10.04.1986
Efri deild: 73. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3650 í B-deild Alþingistíðinda. (3327)

430. mál, Happdrætti Háskóla Íslands

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Það er auðvitað rétt hjá hæstv. landbrh. að með frv. um talnagetraunir er ekki verið að fjölga heimildum, enda skiptir það ekki máli. Sú breyting sem þar er verið að gera mun hafa það í för með sér, eins og greint hefur verið frá, að heimild sem ekki hefur verið notuð í 13 ár verður notuð og það mun hafa í för með sér breytingu á öllum þessum happdrættisrekstri og það mun hafa í för með sér breytingu á starfsgrundvelli hinna þriggja stóru happdrætta alveg örugglega.

Nú er komið frv. til l. um að hjálpa Happdrætti háskólans og ég hugsa að þess verði ekki langt að bíða að hin happdrættin, Happdrætti Sambands ísl. berklasjúklinga og Happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna, óski eftir sams konar heimildum. Ég sé ekki hvernig menn ætla að standa gegn því að veita þær heimildir. Það finnst mér koma til athugunar og spyr hæstv. dómsmrh. þá að því: Hefur ekki komið til athugunar að láta þessi stóru happdrætti sitja öll við sama borð og hafa öll leyfi til að stunda svona rekstur? Er ekki best að gefa þetta frjálst úr því sem komið er? Það er hvort sem er ekki um nein einkaleyfi að ræða lengur þegar svo margir aðilar sem raun ber vitni eru búnir að fá leyfi til að reka svo margs konar happdrætti sem gert er ráð fyrir í þeim frumvörpum sem eru nú til umfjöllunar.