02.04.1986
Efri deild: 68. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3393 í B-deild Alþingistíðinda. (3036)

126. mál, fjáröflun til vegagerðar

Frsm. minni hl. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Af hálfu minni hl. nefndarinnar hefur verið lagt fram nál. sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Nefndin hefur athugað frv. ítarlega og rætt við fulltrúa fjmrn. og hagsmunasamtaka. Frv. er flutt til staðfestingar bráðabirgðalögum sem gefin voru út 20. sept. 1985.

Nefndin hefur ekki orðið sammála um afstöðu til frv. Minni hl. er andvígur því að skattheimta á bifreiðar sé aukin á sama tíma og útgjöld til vegamála eru skorin niður. Frv. gengur einnig þvert á þá stefnu, sem nú er uppi, að færa niður verðlag í landinu og standa gegn öllum hækkunum. Minni hl. leggur því til að frv. verði fellt.“

Einstakir nefndarmenn áskilja hér hins vegar rétt til að flytja og fylgja brtt. Undir þetta nál. skrifa Eiður Guðnason, Ragnar Arnalds og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir.

Það er sem sagt skoðun okkar, sem skipum minni hl., að þetta frv. beri að fella.

Ég tel óhjákvæmilegt, herra forseti, að fara nokkrum orðum um þetta mál, aðdraganda þess og hvernig það hefur borið að í nefndinni og raunar einnig að fá ýmsar upplýsingar hjá hæstv. fjmrh. varðandi málið.

Þetta mál á sér töluvert sérkennilega sögu. Það er flutt til staðfestingar bráðabirgðalögum sem voru gefin út 20. sept. s.l. af handhöfum forsetavalds, en skylt er að geta þess að þá var fjmrh. sá sem nú gegnir embætti iðnrh. Þetta var áður en stólahringekja Sjálfstfl. fór í gang með þeim afleiðingum sem allir þekkja.

Þetta mál, sem er 126. mál þingsins, kom til fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar 25. nóv. s.l. og er búið að vera hjá nefndinni síðan. Ég er ekki með þessu, herra forseti, síður en svo, að gagnrýna formann fjh.- og viðskn. og störf hans að þessu máli, alls ekki. Það vil ég að skýrt komi fram. Hann hefur verið allur af vilja gerður til að koma þessu máli úr nefnd. Hins vegar hefur það gerst einu sinni eða oftar, þegar nefndin hefur verið að því komin að afgreiða þetta mál, að fjmrn. hefur óskað eftir því að fá að athuga málið betur. Af hálfu fjmrn. hefur verið ríkjandi alveg einstakur hringlandaháttur varðandi afgreiðslu málsins og ég tel mig knúinn til að koma betur að því síðar í ræðu minni. Það er sannarlega full ástæða til að fá ítarlegar skýringar á gangi þessa máls hjá hæstv. fjmrh.

Samkvæmt fundargerðabók fjh.- og viðskn. er þetta mál tekið fyrir í sjötta skipti á 17. fundi nefndarinnar 20. febr. Þá er málið afgreitt og segir, með leyfi forseta, í fundargerðabókinni:

„Málið afgreitt. Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með brtt. sem flutt er á sérstöku þskj. Minni hl. skilar séráliti. Frsm. meiri hl. Eyjólfur Konráð Jónsson.“

Þetta er bókun frá fundi fjh.- og viðskn. 20. febr. s.l. Næsti fundur nefndarinnar var haldinn fimm dögum síðar, þ.e. 25. febr. Þá segir í fundargerðabók um 126. og raunar 128. mál líka, sem er fylgifrv. og frsm., hv. 4. þm. Norðurl. v., vék að áðan:

„Fjármálaráðuneytið hefur tekið málið til sín að nýju til athugunar og kemur það ti1 nefndarinnar að nýju.“ 13. mars er málið enn einu sinni tekið fyrir í nefndinni og þá liggja fyrir nýjar tillögur fjmrn.

18. mars kemur fulltrúi fjmrn. á fund nefndarinnar og skýrir óljósar og um margt torskildar tillögur fjmrn. Þá er bókað að nefndin klofni um málið.

Þetta er sem sagt gangur málsins innan nefndarinnar. Ég tek skýrt fram að ég er ekki að gagnrýna störf formanns nefndarinnar, síður en svo. Hann hefur unnið að þessu máli af skyldurækni og þeirri trúmennsku sem honum er eiginleg í því erfiða hlutverki, sem hann hefur, að vera formaður fjh.- og viðskn. í stjórnarliði þessarar ríkisstj.

