04.11.1985
Efri deild: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í B-deild Alþingistíðinda. (296)

91. mál, varnir gegn kynsjúkdómum

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Virðulegi forseti. Um fátt hefur verið meira ritað og rætt innan heilbrigðisþjónustunnar víða um lönd á undanförnum mánuðum en sjúkdóm þann sem á íslensku hefur ýmist gengið undir nafninu ónæmistæring eða alnæmi, AIDS. Hér er um að ræða sjúkdóm sem skotið hefur upp kollinum á allra síðustu árum og með töluverðum hraða. Talið er að fjöldi sjúklinga, t.d. í Bandaríkjunum, muni tvöfaldast á yfirstandandi ári og að hið sama muni gilda um aðrar þjóðir.

Alnæmi, eins og þessi sjúkdómur verður nefndur í mínu máli, er lokastig veirusýkingar sem hefur eyðilagt ónæmiskerfi líkamans og þannig leitt til þess að sjúklingur verður berskjaldaður fyrir ýmsum sýkingum og illkynja sjúkdómum. Veiran getur valdið smiti með ýmsum hætti og ekkert bendir til að myndun mótefna komi í veg fyrir að menn smiti. Að því leyti til er hér um að ræða enn meiri vágest en er um ýmsa aðra sjúkdóma. Því geta allir, sem mótefni mælast í, verið smitberar og sjúkdómurinn því viðsjárverðari fyrir bragðið. Þannig hefur veiran fundist í blóði, sæði, munnvatni, brjóstamjólk og öðrum líkamsvessum. Mestar líkur eru á smiti við blóðblöndun, t.d. við blóðgjöf, þegar eiturlyfjum er sprautað í æð með margnotuðum nálum og við kynmök. Ekki síst vegna hins síðastnefnda hefur alnæmi verið flokkað sem kynsjúkdómur, enda hefur smit í flestum tilvikum átt sér stað við kynmök.

Því er ekki að neita að orðið „kynsjúkdómur“ er í hugum margra að ýmsu leyti óheppilegt vegna þess að því kunni að fylgja hleypidómar. Það er þó samdóma niðurstaða þeirra sérfræðinga sem að undirbúningi þessa máls hafa unnið að vegna þess að um þennan sjúkdóm gildi hið sama og aðra sjúkdóma sem felldir eru undir þetta heiti sé skynsamlegt að fella sjúkdóminn undir lögin um varnir gegn kynsjúkdómum og bæta honum við þá upptalningu sem þar er. Ekki sé ástæða til að blekkja sig með því að flokka sjúkdóminn undir annað heiti því að hér er um að ræða sjúkdóm sem ekki er minni kynsjúkdómur en þeir sem taldir eru upp í lögunum.

Lögin kveða á um réttarstöðu sjúklings í þessu sambandi, möguleika til að hefta útbreiðslu sjúkdómsins, en það er í raun og veru hið eina sem við getum gert á þessu stigi og svo náttúrlega að draga úr vanlíðan þeirra sem honum eru haldnir. Um lækningu er því miður ekki að ræða enn þá en verður vonandi á næstu árum eftir því sem vísindarannsóknunum fleygir fram.

Auðvitað er viss hætta á því að þeir sem hafa grun um að þeir séu haldnir þessum sjúkdómi leiti sér ekki lækninga. Þess vegna hefur verið sérstaklega unnið að því að ná samstarfi um það atriði við þá hópa sem taldir hafa verið áhættuhópar. Sem betur fer hefur nokkuð áunnist í því efni og menn binda vissulega vonir við það að menn ýmist leiti sér lækninga, gangist undir rannsóknir, mótefnamælingar o.s.frv. þó ekki væri nema af tilliti til sinna nánustu og svo einnig af tilliti til umhverfisins og samfélagsins í heild.

Ég vil láta þess getið í þessu sambandi að ég hef sérstaklega beðið um athugun á hvort hugsanlega gæti verið betra að setja sérlög um þennan umrædda hættulega sjúkdóm, en niðurstaðan hefur orðið að svo sé ekki og veldur því tvennt: annars vegar að menn viti ekki nægilega mikið enn þá um þennan sjúkdóm og svo á hinn bóginn að í þeim lögum væru í sjálfu sér sams konar ákvæði og þau sem upp eru talin í kynsjúkdómalögunum. Auk þess má nefna það atriði að sá sem haldinn væri þessum kynsjúkdómi er oft og tíðum einnig haldinn öðrum. Það er því eðlilegt að viðkomandi maður fengi sams konar meðferð og nyti sams konar réttarstöðu og um aðra slíka sjúkdóma væri að ræða eða sjúkdóma sem smitast með líkum hætti.

