17.04.1986
Sameinað þing: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4039 í B-deild Alþingistíðinda. (3719)

Almennar stjórnmálaumræður

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Eflaust hefur einhver undrast stóryrta ræðu Svavars Gestssonar hér áðan. Það gerði ég ekki. Ég þekki Svavar Gestsson vel. Þar talaði fulltrúi þess flokks sem á stærstan þátt í því að verðbólga fór úr böndum um áramótin 1982-83. Þar talaði fulltrúi þess flokks sem á stærstan þátt í því að auka erlendar skuldir þjóðarinnar svo að þær eru nú orðnar um eða yfir 50% þjóðarframleiðslu.

Eins og stjórnarsáttmálinn ber með sér var þessi ríkisstjórn mynduð til að fást við þessi vandamál. Hún var mynduð til þess að ráða niðurlögum verðbólgu og stöðva erlenda skuldasöfnun. Það var með þetta í huga sem við framsóknarmenn gengum til stjórnarsamstarfsins. Við vorum og erum sannfærðir um að þjóðarbúið hefði ekki þolað þá vaxandi verðbólgu sem var í upphafi ársins 1983. Við erum einnig sannfærðir um það að erlendar skuldir þjóðarinnar mega ekki aukast þótt þær séu ekki komnar á sama hættustig og verðbólgan var. Flestar gerðir ríkisstj. hafa því einkennst af viðureigninni við verðbólguna og erlendar skuldir. Við höfum talið óhjákvæmilegt að meta bæði eldri og nýjar ráðstafanir í þessu ljósi.

Allir viðurkenna þann mikla árangur sem náðist í upphafi stjórnartímabilsins þegar verðbólga var færð úr 130 í 20% á átta mánuðum. Það var gert með hörðum lögbundnum aðgerðum sem stjórnarandstaðan kallaði gerræðislegar en við framsóknarmenn töldum óhjákvæmilegar. Þær tókust vegna þess að þjóðin skildi að um nauðsyn var að ræða og studdi aðgerðirnar. Síðast liðin tvö ár töldu ýmsir rétt að láta á það reyna hvort áframhaldandi árangur næðist í efnahagsmálum með sem mestu frjálsræði og afskiptaleysi stjórnvalda. Ég þarf ekki að rekja þróun mála á þessu tímabili. Þetta tókst ekki. Í ljós kom að íslenskt efnahagslíf er enn þá allt of veikburða eftir eld verðbólgunnar til þess að laga sig án opinberra aðgerða að breyttum aðstæðum og tryggja um leið hjöðnun verðbólgu. Ríkisstjórnin bauð að vísu þátttöku í kjarasamningum og m.a. fyrir tilstuðlan ríkisstj. tókust skynsamlegir samningar í febrúar 1984. Þátttaka ríkisvaldsins má segja var hins vegar ekki nægilega markviss, enda ekki ákveðið eftir henni leitað. Í peningamálum sérstaklega kom í ljós að atvinnuvegirnir og þjóð, sem er almennt í fjársvelti eftir fjársóun á verðbólguárum, þarf töluverðan tíma til þess að ná jafnvægi á markaðnum.

Með tilvísun til þessarar reynslu töldu stjórnarflokkarnir óhjákvæmilegt að ganga ákveðnar til verks og bjóða þátttöku stjórnvalda í kjarasamningum um s.l. áramót. Ég þarf ekki að rekja árangurinn, hann er öllum í fersku minni. Með markvissu samstarfi aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda náðust kjarasamningar og samkomulag um aðgerðir í efnahagsmálum sem mun tryggja hið langþráða markmið um verðbólgu sem eins stafs tölu í lok þessa árs. Þetta tókst þrátt fyrir markvissa viðleitni Svavars Gestssonar og Alþýðubandalagsmanna að koma í veg fyrir þessa samninga og þetta mun takast ef ekkert óvænt gerist í heimsmálum.

Til þess að ná þessum árangri hafa stjórnvöld orðið að grípa mjög ákveðið inn í fjölmarga þætti efnahagsog peningamála. Dregið var án tafar úr hækkun á opinberri þjónustu, nafnvextir voru lækkaðir þegar í kjölfar samninganna og bankarnir knúðir til þess að falla frá hækkun á ýmiss konar þjónustu. Niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum voru auknar og tollar á ýmsum innflutningi lækkaðir en um leið er af opinberri hálfu og á vegum verkalýðshreyfingarinnar vandlega fylgst með því að lækkun verðlags skili sér til almennings.