Nú er rétt að það komi fram strax að þetta frv. og þær breytingar sem nú er verið að tala um eru allt annað en bráðabirgðalögin sem voru gefin út 20. sept. Það eru ýmsar breytingar, m.a. tæknilegar, nánast uppsetningarbreytingar, sem er kannske ekki ástæða til að rekja í mjög löngu máli. Skýrt skal tekið fram að nefndarmenn fengu yfirleitt þær upplýsingar sem um var beðið og stóð ekki á því, utan upplýsingar um eitt atriði sem ég mun víkja nánar að á eftir.

Sú meginbreyting sem felst í skattheimtunni sjálfri núna er að létta skattheimtu af minnstu dísilbílunum sem tvímælalaust er rétt stefna og þar mætti þó ganga enn lengra. Það hafa orðið miklar framfarir í framleiðslu og gerð dísilvéla þannig að þær eru settar í æ minni bíla með góðum árangri. Hins vegar hefur vantað þann hvata í löggjöfina sem nauðsynlegur er til þess að menn keyptu slíka bíla sem eru mjög hagkvæmir í rekstri eða ættu að vera það.

Önnur breyting, sem hér er gert ráð fyrir, er rýmkun á afsláttarheimildum sem nú eru í gildi varðandi kílómetragjald vegna aksturs vöruflutningabifreiða, svo og festi- og tengivagna. Þessi breyting er í þá veru að lækkunin er mest hjá þeim sem aka mest, allt upp í 50% afslátt umfram 50 000 km á ári. Hér var t.d. sérstaklega talað um vöruflutningabifreiðar á langleiðum svo og malar- og vikurflutningabíla. Og þá kem ég að því atriði sem ég held að sé ástæða til að gefa sérstakan gaum og því atriði sem ég átti við þegar ég talaði um torskilin ákvæði í frv. sem skýringar fengust á seint og um síðir þegar nefndin ræddi við embættismenn úr tekjudeild fjmrn.

Í gildandi lögum, 7. gr. laganna, er svohljóðandi ákvæði, með leyfi forseta:

„Sé bifreið, festi- eða tengivagn eingöngu notuð við flutninga þar sem leyfð heildarþyngd nýtist ekki til fulls er ráðherra heimilt að ákveða að gjaldskyldan miðist við aðra þyngd en leyfða heildarþyngd.“

Þetta ákvæði hefur lengi verið í lögum. Nú er lagt til að þessu ákvæði verði breytt og í brtt., með leyfi forseta, segir svo á bls. 2:

„Ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi getur ráðherra ákveðið að gjaldskylda bifreiðar, festi- eða tengivagns miðist við aðra þyngd en leyfða heildarþyngd," - og taki menn nú eftir - „svo sem ef leyfð heildarþyngd nýtist ekki til fulls.“

Ég vek sérstaka athygli á því að það eru orðin „svo sem ef“ sem hérna skipta máli og raunar var vakin sérstök athygli á því í nefndinni þegar nefndarmönnum gekk erfiðlega að sjá hver í raun breytingin væri. Þetta var raunar orðað öðruvísi. Þá stóð „t.d. ef leyfð heildarþyngd nýtist ekki til fulls“. En í brtt. eins og þær nú liggja fyrir er þetta orðað „svo sem ef“. Það er þetta sem skiptir öllu máli. Það ákvæði sem ég vitnaði til áður, þ.e. „sé bifreið, festi- eða tengivagn eingöngu notuð við flutninga þar sem leyfð heildarþyngd nýtist ekki til fulls er ráðherra heimilt að ákveða að gjaldskyldan miðist við aðra þyngd en leyfða heildarþyngd“, hefur verið notað, eftir því sem upplýst var í nefndinni, með alveg ákveðnum hætti og þeim hætti einum að þegar þungatakmarkanir hafa verið í gildi hefur verið veittur afsláttur á kílómetragjaldi, þegar vöruflutningabifreiðar hafa vegna þungatakmarkana ekki mátt vera með fullan farm, þ.e. þar sem leyfð heildarþyngd nýtist ekki til fulls. Þetta ákvæði, skv. upplýsingum embættismanns úr fjmrn., hefur eingöngu verið notað með þessum hætti. Nú á að breyta og færa þetta út og það kom skýrt fram í nefndinni hvað það er sem þá vakir fyrir mönnum.