Menn hafa velt því fyrir sér hvort hér væri um einhvers konar stimpil að ræða, eins og einhverjir hafa látið í veðri vaka. Ég hygg að svo sé ekki fremur en yfir höfuð ef menn eru haldnir einhverjum sjúkdómi. Ég held hins vegar að það hafi ótvíræða kosti að fella sjúkdóm þennan undir lögin um varnir gegn kynsjúkdómum. Þeim var breytt fyrir nokkrum árum í það horf sem fólk hefur mun betur sætt sig við en áður var og ekki hafa svo að mér sé kunnugt eða þeim sérfræðingum sem ég hef leitað upplýsinga hjá borist neinar kvartanir vegna framkvæmdar þeirra laga. Menn hafa gengið að því vísu að fyllstu þagmælsku væri unnt að treysta. Það er einmitt ekki talið að lögin um varnir gegn kynsjúkdómum, sem nú gilda, hafi á neinn hátt staðið gegn því að menn leituðu sér lækningar, enda er, eins og ég áður vék að, réttur sjúklings vel tryggður bæði hvað snertir læknishjálp og þagmælsku.

Nú er það svo að ríkisstj. telur að það sé nauðsynlegt að bregðast sem fyrst við þessari aðstöðu, sem vissulega getur orðið mjög hættuleg, og við verðum að geta brugðist við með lögbundnum aðgerðum. Að þessu hefur verið unnið í sumar. Það er vissulega von okkar að sjúkdómurinn berist sem minnst hingað til lands og nái hér ekki útbreiðslu, en því miður er ekkert sem bendir til þess að sjúkdómurinn berist ekki hingað. Það eru örfá lönd sem ekki höfðu nýlega enn þá skráð alnæmistilvik. Auk Íslands voru það þá Pólland og Tékkóslóvakía.

Það sem vinnst með lagasetningu er að sjúkdómurinn verður skráningarskyldur. Heimilt er að leita að sýktum einstaklingum og veita þeim meðferð og ráðleggingar og sporna gegn því að þeir sýki aðra. Enn fremur eru lagðar skyldur á lækna að vera vel á verði, fylgjast með sjúklingum og tilkynna til réttra yfirvalda telji þeir hættu á ferðum.

Varðandi rökstuðning m.a. um aðrar breytingar á lögunum, þ.e. um chlamydiae, leyfi ég mér að vísa til athugasemda með frv., bæði hvað snertir tilurð þess og upplýsingar um sjúkdóminn. Frv. er samið að höfðu samráði við landlæknisembættið og þá lækna er annast ónæmis- og smitsjúkdómavarnir og skv. ábendingum þessara aðila fyrr á árinu þess efnis að ekki verði hjá því komist að setja lög um varnir gegn þessum sjúkdómi eins og öðrum sjúkdómum sem smitast með svipuðum hætti.

Rétt er að benda á það hér að margar nágrannaþjóðir hafa þegar sett varnaðarlög á þessu sviði, síðast Svíar nú fyrir nokkrum dögum. Það er sams konar löggjöf og hér er um að ræða. Þar er sjúkdómurinn flokkaður sem kynsjúkdómur. Lögin voru afgreidd með mjög skjótum hætti á sænska þinginu. Frv. var lagt fram 9. eða 10. okt. og nú fyrir þó nokkrum dögum var það orðið að lögum. Ég held að það hafi verið alger samstaða um þetta mál þar, en eins og mönnum er e.t.v. kunnugt af fjölmiðlum hafa menn ekki verið á eitt sáttir um þetta í Danmörku. Þar hefur heilbrrh. ekki viljað fallast á þá skoðun landlæknisembættisins þar í landi að setja bæri lög með þeim hætti sem hér er gert. Ég er eins og heyra má, hæstv. forseti, ekki sammála kollega mínum í Danmörku að þessu leyti til. Ég held að það sé skynsamleg öryggisráðstöfun gegn þessum vágesti að setja lög og láta þau verða eitt af því mikilvæga sem við þurfum að gera til að grípa til hugsanlegra aðgerða sem við höfum yfir að ráða. Ég er þeirrar skoðunar að einskis megi láta ófreistað í þessu skyni og vil geta þess hér að nú eru á döfinni sameiginlegar ráðstafanir þeirra lækna sem með þessi mál hafa að gera svo og veirurannsóknirnar. Fyrir um það bil tíu dögum fól ég ráðuneytisstjóra ásamt öðrum embættismönnum og fékk í lið með þeim fulltrúa fjmrn. að athuga um húsnæði til þess að fá betri aðstöðu fyrir veirurannsóknirnar í landinu, en þær skipta verulegu máli í þessu sambandi.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni 1. umr. verði frv. vísað til hv. heilbr.- og trn. og ég æski þess, ef menn treysta sér til, að farið verði að dæmi frænda okkar í Svíþjóð með afgreiðslu á þessu máli. Ég mun leggja allt það lið sem ég get til þess að fá þá sérfræðinga sem nefndin óskar eftir til viðræðu við hana hið allra fyrsta. Ég hygg að það sé þessu máli til góðs og til hjálpar í baráttunni gegn þessum alvarlega sjúkdómi að menn afgreiði málið sem allra fyrst og leiti allra þeirra faglegu upplýsinga sem við höfum yfir að ráða. Það er auðvitað sjálfsagt að nefndin geri það. En það ætti engu að síður að vera unnt, ef menn eru á annað borð þeirrar skoðunar að setja þurfi löggjöf um þetta, að afgreiða málið nokkuð skjótlega.

Ég þakka fyrir orðið, hæstv. forseti, og legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. nefndar.