17.04.1986
Neðri deild: 84. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4015 í B-deild Alþingistíðinda. (3698)

Um þingsköp

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég skil ekki þessa óþolinmæði. Menntmn. Ed. og Nd. hafa unnið saman að þessu máli. Frá því að málið var fyrst tekið fyrir á sameiginlegum fundi menntmn. Nd. og Ed. hafa einstakir nefndarmenn verið að láta í ljós einhverjar áhyggjur yfir því að málið næði ekki fram að ganga. Það hefur verið unnið að þessu máli í fullri samvinnu við kennarasamtökin og mér er ekki kunnugt um það, a.m.k. ekki í mínum flokki, að uppi séu raddir um að stöðva þetta frv. og mjög flókin mál bíða afgreiðslu þingsins eins og m.a. húsnæðismálin. Sú niðurstaða sem fékkst á sameiginlegum fundum menntmn. á að tryggja að þetta frv. fái þinglega meðferð og ég vænti þess að stuðningsmenn frv. haldi ekki áfram að reyna að tefja fyrir framgangi þess með því að láta í ljós áhyggjur um að málið nái ekki fram að ganga.

Hins vegar liggur ljóst fyrir að nokkrar umræður verða um þetta mál að ég ætla. Þetta er ekki einfalt mál í sniðum. Mér skildist, vegna þess að það er gert ráð fyrir eldhúsumræðum í kvöld, að menn vildu hafa þennan fund sem stystan og leit svo á að samkomulag hefði verið um að taka eingöngu á dagskrá í dag mál sem þyrftu að ganga til nefnda eða mál sem ekki yrðu umræður um.

Á hinn bóginn er það rétt að hv. 5. þm. Austurl. spurði mig að því áðan hvort hugmyndin væri sú að taka málið fyrir nú til 2. umr. Ég hafði ekki heyrt að það væri ætlun hæstv. forseta. En auðvitað, ef hv. þm. og hæstv. forseti leggja ofurkapp á það og það er samdóma álit þeirra beggja að þær ýfingar séu í þinginu út af þessu máli sem mér er ekki kunnugt um að nauðsynlegt sé að vaka dag og nótt út af núna, þá er ég reiðubúinn til þess. En ég hélt að málsmeðferð í menntmn., sem er samkvæmt beiðni hæstv. menntmrh. og í fullu samráði við þingflokka, hefði tryggt að þetta væri eitt af þeim málum sem allir þingflokkar væru sammála um að þyrfti að ná fram að ganga. Og ég ítreka að málið hefur fengið ítarlega efnislega skoðun á sameiginlegum fundum menntmn. Ed. og Nd. þannig að ég sé ekki hvað ætti að tefja framgang þess.