31.10.1985
Sameinað þing: 10. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í B-deild Alþingistíðinda. (272)

6. mál, jafnrétti og frelsi í Suður Afríku

Flm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég hef hér á þskj. 6 leyft mér að flytja till. um stofnun landsnefndar til stuðnings jafnrétti og frelsi í Suður-Afríku. Till. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hafa frumkvæði að því að komið verði á fót landsnefnd til stuðnings jafnrétti og frelsi í Suður-Afríku. Í nefndinni skulu eiga sæti fulltrúar helstu fjöldasamtaka í landinu. Nefndin skal gera tillögur um hvernig Íslendingar geti best orðið við tilmælum allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um ýmiss konar refsiaðgerðir gegn Suður-Afríku. Nefndin skal enn fremur hafa það hlutverk að kynna íslensku þjóðinni ástand og þróun mála í Suður-Afríku og þær hörmungar sem kynþáttaaðskilnaðarstefnan (apartheid) hefur leitt yfir þorra manna þar í landi, svo og að fræða almenning á Íslandi um stöðu Namibíu og þá sjálfstæðisbaráttu sem þar er nú háð gegn ólöglegum yfirráðum Suður-Afríku yfir landinu.“

Þess er skylt að geta að tillaga efnislega samhljóða þessari var áður flutt á 104. löggjafarþingi, þ.e. á árinu 1982. Hvatinn eða kveikjan að flutningi þessarar till. var sá að í starfsáætlun, sem hin svokallaða apartheidnefnd eða sérstaka apartheid-nefnd Sameinuðu þjóðanna samdi um þær mundir, voru löggjafarþing allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna hvött til þess að helga sérstaka fundi tilefni þessa árs sem þá var og var helgað afnámi kynþáttamisréttis. Í þessari starfsáætlun var enn fremur óskað eftir því að yfirvöld í hverju landi beittu sér fyrir því að komið væri á fót landsnefndum til þess að auka skilning á þeim hörmungum sem apartheidstefnan hefur haft í för með sér fyrir hina þeldökku íbúa Suður-Afríku.

Auðvitað þarf ég ekki hér á þessum vettvangi að eyða löngum tíma eða mörgum orðum í það að segja hv. þm. frá ástandinu í Suður-Afríku eins og það er nú. Af því eru fregnir í hverjum einasta fréttatíma fjölmiðla og á síðum dagblaða alla daga, síðast í hádeginu í dag um sigur hægri aflanna, öfgaaflanna í aukakosningum sem þar fóru fram og boða ekki gott um framvindu og framhald.

Við höfum séð í sjónvarpi nær daglega misþyrmingar. Við höfum séð fólki misþyrmt. Fólki sem hefur það eitt til saka unnið að safnast saman til friðsamlegra mótmæla. Ég hef það fyrir satt að á Vesturlöndum séu fregnir af þessu langtum ítarlegri og um þetta langtum meira fjallað heldur en nokkurn tíma er í sjónvarpi í Suður-Afríku. Raunar er nú sú sérstaða þar í landi að það er eitt af fáum ríkjum sem skemur hafa haft sjónvarp en við Íslendingar vegna þess að hinn hvíti minni hluti í landinu taldi að hinum svörtu væri það hvergi hollt að hafa sjónvarp. Það eru því tiltölulega fá ár síðan sá fjölmiðill komst í gagnið þar. Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum að þessu ástandi. Það er hv. þm. allt of vel kunnugt til þess að um það þurfi að hafa hér mörg orð eða stór.

Tilgangur þessarar till. er fyrst og fremst sá að hæstv. ríkisstj. hafi um það nokkra forgöngu að koma á fót landsnefnd, eins og tillagan getur um, til þess að vera sá aðili er kynnt getur þessi mál og miðlað því mikla magni upplýsinga sem í viku hverri - og kannske á hverjum degi - berst frá ýmsum stofnunum, sérstaklega á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og þá einkum og sér í lagi hinni sérstöku apartheid-nefnd. Mér er um það kunnugt að hún gefur út mikið af gögnum og skjölum sem berast til utanrrn., örugglega, og berast væntanlega til Landsbókasafns eða Þjóðskjalasafns, sem er vörslustaður fyrir skjöl frá Sameinuðu þjóðunum. En mér segir svo hugur um að ákaflega fátt af þessum skjölum og þeim upplýsingum sem þar er að finna fari yfirleitt nokkuð lengra. Það er sem sagt megintilgangur þessarar till.

