15.04.1986
Sameinað þing: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3824 í B-deild Alþingistíðinda. (3516)

390. mál, sparnaður í rekstri Tryggingarstofnunar ríkisins

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Á þskj. 715 leyfi ég mér að bera fram fsp. til hæstv. fjmrh. svohljóðandi:

„Hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar til að mæta 150 millj. kr. sparnaði í starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins sem stefnt var að við afgreiðslu fjárlagaársins 1986?"

Til skýringar á fsp. minni vitna ég enn, með leyfi hæstv. forseta, til orða hæstv. fjmrh. við 1. umr. um fjárlög þessa árs, en hann sagði:

„Í sjöunda lagi eru framlög til almanna- og atvinnuleysistrygginga við það miðuð að lækka megi útgjöldin um 250 millj. kr. frá því sem væri að óbreyttu. Gera þarf sérstakar ráðstafanir á þessum sviðum til að ná fram þessum sparnaði.“

Á milli 1. og 3. umr. um fjárlögin var hins vegar horfið frá 100 millj. kr. skerðingu til Atvinnuleysistryggingasjóðs, en haldið fast við áform um sparnað í starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins eða svo vitnað sé orðrétt í ræðu hv. formanns fjvn. Pálma Jónssonar við 3. umr., með leyfi forseta:

„Standa þá áfram ákvarðanir um að ná skuli sparnaði um 150 millj. kr. í starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins af lífeyristryggingum svo sem fjárlagafrv. greinir.“

En í grg. með fjárlagafrv. var tekið fram að framlög til lífeyristrygginga mundu lækka um 80 millj. og til sjúkratrygginga um 70 millj. kr.

Hið sama gildir um þessi sparnaðaráform og ýmis önnur að þau fengust aldrei skilgreind né nánar útfærð þótt margsinnis væri eftir því leitað meðan málið var í umfjöllun í nefnd. Reyndar er mér til efs að hægt sé að spara á þessum pósti án þess að skerða þjónustu og í því felast áhyggjur mínar af þessu máli. Þær eiga sér einnig rætur í því að nýlega var ég ásamt fulltrúum annarra þingflokka á flokkakynningu í Menntaskólanum í Kópavogi. Þá var hv. 2. þm. Reykv. spurður hvernig ríkissjóður ætlaði að mæta þeim kostnaðarauka sem hann yrði fyrir vegna þeirra ráðstafana í ríkisfjármálum sem síðustu kjarasamningar byggjast á. Og hv. þm. svaraði: „Við verðum m.a. að borga meira fyrir það sem við fáum frá ríkinu.“ Ég skrifaði þetta niður eftir honum orðrétt, en því miður var ekki tími til neinna orðaskipta þá þar sem þetta var í lok fundarins og hv. þm. síðastur á mælendaskrá. Er miður að hann skuli ekki vera viðstaddur þessa umræðu núna til að skýra þessi orð, en mér varð óneitanlega hugsað til sparnaðaráformanna í starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins sem hér eru á dagskrá.

En við skulum heyra hvað hæstv. fjmrh. hefur að segja sem svar við fsp. minni á þskj. 715.