Það hefur loks sannast að niðurtalning verðbólgu er fær leið þegar um samstillt átak stjórnvalda, verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda er að ræða, auk þess sem verðbólga í lok ársins mun að öllum líkindum verða um 6%, sem að sjálfsögðu er lítið annað en bylting í íslensku efnahagslífi, verður umtalsverð aukning á kaupmætti almennings sem mun í lok ársins verða svipaður og hann var um áramótin 1982-1983.

Svavar Gestsson hafði ekki rétt svar við spurningu sinni um kaupmátt tímakaups þann tíma sem hann var í ríkisstj. Sá kaupmáttur var falskur. Hann var gerður með erlendri lántöku og miklum viðskiptahalla.

Það er ekki síst ánægjulegt að þessi árangur sem ég hef lýst hefur náðst án atvinnuleysis. Ég þekki enga aðra þjóð sem af því getur státað. Að sjálfsögðu hefur það Alþingi sem senn lýkur einkennst mjög af ráðstöfunum í efnahagsmálum, lög um ýmiss konar aðgerðir í kjölfar kjarasamninganna hafa verið samþykkt með víðtæku samkomulagi á þingi og enn liggja fyrir þinginu frv. sem eru sprottin úr kjarasamningunum. Með frv. um húsnæðismál, sem nú hefur verið lagt fyrir þingið eftir mikla vinnu í kjölfar kjarasamninganna, er staðið að fullu við þau fyrirheit sem ríkisstj. gaf í þeim efnum.

Ég hygg að varla verði annað sagt en að með þeim sé boðuð stórkostleg framför í húsnæðismálum þjóðarinnar. Með þeim tengjast lífeyrissjóðirnir húsnæðiskerfinu og lán Húsnæðisstofnunar, bæði til nýbygginga og kaupa á eldra húsnæði, eru stórlega aukin. Verða lán til þeirra sem byggja í fyrsta sinn allt að 2 millj. 100 þús. kr. sem mun vera 70% af kostnaðarverði meðalíbúðar. Þeir sem standa í byggingu eða húsakaupum öðru sinni eða oftar fá einnig umtalsverðar hækkanir. Ríkisstj. hefur jafnframt heitið því að vextir af lánum Húsnæðisstofnunar verði ekki yfir 3,5% á meðan hún ræður.

Eftir að lög þessi koma til framkvæmda 1. sept. n.k. sýnist mér að það eigi ekki að vera neinum sem er í fullri atvinnu ofraun að eignast viðunandi húsnæði. Fjármagn sem ráðstafað er í gegnum hina svonefndu ráðgjafarþjónustu til þeirra sem hafa lent í erfiðleikum vegna misgengis launa og fjármagnskostnaðar er jafnframt enn aukið um 300 millj. kr. Hefur þá verið varið í þessu skyni samtals 800 millj. kr.

Það er sannfæring mín eftir að ég hef kynnst ýmsum sem notið hafa ráðgjafarþjónustunnar í erfiðleikum sínum að sú aðstoð sem þannig hefur verið veitt hefur bjargað mörgum. Með því að koma skuldum í skil og framlengja lán með lægri vöxtum skapast mönnum nú, þegar kaupmáttur fer hækkandi umfram kostnað fjármagns, svigrúm til þess að vinna upp það sem tapaðist. Með því sem verið er að gera í húsnæðismálum er enn einum áfanga náð í þeirri viðleitni félmrh. og stjórnvalda að auka fjármagn til þess málaflokks.

Árið 1982, þegar Svavar Gestsson fór með félagsmálin, var 2% af þjóðarframleiðslu varið til húsnæðislána en á árinu 1985 3,6% og það mun nú enn aukast. Með endurnýjuðum reglum um stærð íbúða og fleira sem allt var gefið laust í tíð Svavars Gestssonar, með flýtingu á útborgun lána og fjölmörgum öðrum nýmælum ásamt þeirri ráðgjafarþjónustu sem haldið verður áfram og öllum er opin eru húsnæðismálin loks að komast í höfn.

Það er mikill árangur.

Framkvæmd laga um framleiðslu landbúnaðarafurða hefur mjög verið til umræðu. Það er eðlilegt. Samdráttur í hefðbundnum og aldagömlum atvinnugreinum hlýtur ætíð að vera mjög viðkvæmt mál.

