17.03.1986
Sameinað þing: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3162 í B-deild Alþingistíðinda. (2750)

327. mál, hafnamál

Fyrirspyrjandi (Magnús Reynir Guðmundsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir hans ágætu svör við fsp. mínum. Ég veit það og er það fyllilega kunnugt að hann hefur mikinn áhuga á því að viðhald og uppbygging hafna sé með eðlilegum hætti.

Eins og fram kom í máli hans eru ekki nema 24 millj. áætlaðar úr ríkissjóði á þessu ári til hafnarframkvæmda og það sjá allir að það hlýtur að vera langt fyrir neðan lágmark eins og ráðherrann nefndi í sinni svarræðu áðan.

Það er ljóst að hafnirnar eru ein af lífæðum þjóðfélagsins. Það þarf að byggja þær upp. Það þarf að aðlaga þær breyttri flutningatækni, eins og ég minntist á áðan, og það er mjög nauðsynlegt að menn hafi aðgang að þeirri nýju flutningatækni. Við vitum t.d. að útflutningur fersks fisks í gámum gefur sjómönnum mun hærri tekjur, allt að helmingi hærri tekjur en sá afli sem lagður er upp í fiskvinnslustöðvunum, og á meðan hafnirnar eru ekki tilbúnar að veita þá þjónustu sem þessi nýja tækni þarf er ekki vel farið.

Ég ítreka að fjárframlög til hafna þurfa að stóraukast. Þau hafa verið langt fyrir neðan lágmark síðustu tvö, þrjú árin og hafa minnkað að raungildi frá árinu 1982. Á þessu verður að verða breyting ef voðinn á ekki að vera vís í sambandi við okkar undirstöðuatvinnugrein, sjávarútveginn, og ég vona að hæstv. ráðh. takist að fá framgengt stórauknum framlögum til hafnarframkvæmda á árinu 1987.