17.03.1986
Sameinað þing: 62. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3184 í B-deild Alþingistíðinda. (2793)

Iðgjöld bifreiðatrygginga

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil svara spurningu hv. 5. landsk. þm. á þann veg að ég tel óeðlilegt að það séu samtök tryggingafélaga sem hafi samráð um tekjur sínar. Hins vegar getur verið nauðsynlegt að hafa samráð um ýmsa aðra hluti sem eiga að koma alveg jafnt viðskiptamönnum til góða sem tryggingafélögum.

Ég er ekki sammála hv. 3. þm. Reykv. um það að samkeppni og frjálsræði sé eiginlega af hinu illa. Við getum nefnt fjölmörg dæmi þess að samkeppnin sem leiðir af frjálsræði í viðskiptum hefur haft það sér til ágætis að verðlag hefur í mörgum tilfellum lækkað. En þegar frjálsræðið er notað til þess að hækka og ganga fram fyrir það sem stjórnvöld á hverjum tíma ættast til og góðu hófi gegnir, þá verður eðlilega að taka í taumana.

Ég er ekki meiri kerfismaður en svo - eða með einhverjar sérstakar trúarjátningar - að ég vilji ekki aðhyllast svona blandað kerfi og nota sér það sem er best í því á hverjum tíma. Í sambandi við bifreiðatryggingarnar vil ég segja að það er rétt hjá hv. 3. þm. Reykv. að inn í þessar bætur kemur margt annað en viðgerð á bílum. Einn stærsti liðurinn er sjúkra- og lífeyrisbætur og því miður eru allt of mörg dauðsföll í umferðinni. Þar verða tryggingafélögin, og hvaða aðili sem er, að hafa þann rekstur á þeim hlutum að viðkomandi geti treyst því að þau standi við sínar bætur á hverjum tíma, þannig að ekki má ganga það nærri tryggingafélögunum að þau geti ekki staðið við sínar skuldbindingar gagnvart þeim sem skipta við þau.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri en það er sjálfsagt að þessi mál verði tekin upp. Ég minnist þess ekki að tryggingariðgjöld bifreiða hafi núna komið fyrir ríkisstjórnarfund. Ef það er misminni mun ég leiðrétta það síðar, en ég man ekki eftir því að þau mál hafi komið fyrir ríkisstjórnarfund. En þau voru á döfinni um það leyti sem Norðurlandaþingið var haldið og þá voru allmiklar fjarvistir, bæði í ríkisstjórn og víðar.