Ég vil hins vegar enn leggja áherslu á þá staðreynd að fyrir þjóð sem er með erlendar skuldir sem nema um 53% landsframleiðslunnar er útilokað að greiða 7080% framleiðslukostnaðar með útflutningi landbúnaðarafurða eða nokkurrar annarrar vöru. Slíkt eykur erlendar skuldir þjóðarinnar. Frá þessum vanda hljóp Framsfl. ekki. Það boðaði Svavar Gestsson hins vegar áðan. Hann áfelldist þessar aðgerðir, boðaði aðgerðarleysi. Alþýðubandalagið hefur venjulega hlaupið frá vandanum og leitast við að ná atkvæðum í gruggugu vatni.

Útflutningsbætur hafa vissulega verið mikilvægar til þess að tryggja byggð víða um land. Sú leið er hins vegar ekki fær lengur. Aðrar leiðir varð að finna. Að því er einnig stefnt með fyrrnefndum lögum um framleiðslu landbúnaðarafurða og öðrum aðgerðum landbrh. og ríkisstj.

Um leið og ég legg áherslu á að framkvæmd þessarar breytingar verður að vera með þeim hætti að tekið sé fullt tillit til stöðu einstakra byggða og möguleika til annarrar framleiðslu er óhjákvæmilegt að framleiðslubreytingin verði. Ef rétt er að málum staðið er ég jafnframt sannfærður um að byggðaröskun þarf lítil að verða og landbúnaður verður sterkari eftir en áður.

Málefni sjávarútvegsins hafa verið mjög til meðferðar á þessu þingi. Þar er nú bjartara fram undan. Um það efast enginn. Stjórnun fiskveiða hefur hins vegar verið umdeild sem er ekki óeðlilegt þegar um svo viðkvæmt mál er að ræða. Mikill meiri hluti hagsmunaaðila hefur þó staðfest fylgi sitt við þá fiskveiðistefnu sem fylgt er. Í samræmi við það hlaut sjútvrh. að starfa.

Ég vil hins vegar lýsa ánægju minni með það að ýmsar lagfæringar fengust fyrir landshluta sem háðari eru sjávarútvegi en aðrir hlutar landsins. Nefni ég sem dæmi að línuveiðar eru nú að hálfu utan kvóta í fjóra mánuði ársins.

Nú liggur fyrir Alþingi frv. til laga um afnám sjóðakerfisins sem ég hygg að hafi að flestra dómi verið orðin hin versta flækja. Afnám þessa kerfis í sjávarútvegi er sérstaklega mikilvæg fyrir landshluta sem byggja fyrst og fremst á þorskveiðum því að frá þeim hefur verið tekið og greitt með öðrum fisktegundum.

Þótt afli sé vaxandi og bjartara framundan í sjávarútvegi eiga fyrirtæki í þeirri grein eðlilega í erfiðleikum vegna óhjákvæmilegrar aðlögunar að gjörbreyttum aðstæðum, einkum á fjármagnsmörkuðum. Nú kostar fjármagnið sitt eins og sagt er og eins og hlýtur að vera í eðlilegu þjóðfélagi. Ég er þó ekki í nokkrum vafa um að sjávarútvegur mun komast yfir þann þröskuld, enda væri framtíð þessarar þjóðar að öðrum kosti vægast sagt í mikilli óvissu.

Eins og ég hef áður sagt tel ég fulla ástæðu til að ætla að sá árangur muni nást sem að er stefnt. Reyndar er von til þess að ástand í lok ársins geti orðið töluvert betra en menn hafa þorað að gera ráð fyrir.

Nýjasta endurskoðun Þjóðhagsstofnunar á ástandi og horfum í efnahagsmálum, sem birt verður eftir fáeina daga, bendir til þess að þjóðartekjur vaxi allmiklu meira en áður hafði verið gert ráð fyrir. Stafar það fyrst og fremst af enn batnandi viðskiptakjörum sem felast í lækkun olíu umfram það sem áður var talið og nokkurri viðbótarhækkun á fiskverði á erlendum mörkuðum. Því er nú talið að rúmlega milljarður geti orðið umfram á vöruskiptareikningi og að viðskiptahalli verði því minni en áætlað var, þrátt fyrir nokkuð aukinn innflutning í kjölfar tollalækkana, og verður hann þá minnstur sem hann hefur verið um langt bil.

