11.03.1986
Sameinað þing: 57. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3046 í B-deild Alþingistíðinda. (2607)

297. mál, húsnæðismál

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður orsakaði það að ég stend hér og mæli nokkur orð.

Ég tek undir með hv. 2. þm. Reykn. Það er ákaflega þýðingarmikið að skattafrádráttur komi þarna til framkvæmda. Það er kannske raunhæfasta vaxtalækkunin eins og hann tók fram. Samninganefnd verkalýðsfélaganna lagði ákaflega mikla áherslu á þetta og orð hv. 2. þm. Reykn. eru eins og töluð út úr mínu hjarta hvað það snertir.

Ég kann ekki við þennan tón um bjartsýni stjórnarliða. Ég veit ekki betur en þarna hafi ekki hvað síst verkalýðsfélögin verið að verki. Ég er enginn stjórnarliði. Ég stóð að þessu samkomulagi og dreif í því. Verkamannafélagið Dagsbrún og verkakvennafélagið Framsókn ætla að verja a.m.k. 70% af ráðstöfunartekjum sínum til þess að hægt sé að grípa inn í þessi mál af myndarskap. Mættu aðrir fylgja verkamönnum og verkakonum í þeim efnum hvort sem þeir eru stjórnarliðar eður ei.