Í grg. tillögunnar er rakið hvað gerðist í þessum efnum á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna fyrir rúmu ári síðan, en þá voru gerðar sjö ályktanir um kynþáttaaðskilnaðarstefnu stjórnar Suður-Afríku. Norðurlandaþjóðirnar höfðu frumkvæði að einni þessara ályktana (ályktun 39/72 G) og fluttu hana ásamt nokkrum öðrum ríkjum. Sú ályktun Norðurlandanna var sú þeirra sem samþykktar voru sem flestir treystust til að styðja og fæstir greiddu atkvæði gegn, þannig að hún naut víðtækasts stuðnings þeirra ályktana sem allsherjarþingið samþykkti um þetta efni.

Nú er það svo að Sameinuðu þjóðirnar hafa árum saman - og öll árin, að ég hygg, síðan samtökin voru stofnuð - fjallað um bæði ástandið í Suður-Afríku og stöðu Namibíu. Þar hefur hins vegar lítt miðað og verður að segjast eins og er að þar hafa Sameinuðu þjóðirnar reynst vanmáttugar til að valda því mikla ætlunarverki sem margir ætluðust til af þeim. Það er staðreynd sem er deginum ljósari að Sameinuðu þjóðirnar hafa reynst vanmáttugar í þessu efni m.a. vegna þess að hjá stórveldunum hefur hugur ekki fylgt máli um að ná fram breytingum í þessum efnum. Einkanlega eru það Bandaríkin og Bandaríkjastjórn, sem þar hafa verið treg í taumi, að ekki sé sterkar að orði kveðið. Þó lítils háttar breyting sé merkjanleg á þeirri stefnu á undanförnum vikum þá er hún hvergi nærri nægileg að mínu mati.

Í þessari ályktun sem Norðurlöndin stóðu að og 146 ríki greiddu atkvæði, tvö greiddu atkvæði gegn, en sex tóku ekki afstöðu, þá voru það Bandaríkin og Bretland sem tóku afstöðu gegn og greiddu atkvæði gegn og kemur það ekkert á óvart. Ég geri ráð fyrir að ýmsir hv. þm. hafi heyrt sendiherra Breta hjá Sameinuðu þjóðunum í gær þegar fluttur var bútur eða kafli úr ræðu hans í fréttatíma sjónvarps. Belgía, Frakkland, Ítalía, Lúxemborg, Malawi og Vestur-Þýskaland sátu hjá við þessa atkvæðagreiðslu.

Þrjár síðustu málsgreinar þessarar ályktunar, sem Ísland hafði m.a. frumkvæði að á allsherjarþinginu, eru á þessa leið:

„Allsherjarþingið heitir á allar ríkisstjórnir og samtök að gera viðhlítandi ráðstafanir til að binda endi á öll samskipti á sviði menntamála, menningarmála, vísinda og íþrótta, sem fela í sér stuðning við apartheidstjórnina í Suður-Afríku, svo og samskipti við einstaklinga, stofnanir og aðra sem styðja eða styðjast við kynþáttaaðskilnaðarstefnuna og hvetur einnig til frekari tengsla við þá sem berjast gegn apartheid-stefnunni.

Allsherjarþingið ítrekar lögmæti baráttu hinnar kúguðu þjóðar Suður-Afríku fyrir algeru afnámi apartheidstefnunnar og fyrir stofnun lýðræðislegs þjóðfélags þar sem ríki jafnrétti kynþáttanna, þar sem allir menn án tillits til kynþáttar, litar eða trúarbragða geti notið mannréttinda og almenns frelsis.

Allsherjarþingið þakkar og lýsir samstöðu með samtökum og einstaklingum sem berjast gegn kynþáttaaðskilnaðarstefnunni og fyrir lýðræðislegu þjóðfélagi þar sem ríkir jafnrétti kynþáttanna í samræmi við mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna.“

Að undanförnu hefur ýmislegt verið að gerast á þessum vettvangi og um þessi mál víða fjallað. Nægir þar að minna á nýgerða samþykkt verkamannafélagsins Dagsbrúnar hér í Reykjavík um að félagsmenn þess ágæta félags starfi ekki að því að skipa upp eða út vörum sem eiga að fara til Suður-Afríku.