Í nefndinni var lagt fram plagg sem heitir „Athugun á rekstrarkostnaði vikurbíla með vagni.“ Það var raunar um það fjallað í nefndinni með hvaða hætti væri hægt að létta þessum bílum, vikurbílum sem flytja vikur úr Suðurlandskjördæmi til Reykjavíkur, einkennileg tilviljun kannske, rekstur þeirra, þ.e. þessara einu flutninga. Þetta var rætt og það þótti ekki held ég tiltækt og ekki eðlilegt að setja sérstök ákvæði í lögin um vikurflutningabíla. En þá var farin sú leiðin að gefa ráðherra þessa heimild og var upplýst í nefndinni að það væri beinlínis með tilliti til þessara einu flutninga sem þessi breyting væri sett fram. Ég lýsi því sem minni skoðun að þetta sé fullkomlega óeðlilegt. Það var ekkert leyndarmál í hv. fjh.- og viðskn. að það var þrýstingur frá ákveðnum þingmönnum eða þingmanni, ekki í þessari hv. deild að vísu, sem olli því að þessi breyting var gerð. Það var ekkert verið að liggja á því. Þetta var sem sagt skýringin á því hvers vegna fjmrn. kallaði málið til sín aftur. Það þurfti að koma til móts við ákveðnar óskir þar sem þm. þótti ekki nóg fyrir flutninga af vissu tagi í sínu kjördæmi gert. Því var gengið í það að breyta þessu með þessum hætti sem ég hef nú lýst og tel ekki eðlilegt.

Þegar þetta var til umfjöllunar í nefndinni var lagt fram minnisplagg þar sem segir, með leyfi forseta:

„Eins og kunnugt er var afgreiðsla fjh.- og viðskn. á frv. um breytingu á lögum um fjáröflun til vegagerðar komin á lokastig þegar henni var frestað vegna nánari athugunar á því hvort gera mætti eitthvað í ívilnunarátt fyrir vikurflutninga á landi.“

Síðan segir í þessu plaggi: „Að mati tekjudeildar er óráðlegt að breyta lögunum á þá lund að lægra gjald skuli greiða fyrir þessa flutninga en aðra. Ef vilji er til þess að koma til móts við umrædda aðila er eðlilegast að mati tekjudeildar að rýmka heimild þá sem ráðherra hefur skv. gildandi lögum til þess að miða gjaldtöku við aðra þyngd en leyfða heildarþyngd ef ljóst er að hún nýtist ekki til fulls.“

Hér er sem sagt komin skýringin á þessari breytingu fyrir vikurflutningana í kjördæmi hæstv. fjmrh. sem hér á að ná fram að ganga. Nú er sjálfsagt ástæða til að hlúa að þessari atvinnugrein, sem er flutningur á vikri og sala til útlanda, en hvort á að gera það með nákvæmlega þeim hætti sem hæstv. fjmrh. og þm. Suðurlands gerir í þessu frv. er aftur annað mál. Og þegar verið er að setja fram svona orðalag, eins og er í þessum brtt., með tilliti til ákveðinna tilvika eins og komið hefur fram í störfum nefndarinnar, þ.e. það er bara verið að hugsa um flutninga á ákveðnu efni með ákveðnum bílum úr ákveðnu kjördæmi ákveðna leið, þá orkar málið meira en lítið tvímælis að mínu mati.

Þetta er í rauninni opnað þannig að fjmrh. hefur heimild til að breyta þessari gjaldskyldu í hvaða tilviki sem er vegna þess að orðalagið „svo sem ef“ galopnar þetta. Það var viðurkennt af hálfu ráðuneytisins þegar nefndarmenn leituðu skýringa á þessu ákvæði vegna þess að það þurfti virkilega að fá skýringar á þessu. Þær lágu ekki á lausu fyrr en um var spurt. Hérna er sem sagt verið að hygla einni tegund flutninga vegna sérstakra hagsmuna og það er óeðlilegt.

Það væri ástæða til í þessu sambandi að fara nokkrum orðum um það vandamál sem blasir við vörubílstjórastéttinni almennt. Þeir sem veita þá þjónustu, kannske einna helst í dreifbýlinu þar sem þessi þjónusta verður að vera til staðar, þar sem þessir bílar verða að vera til vegna ýmissa tilfallandi verkefna, ná aldrei að aka þá vegalengd sem gefur þeim rétt til að fá afslátt af þungaskattinum þannig að það eru þeir sem síst skyldi sem fara í rauninni verst út úr þessu.