Erlendar skuldir þjóðarinnar munu þá lækka töluvert sem hundraðshluti af þjóðarframleiðslu í fyrsta sinn um árabil og greiðslubyrði sömuleiðis. Þjóðarframleiðsla mun þá jafnframt aukast um nálægt 3,5%. Þessar horfur tryggja að sjálfsögðu þau markmið sem að er stefnt, bæði aukinn kaupmátt launa og minni verðbólgu. Hitt má þó ekki gleymast að atvinnuvegirnir eru margir hverjir í sárum eftir verðbólgueldinn. Óhjákvæmilegt er því að ráðstafa verulegum hluta batnandi efnahags til þess að treysta stöðu atvinnuveganna og renna fleiri stoðum undir íslenskt efnahagslíf. Á það hefur ríkisstj. lagt áherslu þau ár sem hún hefur setið og sérstaklega eftir að tókst að draga úr verðbólgu á árinu 1983. Nýjar atvinnugreinar hafa fengið forgang að lánsfé, sérstakt fyrirtæki, Þróunarfélagið hf., sett á fót til að stuðla að nýsköpun í atvinnulífi og Stofnlánasjóður fengið fyrirmæli um að lána til slíkra greina.

Ég veit að sumir kappsamir menn eru óþolinmóðir og vilja sjá árangurinn strax. Staðreyndin er að ótrúlega margt er í bígerð. Ég er sannfærður um að það mun skila þjóðarbúinu ómældum arði á næstu árum og stórlega styrkja allan grundvöll efnahagslífsins.

Ég er hins vegar jafnsannfærður um það að hollt er að fara varlega í sakirnar og rasa ekki um ráð fram. Í þessu sambandi vil ég vekja athygli á því að yfir 200 loðdýrabúum hefur verið komið á fót og þeim fjölgar ört. Fyrirtæki á sviði ýmiss konar hátækni hafa vaxið, bæði þau sem nokkuð eldri eru og mörg ný. Sumt af því á eftir að skila sér í ríkum mæli, m.a. í fiskiðnaði landsmanna. Mjög er mikilvægt að Fiskveiðasjóður og Byggðasjóður taki skipulega á þeim málum og hvetji menn til að nota það fjármagn sem sjóðirnir hafa til ráðstöfunar í þessu skyni.

Í fiskeldi er sérstaklega mikill hugur í mönnum. Þeir aðilar munu nú vera orðnir um 60-70 sem þar ætla að hasla sér völl. Sumar hugmyndir eru afar stórar. Þetta er ekki að ástæðulausu þegar þess er gætt hvað vöxtur fiskeldis hefur verið mikill og hraður í nágrannalöndum okkar, t.d. Noregi. Þar hefur fiskeldi aukist um u.þ.b. 40% á ári. Er því spáð að það verði orðið töluvert stærra en sjávarútvegur Noregs innan örfárra ára. Við höfum dregist aftur úr þrátt fyrir það að allir viðurkenna að aðstaða hér á landi er stórum betri til fiskeldis en þekkist víðast annars staðar.

Af þessum ástæðum taldi ég nauðsynlegt að skipa nefnd á s.l. ári til þess að gera tillögur um samræmdar aðgerðir og ráðstafanir vegna fiskeldis. Þessi nefnd hefur þegar skilað ýmsum tillögum sem eru að koma til framkvæmda. Frv. um veðhæfni eldisfiska er að verða að lögum og frv. um Rannsóknadeild fisksjúkdóma verður afgreitt fyrir þingslit. Það er e.t.v. hið mikilvægasta sem gert hefur verið til þess að treysta og tryggja fiskeldi hér á landi. Sjúkdómar eru sú hætta sem verst er eins og reynslan sýnir.

Á vegum Framkvæmdasjóðs Íslands, Byggðasjóðs og Stofnlánadeildar landbúnaðarins verða lánaðar um 350 millj. kr. á þessu ári til fiskeldis. Auk þess hefur Fiskveiðasjóður veitt ábyrgðir sem munu nema um 400 millj. kr. Mikið fjármagn hefur einnig fengist með beinni þátttöku erlendra aðila. Það er umhugsunarefni. Við verðum að gæta þess vandlega að missa aldrei tökin á þessari álitlegu atvinnugrein.

Þannig gæti ég reyndar haldið áfram að ræða um nýsköpun í íslensku atvinnulífi en tíminn leyfir það ekki. Það sem ég hef nefnt verður að nægja til þess að undirstrika þá bjartsýni sem ég ber í brjósti í þessu sambandi og hún er allt annað en það svartagallsraus sem Svavar Gestsson fór með áðan.