Fundur utanríkisráðherra Norðurlanda hefur fjallað ítarlega um þetta mál og fjallað um norræna áætlun um ráðstafanir gegn Suður-Afríku. Það er vissulega lofsvert að Norðurlöndin hafi þar nokkurt frumkvæði sem þó hefði mátt og mætti vera meira.

Þá er þess að geta að útvarpsstjórar á Norðurlöndum hafa gert samþykkt varðandi útvarps- og sjónvarpsefni sem snertir þetta og með listamönnum sem hafa komið fram og lýst stuðningi við aðskilnaðarstefnuna í Suður-Afríku.

Kirkjuþing, sem nú stendur, hefur gert ályktanir um þetta mál. Norrænir biskupar hafa gert ályktun um málið og sjálfsagt mætti gera þennan lista töluvert og verulega lengri því að þetta er mál sem er engum manni óviðkomandi hvar í veröldinni sem hann býr.

Nú hefur það verið sagt og því haldið fram í hinum virðulegustu blöðum að við eigum ekki að vera að hafa mörg orð um ástandið í Suður-Afríku vegna þess að það sé svo margt óréttlætið annars staðar í veröldinni og mörg mannréttindabrot út um allar jarðir. Þetta eru engin rök. Eitt lögbrot getur aldrei afsakað annað. Þess vegna eru þetta ekki rök í þessu máli.

Það hafa orðið hér verulegar umræður um svokallaðan svartan lista sem hin sérstaka apartheid-nefnd Sameinuðu þjóðanna hefur gefið út með nöfnum ýmissa listamanna sem þar hafa komið fram. Auðvitað hefur engum heilvita manni dottið í hug, þó að sá listi hafi verið gerður og búinn til, að bannfæra beri alla listamenn sem einhvern tímann hafa komið til þessa lands. Það er allt annað sem hér hefur verið um að ræða. Það hefur verið og er um það að ræða að hampa ekki eða hafa sérstök samskipti við þá listamenn sem lýst hafa stuðningi við apartheid-stefnuna og stjórnina í Suður-Afríku.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að fara mörgum frekari orðum um þetta nema sérstakar ástæður gefist til, en því vék ég að þessu að um þetta hafa orðið blaðaskrif hér og útvarpsstjóri m.a. sætt ámæli fyrir að hafa staðið að samþykkt sem norrænu útvarpsstjórarnir gerðu, sem þó er mjög hógvær og getur engan veginn talist ganga mjög langt í þessum efnum, en er hins vegar í fullu samræmi við þá afstöðu sem ríkisstjórnir Norðurlandanna hafa haft og sérstaklega í fullu samræmi við þá afstöðu sem ríkisstjórn Íslands hefur haft og sem hæstv. utanrrh. hefur haft forgöngu um og ég get fyllilega tekið undir. Því hefur mér fundist ósanngjarnt það ámæli sem útvarpsstjóri hefur sætt af þessum sökum.

Ég geri ráð fyrir, herra forseti, að um þetta verði nokkrar umræður hér og þeir séu í hópi þm., sem vilja ganga töluvert lengra en þessi till. gerir ráð fyrir og beita sér fyrir algeru viðskiptabanni t.d. við Suður-Afríku. Ég tek undir það, ég er hlynntur því að við gerum það. Að vísu hafa viðskipti okkar við þetta land ekki verið ýkja mikil. Ég held að í fyrra höfum við flutt þaðan inn vörur, einkum ýmiss konar ávexti, fyrir 28 millj. kr. Þeir ávextir eru auðvitað auðfengnir annars staðar og ekkert sem gerir það að verkum að við eigum að halda uppi þessum viðskiptum við þetta land. Við seldum þangað vörur fyrir rúmar 4 millj. kr. í fyrra, einkum veiðarfæri og útgerðarvörur. Þeim útflutningi ætti að vera auðfundinn markaður annars staðar.

Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa þessi orð fleiri að þessu sinni en legg til að að þessari umræðu lokinni verði þessari till. vísað til hv. utanrmn.