20.03.1986
Sameinað þing: 63. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3253 í B-deild Alþingistíðinda. (2847)

349. mál, eftirlit með verðlagi, innkaupsverði og álagningu

Flm. (Guðrún Tryggvadóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. á þskj. 637 um hert eftirlit með verðlagi, innkaupsverði og álagningu. Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að gera ráðstafanir til þess að herða eftirlit með verðlagi og álagningu. Sérstaklega verði fylgst með innkaupsverði erlendis til að tryggja að tollalækkanir þær, sem ákveðnar voru með lögum nr. 3 og 4 1986 í tengslum við nýgerða kjarasamninga, komi launþegum til góða.“

Fyrir um það bil þrem vikum náðist samkomulag milli aðila vinnumarkaðarins um gerð nýrra kjarasamninga, tímamótasamninga sem hafa hvarvetna fallið í góðan jarðveg og hlotið hljómgrunn, bæði meðal launþega og vinnuveitenda. Í samkomulaginu fólst m.a. 13% launahækkun á árinu, kaupmáttarviðmiðun í gerðardóm 1. maí, 1. ágúst og 1. sept., sérstök hækkun á lægstu launum tvisvar á árinu og ráðstafanir í húsnæðismálum, m.a. með viðbótarframlagi til þeirra sem eiga í greiðsluerfiðleikum. Einnig náðist langþráð samkomulag um bætt atvinnuöryggi fiskvinnslufólks.

Síðast en ekki síst var gert samkomulag um sérstakar ráðstafanir til að draga úr verðhækkunum og bæta hag launafólks, m.a. með lækkun tekjuskatts, útsvara, vaxta, verði á opinberri þjónustu, bensínverði og búvöruverði, afnámi verðjöfnunargjalds á raforku svo og lækkun á tollum ýmissa vörutegunda.

Að loknum samningum virðist ástæða til bjartsýni enda lögðu samningsaðilar mikla vinnu í að gera þá sem best úr garði. Á það jafnt víð um aðila vinnumarkaðarins sem og um stjórnvöld. Þáttur stjórnvalda í gerð samninganna var stór, um það er engum blöðum að fletta. Í kjölfarið var samþykkt hér á Alþingi frv. til l. um ráðstafanir í ríkisfjármálum, verðlags- og lánsfjármálum ásamt breytingum á lögum um tollskrá þar sem tollar á ýmsum vörutegundum voru lækkaðir til muna. Um það má auðvitað deila hvers vegna sumir vöruflokkar voru teknir fram yfir aðra í tollalækkunum. En þó er það ekki höfuðatriðið að því er varðar þessa till.

Þáttur stjórnvalda er vissulega stór en þó er ábyrgðin enn meiri nú að afloknum samningum, sú ábyrgð að standa vörð um þau loforð sem gefin voru um verðlækkanir, sú ábyrgð að halda verðlagi niðri. Vitað er að til eru þeir sem víla ekki fyrir sér að fórna þessum nýgerðu kjarasamningum á altari auðhyggjunnar. Verðlagsstofnun hefur nú þegar borist þó nokkuð af kærum um aukna álagningu nokkurra verslana í kjölfar tollalækkana og tekið þær fyrir af röggsemi. Þó að stutt sé liðið frá samþykkt tollalækkana biðu þeir tilbúnir með klærnar úti til að ná sem mestu til sín af þeim kjarabótum sem launþegum bar. Slíkt var þeirra svar og þessum aðilum ber að refsa, ekki aðeins með sektum sem þeir vinna upp með sölugróða á einum eða tveim dögum heldur með aðgerðum sem betur yrði munað eftir, jafnvel nafnabirtingu eða missi verslunarleyfis um tíma eða fyrir fullt og allt ef um ítrekuð brot er að ræða.

Til þess að hægt sé að taka á þessum málum af alvöru er nauðsynlegt að herða eins og kostur er allt eftirlit með verðlagi og álagningu. Efling Verðlagsstofnunar og Neytendasamtakanna og samvinna þeirra á milli væru stór skref í rétta átt. Með stuðningi stjórnvalda yrðu þau enn stærri.

Þó er annað atriði sem er öllu alvarlegra og erfiðara viðfangs. Eins og fram kemur í grg. með till. minni hefur komið í ljós að þær breytingar, sem gerðar voru á lögum um tollskrá í framhaldi af nýgerðum kjarasamningum, hafa í vissum tilvikum ekki náð tilætluðum árangri í lækkun vöruverðs og þar með ekki komið launþegum til góða eins og gert var ráð fyrir í samningum. Ástæðan er skyndileg og vægast sagt undarleg hækkun á innkaupsverði erlendrar framleiðslu. Ég get gefið ykkur dæmi.

14. mars s.l. varð ég vitni að símtali við eitt af bifreiðaumboðum hér í Reykjavík. Spurt var um verð á vissri bifreiðategund. Skv. þeim upplýsingum, sem fengust, var sú tegund uppseld en ný sending væntanleg viku af apríl. Sú sending yrði hins vegar á töluvert hærra verði, jafnvel hærra en fyrir tollalækkanir. Hvers vegna? Það er von að menn spyrji. Svar umboðsaðila var á þessa leið: Vegna aukinnar sölu og eftirspurnar eftir bifreiðum undanfarið hefur framleiðandi ákveðið að hækka framleiðsluverð. Ég spyr: Er þetta hægt? Fyrirspyrjandi taldi þessa skyndilega fram komnu hækkun mjög óeðlilega þar eð ekki væri langt um liðið frá síðustu hækkun. Það skal tekið fram að fyrirspyrjandi er alvanur bílaviðskiptum.

Ég spyr: Hvað er að gerast þarna og hvað táknar þetta í raun? Hverjir hafa hag af þessu? Eru það launþegarnir sem áttu að fá kjarabætur? Þetta táknar í fyrsta lagi hærri umboðslaun til íslenska umboðsins sem er þá hagsmunaaðili nr. 1 og í öðru lagi táknar þetta að þarna renna tollalækkanirnar í vasa framleiðanda erlendis sem er þá hagsmunaaðili nr. 2. Sem sagt, kjarabæturnar eru fluttar úr landi í stað þess að koma íslenskum launþegum til góða.

Mér segir svo hugur um að þetta sé aðeins byrjunin og spurning um hvenær aðrir vöruflokkar, sem tollar voru lækkaðir á, fái sömu útreið. Brýnt er því að tekið verði fyrir þennan leka á íslensku fjármagni úr landi, því sama fjármagni og nota skyldi í þágu launþega til að lækka tolla. Að öðrum kosti eigum við víst að verðlag fari úr böndum og ekki verði unnt að standa við gefin loforð um verðlækkanir.

Eins og áður hefur komið fram tel ég að efling Verðlagsstofnunar og Neytendasamtakanna sé okkur nauðsyn nú. En trúlega þarf meira til til að stöðva útflutning á kjarabótum íslenskra launþega. Hér þarf að grípa í taumana nú þegar áður en öll skriðan kemur og ekki er lengur unnt að spyrna við fótum. Ég treysti ríkisstj. til að gera þær ráðstafanir sem þarf til að finna mótleik í þessari refskák viðskiptalífsins og því hef ég í till. minni lagt til að ríkisstj. verði falið að gera þær ráðstafanir sem þarf.

Herra forseti. Að svo mæltu legg ég til að till. minni verði vísað til 2. umræðu og hv. allshn. að lokinni þessari umræðu.

Umr. (atkvgr.) frestað.

1