21.04.1986
Efri deild: 86. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4275 í B-deild Alþingistíðinda. (3998)

421. mál, framhaldsskólar

Sturla Böðvarsson:

Virðulegi forseti. Frv. um framhaldsskóla, sem hér er til umræðu, mun væntanlega ekki verða útrætt á þessu þingi svo skammur tími sem er til þingslita. Ég mun ekki fjalla efnislega um frv. heldur leggja áherslu á nauðsyn þess að sett verði löggjöf um framhaldsskólann er aflétti því ástandi sem nú er í þeim málum. Í langan tíma hefur málið verið þæft og engin heildarstefna mörkuð en þess í stað hafa sveitarstjórnir orðið að ríða á vaðið og hafa ýtt á stofnun fjölbrautaskóla svo fullnægja mætti menntunarþörf ungmenna í landinu.

Það sem einkum hvetur til þess að tekið verði til hendi við að setja viðunandi löggjöf um framhaldsskóla er tvennt: Að samræma kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga á öllu framhaldsskólastiginu og að marka stefnu í uppbyggingu framhaldsskóla svo starf þeirra samræmist menningar- og atvinnulífi okkar en verði ekki látið þróast eftir tilviljunum og geðþótta þeirra sem ráða hverju sinni skólastarfi hvers skóla.

Svo sem hv. þm. vita er kostnaðarskipting milli ríkis og sveitarfélaganna hvað varðar rekstur framhaldsskólanna með öllu óeðlileg þar sem ríkið kostar rekstur menntaskólanna að öllu leyti en sveitarfélögin kosta verulegan hluta af rekstri fjölbrautaskólanna. Með þessu er gert upp á milli sveitarfélaga með þeim hætti að ekki verður við unað auk þess sem uppbygging framhaldsskólanna er meira og minna hendingu háð. Ég vil því við þessa umræðu leggja áherslu á að hæstv. menntmrh. taki til hendi og láti undirbúa frv. um framhaldsskóla og tengist það heildarendurskipulagi á allri verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga.