03.04.1986
Efri deild: 69. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3430 í B-deild Alþingistíðinda. (3081)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Í byrjun fundarins barst sú frétt meðal deildarmanna að þingflokkur Sjálfstfl. hefði óskað eftir því að þetta mál yrði ekki tekið á dagskrá. Á fundi í gær fór fram upphafsumræða um þetta mál. Mér skilst svo að enn eigi að fara að parta þessa umræðu í sundur. Ég vil gera þá fsp. til hæstv. forseta hvort nú standi til að einhver hluti þessarar umræðu fari hér fram, hvort frsm. nál. mæli fyrir þeim eða hvort hér eigi að fara fram fullnaðarumræða um málið. Ég mótmæli því ef enn á að fara að slíta þessa umræðu í sundur vegna þess að stjórnarflokkarnir koma sér ekki saman um hvernig á að afgreiða málið og vinna að málinu.