01.04.1986
Sameinað þing: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3364 í B-deild Alþingistíðinda. (3007)

Um þingsköp

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég get út af fyrir sig kvatt mér hljóðs aftur seinna á þessum fundi um þingsköp. Ef minn ræðutími er þegar orðinn takmarkaður er velkomið að ég biðji aftur um orðið um þingsköp á eftir næstu fsp. (Forseti: Það er ekki við hæfi að hv. þm. sé að gera því skóna með hverjum hætti hann geti farið fram hjá eðlilegri framkvæmd þingskapa og þingvenju og snúið vinnutíma þingsins upp í umræður um þingsköp til þess að hafa umræður um þingsköp. Það verður ekki frekar nú en endranær af forseta hálfu gert neitt til að hindra eðlilegar umræður um þingsköp.)

Það er gott að svo er, herra forseti, þannig að það verður þá hægt að halda þessum umræðum áfram eins og þörf krefur. Athugasemd mín að þessu sinni stafar af því að mér virðist að hæstv. forseti hafi af einhverjum ástæðum ekki skilið eða ekki viljað skilja athugasemdir mínar hér áðan. Þær eru þessar:

Í fyrirspurnatíma gerist það iðulega að þm., sem ekki eru viðriðnir fsp., fá að gera svokallaða örstutta athugasemd. Eftir að þm. hefur þannig gert örstutta athugasemd hefur það iðulega gerst í vetur að hæstv. ráðherrar hafa veist að viðkomandi þm. fyrir hina örstuttu athugasemd og fá þm. trauðla kost á því að gera aðra athugasemd við ummæli ráðherra sem eru kannske innan marka fyrirspurnatímans en viðkomandi þm. telur skæting eða að sér veist með þeim hætti að hann verði á ný að kveðja sér hljóðs. Það er alveg augljóst mál að vinnubrögð af þessum toga spilla þessu fyrirspurnaformi og það leysir engan vanda fyrir hæstv. forseta að neita algjörlega að hlusta á athugasemdir af því tagi sem hér hafa verið fluttar. Við verðum að reyna að komast að eðlilegri niðurstöðu um það hvernig þinghaldinu er háttað og þar er ekki við forseta einan að tefla og stjórnarlið og ráðherra heldur líka stjórnarandstöðu eins og ég veit að öllum þm. er ljóst, þar á meðal hæstv. forseta sameinaðs þings.