07.04.1986
Neðri deild: 73. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3486 í B-deild Alþingistíðinda. (3145)

371. mál, vísitala framfærslukostnaðar

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Á þskj. 670 flytjum við þm. Alþb. í Nd. frv. til laga um breytingu á lögum nr. 5 frá 1984, um vísitölu framfærslukostnaðar og skipan kauplagsnefndar. Frv. er á þá leið að á eftir 1. málsgr. 2. gr. komi ný málsgr. sem orðist svo:

„Við útreikning á vísitölu framfærslukostnaðar skal strax og við verður komið að mati kauplagsnefndar reikna sérstaklega framfærslukostnað þess þriðjungs þátttakenda sem hafði lægst heimilisútgjöld samkvæmt neyslukönnuninni. Kauplagsnefnd skal gefa út á þriggja mánaða fresti upplýsingar um þróun framfærslukostnaðar samkvæmt þessari málsgrein. Þá skal kauplagsnefnd og láta reikna út breytingar á útgjöldum aldraðra og öryrkja sem einungis hafa lífeyri almannatrygginga.“

Tilgangurinn með þessu frv., herra forseti, er sá að tryggt verði í lögum að unnt verði bæði fyrir stjórnvöld og aðila vinnumarkaðarins að fylgjast með því hvernig þróun framfærslukostnaðar láglaunafólks er í landinu. Það er í rauninni aldrei fráleitara en einmitt nú að ætla sér að gera tilraun til að stjórna landinu eftir meðaltalsvísitölu. Það er fráleitara nú en nokkru sinni fyrr fyrst og fremst vegna þess að launamismunur er svo gífurlegur hér á landi um þessar mundir að það er alveg fráleitt að ætla að ákveða efnahagsráðstafanir eða taka meginákvörðun í kjaramálum einvörðungu út frá meðaltalsvísitölu. Það er hætt við því að slíkar ákvarðanir sneiði hjá garði þeirra sem helst þurfa á því að halda að kjaramálum þeirra sé sinnt, þ.e. láglaunafólksins í landinu.

Samkvæmt gildandi lögum stendur nú yfir neyslukönnun fyrir nýjan grunn vísitölu framfærslukostnaðar. Það er sem sagt verið að vinna þennan nýja grunn núna. Sú könnun, sem nú stendur yfir, hófst á s.l. ári og það er meiningin að ljúka úrvinnslu hennar á þessu ári. Þessi könnun, sem nú er verið að gera, er miklu víðtækari en sú könnun sem var byggt á við síðasta vísitöluútreikning og er gert ráð fyrir því að nýja könnunin nái til um 500 aðila víðs vegar á landinu, en síðast náði hún aðeins til 176 fjölskyldna í landinu þegar könnunin var gerð upp að lokum. Þá var eingöngu miðað við launavinnufjölskyldur og einvörðungu við hjón og sambýlisfólk. Ætlunin er nú að nýja neyslukönnunin nái miklu víðar. Verður því unnt við birtingu á niðurstöðum hennar að sýna fram á mismunandi neyslusamsetningu fólks eftir tekjum fjölskyldnanna eins og þetta frv. gerir reyndar ráð fyrir.

Tilgangurinn með frv. er ekki að fá mismunandi mælingar á verðbólgu, eins og gjarnan virðist ætlunin með vísitöluumræðu stjórnmálamanna. Það er aukaatriði í þessu máli. Vísitölur mæla flestar sama eða nær sama verðbólgustigið yfir lengri tíma. Tilgangur frv. er hins vegar sá að tryggja að fram komi að vísitala meðalfjölskyldunnar og t.d. vægi bílsins eða búvörunnar er allt annað en hjá láglaunafjölskyldunum.

Í þessu sambandi má kannske minna á að þegar nýi vísitölugrundvöllurinn var tekinn upp sem viðmiðun við vísitölu framfærslukostnaðar urðu matvörur og þó sérstaklega búvörur miklu léttari í vísitölunni eins og það er kallað en áður var. Ég er þeirrar skoðunar að gamla vísitalan hafi þannig verið betri sem stjórntæki vegna láglaunafjölskyldna í landinu en nýja vísitalan er.

Nýlega komu fram upplýsingar um að verulegur hluti íslenskra fjölskyldna væri undir þeim mörkum sem í alþjóðlegum skýrslum eru kölluð fátæktarmörk. Tveir sérfræðingar sendu frá sér tilgátur í þessu efni, annar um að 17% allra fjölskyldna í landinu væru undir fátæktarmörkum sem svo eru kölluð, hinn að svo væri háttað um 20 000 fjölskyldur af 70 000. Ljóst er, hvor talan sem notuð er, að hér er um að ræða nýtt vandamál á Íslandi eftirstríðsáranna og það verður að taka á því tafarlaust.

Um leið og fátæktin hefur haldið innreið sína á íslensk heimili liggur fyrir að þjóðartekjur á mann eru á þessu ári einhverjar þær hæstu sem verið hafa hér á landi. Fjöldi hinna fátæku er því ekki aðeins til marks um ástand þeirra. Fjöldinn er líka til marks um að hinn fámenni og ríki minni hluti er efnaðri en nokkru sinni fyrr. Milli þessara þjóðfélagshópa er óbrúanlegt bil, milli hinna fátæku annars vegar og hins forríka litla minni hluta hins vegar. Því bili verður hins vegar ekki eytt með meðaltalsvísitölum. Það er liðin tíð að slíkar vísitölur séu nothæf stjórntæki. Þær eru hins vegar eða geta verið ágætur mælikvarði á verðbreytingar í heild, en veruleikinn á bak við vísitölurnar er svo mismunandi að fráleitt er að ætla að stýra þjóðfélaginu út frá einhverjum meðaltalsjóni.

Herra forseti. Ég hygg að það sé þarflaust að skýra efni þessa frv. nánar. Það er einfalt, skýrir sig sjálft, en þó mikilvægt til þess að unnt sé að gera sér grein fyrir því hvernig þróun útgjalda láglaunafjölskyldnanna er og að hvaða leyti hún er frábrugðin, sú útgjaldaþróun, þeirri vísitölu sem venjulega er miðað við, þ.e. meðaltalsvísitölu framfærslukostnaðar sem segir allt annað um neyslusamsetningu fólks en slík viðmiðunarvísitala fyrir tekjur og útgjöld láglaunafólks mundi segja.

Ég tel ekki þörf á því, herra forseti, að fjölyrða um þetta mál frekar. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.

Umr. (atkvgr.) frestað.