Svo er þess að geta að það er farið í kringum lög um þungaskattinn á margvíslegan hátt. Ef menn nota t.d. dráttarvél og kerru til flutninga, eins og gert er mjög víða og eins og t.d. Reykjavíkurborg gerir í stórum stíl, borga menn engan þungaskatt vegna þess að þungaskattur er ekki borgaður af dráttarvélum. Dráttarvélar og kerrur eru notaðar sums staðar á landinu í allstórum stíl við löndun. Af þessu er ekki borgaður neinn þungaskattur. En þeir sem eiga og reka vörubíla í þessum plássum verða að standa skil á þungaskattinum. Það var raunar einu sinni svo að Reykjavíkurborg lét sér detta í hug að nota dráttarvélar og kerrur til mannflutninga til að flytja vinnuflokka milli staða í borginni en ég hygg þó að bifreiðaeftirlit og öryggiseftirlit hafi sameinast um að segja nei við því. En þarna er gat á lögunum sem ástæða virðist vera til að líta nánar á.

Annað er það að í gildandi lögum um þungaskatt eiga eigendur jeppabifreiða rétt á endurgreiðslu á helmingi af skattinum ef þeir sanna með vottorði frá hlutaðeigandi skattstjóra að þeir hafi haft meiri hluta tekna sinna næstliðið ár að frádregnum kostnaði við öflun þeirra af búrekstri og ef mennirnir lýsa því yfir að bifreiðarnar hafi verið notaðar næstliðið ár að mestu eða öllu leyti við landbúnaðarstörf. Það er ár og dagur síðan ég minnist þess að hafa séð jeppa notaða við landbúnaðarstörf, en það kann að finnast. Ég óskaði eftir því í nefndinni að fá upplýsingar um hversu margir bílar það væru sem afsláttur væri veittur á. Um það hafa ekki fengist upplýsingar. Ég bað um þessar upplýsingar í nefndinni. Þær hafa ekki komið og ég óska eftir því að nefndin fái þær milli 2. og 3. umr. þessa máls. Ég hef grun um að kannske sé þetta ákvæði misnotað. Ég fullyrði ekkert um það. En það væri fróðlegt að fá að sjá þessar tölur sem fjmrn. einhverra hluta vegna treystir sér ekki til að leggja fram.

Annað mál var rætt í nefndinni þó að ekki væri það gert mjög ítarlega. Það var fyrirkomulag innheimtunnar. Það eru margvíslegir annmarkar á því að innheimta þungaskattinn eftir kílómetramæli, en það er tvenns konar háttur á því varðandi minni bílana. Menn geta valið um að borga fast gjald eða vera með mæli. Það eru margháttaðir vankantar á því. Ég þori ekki alveg að slá því föstu, en kannske er eitt land í Evrópu fyrir utan Ísland þar sem sú aðferð er notuð að nota mæla. Bæði eru mælarnir dýrir, þeir eru bilanagjarnir og þetta hefur margháttaða erfiðleika í för með sér.

Víða annars staðar hefur sú leið verið farin að lita olíuna, annaðhvort að lita þá olíu sem fer til notkunar á bifreiðar eða lita þá olíu sem fer til húsahitunar. Þetta mun hafa verið athugað hér. Okkur var sagt í nefndinni fyrst þegar fjmrn. tók málið til sín að nýju að þetta mál væri til athugunar. Síðan heyrðist ekkert meira frá því. En ég leyfi mér að vona að þetta mál sé enn í athugun af hálfu ráðuneytisins vegna þess að það bendir margt til þess í mínum huga að þetta sé miklu skynsamlegri leið, bæði ódýrari og hagfelldari á ýmsan hátt, að lita olíuna, en vera með þessa mæla og það eftirlits- og aflestrarkerfi sem óhjákvæmilega fylgir þeim.

En ég legg á það mikla áherslu að þessi skattheimta kemur í rauninni kannske verst við þá sem síst skyldi, þ.e. bílstjórana sem reka vörubíla, oftast af minni gerð, út um allt land þar sem þessi tæki verða að vera til. Það hefur verið að þeim vegið og þeirra atvinnumöguleikum, eins og hv. þm. vita, m.a. með stórauknum útboðum þar sem verktakar hafa komið til skjalanna og tekið þá vinnu sem þessir menn margir hverjir treystu á áður.

Ég veit ekki, herra forseti, hvort er ástæða á þessu stigi að hafa um þetta miklu fleiri orð. Ég hef óskað eftir því að áður en málið verður afgreitt héðan úr Ed. liggi fyrir þær upplýsingar sem ég óskaði eftir í nefndinni. Það kann að vera að það sé erfitt að afla þeirra, en ég hygg samt að annað eins hafi verið gert og það sé engin ofætlan að óska eftir því að þessar upplýsingar liggi fyrir.

En ég stend ásamt hv. þm. Ragnari Arnalds og Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur að nál. og niðurstaða okkar er sú að þetta frv. eigi að fella. Við munum því greiða atkvæði gegn því.