, úrbætur í ferðaþjónustu

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það er alveg rétt og sjálfsagt að undirstrika það að því fjármagni, sem ætlað er til þessara mála og hefur verið lögfest, hefur ekki verið skilað eins og verður að ætlast til. Ég vil bara taka undir orð hv. 1. flm. að það verður að átelja þetta vegna þess að víða á þessum aðalleiðum er sérstaklega hreinlætisaðstaða fyrir neðan allar hellur.

En það sem ég vil aðeins koma inn á í nokkrum setningum er að það er ekki nóg að skapa gistiaðstöðu, það verður að láta athuga hvernig hægt er að koma því fyrir að þetta geti borið sig á stöðunum. Ég hef af því sára reynslu að meira að segja á nokkuð stórum stöðum þar sem eru nokkuð góð hótel og þar sem ferðamenn sækja mikið á stendur reksturinn ekki undir sér. Það er málið, það eru erfiðleikarnir.

Ég þekki nokkuð vel til þessara mála, t.d. í mínu kjördæmi, og ég held að það blandist engum hugur um að þangað sækja ferðamenn meira en í aðra landshluta, sérstaklega þó í Þingeyjarsýslurnar og raunar allt þetta svæði. En þrátt fyrir þetta standa hótelin ekki undir sér, tíminn er allt of stuttur, kostnaðurinn er of mikill.

Sumir eru að gefast upp.

Það þarf sem sagt að athuga möguleikana á því hvernig hægt sé að byggja gistiaðstöðuna upp á þann hátt að það séu líkur fyrir því að hún geti staðið undir sér. Mér er ekki ljóst hvernig á að fara að því. Allt kostar það mikla peninga og það þarf að vera ákveðin stærð til þess að hægt sé að reka hótel. Þá þarf ferðamannastraumurinn að stóraukast til að fylla upp í slíkt rými. Þetta er vandinn.

Ég er enginn sérfræðingur á þessu sviði, langt í frá, og ætla ekki að ræða um það frá þeim sjónarhól. En á undanförnum 20 árum hef ég verið að reyna að leysa þessi mál á vissum stöðum, hjálpa til, og þekki þennan rekstur, veit um útkomuna og hún er vægast sagt hörmuleg. T.d. meira að segja á stað eins og Akureyri. Hótel KEA hefur ekki staðið undir sér á undanförnum árum. Það kann að vera að þegar búið er að byggja við og stækka verði það orðin rekstrareining sem hægt er að reka með sómasamlegu móti ef nægur fjöldi ferðamanna kemur þangað. Það er mikið sem bæjarfélögin bæði á Húsavík og Ólafsfirði, svo ég nefni dæmi, og félögin sem eiga t.d. Hótel Húsavík hafa orðið að láta af hendi rakna til að þessi rekstur ekki stöðvist. Það þarf sem sagt að athuga hvort hægt sé að byggja upp þessa þjónustu á þann veg að hún standi undir sér. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að aðalatriðið í því efni er hvort hægt er með einhverjum hætti, a.m.k. á sumum stöðum, að lengja ferðamannatímann mikið frá því sem nú er.

Ég er alveg viss um að ef þessi till. verður samþykkt og gerð verður úttekt á þessum málum komi í ljós að það er margt sem vantar og það kostar nokkra peninga. Það er af hinu góða að gera sér grein fyrir því hvernig þessi mál standa. En hitt þarf að skoða mjög vel hvernig á að byggja upp þessa aðstöðu. Ég ber ekki kvíðboga fyrir veitingaþjónustunni því að við höfum notað skólana okkar yfir sumartímann, yfir þennan tíma að miklu leyti. Það er hægt að leysa þau mál á þann hátt og að nokkru leyti gistiaðstöðu. En það dugar ekki til ef við fáum mikla aukningu frá því sem nú er, sérstaklega varðandi gistiaðstöðuna. Þetta er mikið vandamál.

Það hefði verið gaman að koma upp fjallahóteli. Það var reynt í Hlíðarfjalli, það gekk ekki. En ef ég væri í nefnd, sem fjallaði um þetta, er ég alveg viss um að ég mundi segja: Það vantar svona aðstöðu. En það er ekki nóg að segja það, það verður að gera sér grein fyrir því hvernig á að reka það og hvort það sé hægt.

En við þurfum sjálfsagt að athuga þessi mál. Ég mundi vilja benda þeirri nefnd, sem fær þessa þáltill. til meðferðar, á að athuga hvort ekki þyrfti að bæta inn í hana einmitt þessum þætti. Mér finnst sjálfsagt að styðja að þessi könnun verði gerð.

Umr. (atkvgr.) frestað.