18.04.1986
Efri deild: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4113 í B-deild Alþingistíðinda. (3792)

413. mál, þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég verð að hefja mál mitt á því að biðja virðulegan forseta afsökunar. Mér var ekki ljóst að hann var meðflm. á þessari till., enda taldi ég afar ólíklegt að hann hefði gerst meðflm. að svona lagaðri till. En ég bið hann innvirðulega afsökunar á því að ég skyldi hafa blandað honum með þessum hætti saman við Kvennalistann og vona að hann taki þá afsökunarbeiðni mína til greina.

En hv. 11. þm. Reykv. sagði það hafa gefist sér vel við kennslu að taka dæmi af sjálfum sér. Ég skal ekkert um það segja. Mér hefur gefist vel við kennslu að nota góðar heimildir og orðabækur kannske fyrst og fremst. Af því að við vorum að tala um hvað orðið eignamaður þýddi, þá þýðir það ekki bara maður sem á eitthvað. Það þýðir vel efnaður maður, a.m.k. eftir orðabók Menningarsjóðs sem ég held að sé sú traustasta heimild sem völ er á í þessum efnum. Það er á bls. 165. Eignamaður, karlkyn, vel efnaður maður.