31.10.1985
Sameinað þing: 10. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í B-deild Alþingistíðinda. (283)

10. mál, nefnd til að kanna rekstur Innkaupastofnunar ríkisins

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Vegna þeirra fsp. sem fram komu í máli hv. þm. sem hér talaði á undan vil ég segja að auðvitað geri ég ráð fyrir að á þann veg sé staðið að útgáfu ávísana að það sé í samræmi við lög og með tryggilegum hætti. Ég þori auðvitað ekki að svara fyrir með óyggjandi hætti hvort það á sér stað að ávísanir hafi verið áritaðar á annan veg. Um það get ég auðvitað ekki kveðið upp neinn dóm, enda hefur engin rannsókn farið fram um það atriði.

Spurningu nr. 2 vil ég svara á þann veg að auðvitað er aldrei tryggt að menn reyni ekki að svíkja út fé. Á hinn bóginn hafa verið settar nýjar reglur í samráði við Ríkisendurskoðun um innra eftirlit sem á að tryggja að upplýsingar af þessu tagi fari ekki fram hjá hlutaðeigandi aðilum og stofnunin komist að tilraunum í þessa veru fyrr en raun bar vitni um, þannig að þær ráðstafanir sem hafa verið gerðar lúta að því að koma í veg fyrir að fjársvik af þessu tagi eigi sér stað. Hitt vitum við að við getum aldrei girt fyrir það með reglum að menn geri tilraunir af þessu tagi.

Hv. þm. fullyrti að vegna þess, eins og hann sagði, að stofnunin hefði brotið lög ætti að leggja hana niður. Ég held að við hljótum hins vegar að taka afstöðu til þess hvernig stofnunin á að starfa út frá efnislegum forsendum. Ég vil ekki fjalla hér um fullyrðingu hv. þm. þess efnis að stofnunin hafi brotið lög. Fyrir henni verður þm. sjálfur að færa rök. En það er ekki málefnaleg afstaða gagnvart stofnuninni eða tilverurétti hennar hvort fullyrðingin stenst eða stenst ekki. Við getum alveg eins sagt að að banna ætti alla umferð á Íslandi af því að við vitum að menn hafa brotið umferðarlögin.

Kjarni málsins er sá að við verðum að átta okkur á hvaða hlutverki við viljum að þessi stofnun gegni og hvernig við viljum standa að opinberum framkvæmdum og opinberum innkaupum. Sú nefnd sem fyrrv. fjmrh. skipaði í þessu skyni hefur skilað skýrslu og ég hef greint frá því að hún er nú til skoðunar og þær tillögur sem þar eru settar fram og þess mun ekki langt að bíða að ákvarðanir muni verða teknar á grundvelli þessarar skýrslu um endurskipulagningu á störfum þessara stofnana.