15.04.1986
Sameinað þing: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3824 í B-deild Alþingistíðinda. (3515)

389. mál, takmörkun yfirvinnu ríkisstarfsmanna

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svör hans, sem voru býsna athyglisverð og sögðu okkur töluverða sögu, og raunar nákvæmlega það sem ég bjóst við, að ítarlegar tillögur voru ekki gerðar og framkvæmdin hefur verið eftir því. Óneitanlega læðist að manni sá leiði grunur að sparnaðaráform ríkisins hvað þetta snertir hafi verið meira sýndarmennska en að alvara hafi legið þar að baki.

Auk þess segir mér svo hugur að þessi markmið séu ekki að öllu leyti samrýmanleg því að ef lögð er áhersla á eitt svið þá dregur það úr líkum á árangri á öðru sviði, þ.e. að ef áhersla er lögð á að endurráða ekki í störf sem losna og ráða ekki fólk til afleysinga hljóti það að koma fram í því að það verði aukning í yfirvinnu. Ég er satt að segja engu vissari eftir svör hæstv. ráðh. en áður um árangur af þessum aðgerðum. En um árangur er vitanlega best að spyrja í árslok.