Nú þegar verðbólga næst niður í svipað og er í nágrannalöndum okkar er orðinn allt annar og heilbrigðari grundvöllur fyrir atvinnulífið, bæði hið hefðbundna og nýtt. Möguleikarnir eru óteljandi og dugnaður landsmanna mikill. Ég lít því björtum augum til framtíðarinnar, enda takist okkur að halda verðbólgunni í skefjum, draga jafnt og þétt úr erlendum skuldum og búa þannig við heilbrigt efnahagslíf.

Því get ég þó ekki neitað að stóran skugga ber á bjartsýni mína þegar að ástandi heimsmála kemur. Vonarneisti var kveiktur með fundi forustumanna stórveldanna í Genf á s.l. hausti. Það var eðlilegt. Þeir höfðu ekki lengi talast við þótt örlög heimsins alls séu í raun í þeirra höndum. Því miður hefur þessi neisti nú dofnað. Endurnýjaðar tilraunir með kjarnavopn eru mönnum að vonum ekki að skapi. Árás Bandaríkjanna á Líbýu ræður þó úrslitum í þessu sambandi. Þegar málið er skoðað frá öllum hliðum virðist mér sú aðgerð óafsakanleg.

Ég mæli hryðjuverkum ekki bót, því fer víðs fjarri. Alsaklausir einstaklingar verða fyrir slíkum árásum, jafnvel fullhlaðnar flugvélar sprengdar í loft upp, aðeins vegna þess að þær bera merki einhverrar þjóðar, og flugfarþegar myrtir í flughöfnum.

Að sjálfsögðu eiga allar lýðræðisþjóðir að taka höndum saman gegn slíku brjálæði. Veita verður þeim þjóðum sem að hryðjuverkum stuðla verðuga ráðningu. Að svara með hernaðarárás mun hins vegar að mínu mati aldrei stöðva hryðjuverk, fremur auka þau.

Árás Bandaríkjamanna á Líbýu er móðgun við önnur lýðræðisríki í heiminum og sérstaklega við bandamenn þeirra í Evrópu. Hún sýnir virðingarleysi við almenningsálitið, a.m.k. utan Bandaríkjanna. Með árásinni er jafnframt tekin sú áhætta á vaxandi átökum sem engri þjóð er leyfilegt að taka.

Góðir Íslendingar. Senn líður að lokum þessa kjörtímabils. Ég sé enga ástæðu til að ætla að kosningar til Alþingis verði fyrr en á eðlilegum tíma að ári. Kosningar til sveitarstjórna verða hins vegar nú fljótlega og þá mun m.a. vera metið það verk sem ríkisstj. hefur unnið. Ég efast ekki um hver niðurstaðan verður.

Stjórnarflokkunum ber hins vegar skylda til að sanna að sá árangur náist sem þeir hafa lofað. Þeir eiga jafnframt fyrir höndum hið mjög svo erfiða verkefni að endurreisa fjárhag ríkissjóðs. Frá því verður að sjálfsögðu ekki hlaupið. Í því eru stjórnarflokkarnir ákveðnir. Því verður ekki neitað að fjárhagur ríkissjóðs er mjög erfiður í kjölfar kjarasamninganna. Má jafnvel segja að ríkissjóði hafi að nokkru verið fórnað til þess að auka kaupmáttinn og ná verðbólgunni niður.

Hins vegar bíða ríkissjóðs fjölmörg nauðsynleg verkefni sem úr hefur verið dregið á undanförnum árum. Hafnir landsins eru margar í erfiðri stöðu, flugvellir og skólabyggingar hafa tafist og sjúkrahús og fleira. Tekist hefur að viðhalda velferðarkerfinu og er það vel og þar með því jafnræði og öryggi sem þegnunum er ætlað með heilsugæslutryggingu, menntun og fleiru. Um þetta verður að standa vörð þótt sparnaðar beri að leita á öllum sviðum. Fjármagn til opinberra framkvæmda verður að aukast jafnt og þétt á ný, um leið og efnahagslífið styrkist, þótt það náist ekki á einu eða tveimur árum.

Verkefnin eru þannig mörg fram undan. Frá þeim verkefnum mun Framsfl. ekki hlaupast á meðan hann er í ríkisstjórn.