07.11.1985
Sameinað þing: 13. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í B-deild Alþingistíðinda. (410)

64. mál, mismunun gagnvart konum hérlendis

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Aðeins örstutt, enda liðið að lokum fundartíma. Ég vildi aðeins taka af öll tvímæli um það að það stendur ekki á okkur Kvennalistakonum að ýta á eftir því að ákvæði þess samnings, sem hér var samþykktur 13. júní s.l., komist til framkvæmda. Höfum við m.a. í þeim tilgangi þegar lagt fram fsp. til hæstv. forsrh. um það, hvernig ríkisstj. hyggist ná fram markmiðum þessa samnings, enda hljótum við að ganga út frá því að þegar þessi samningur er fram lagður af hæstv, ríkisstj. á síðasta þingi og hér samþykktur með öllum greiddum atkv. að hugur fylgi máli, að til standi að gera eitthvað til að framfylgja ákvæðum þessa samnings.

Það hefur ekki enn komið fram í máli hv. flm. hvernig hann hefur í raun hugsað sér þá könnun sem þessi tillaga kveður á um. Ég sagði ekki hérna áðan að ég teldi þessa könnun betur óunna en unna. Ég sagði einfaldlega að það sem hér væri verið að leggja til væri svo gríðarlega stórt viðfangsefni að það þýddi nokkurn veginn heildarúttekt á íslensku samfélagi. Þetta er margra manna vinna í langan tíma.

Það hefur ekki enn komið fram í máli hv. flm. að hann geri sér grein fyrir að þetta er það sem hann er að gera tillögu um að verði greitt úr ríkissjóði. Ég skal ekki standa í vegi fyrir að slík könnun verði gerð. Svo sannarlega ekki. Það væri mér mikil ánægja. Ég sagði einfaldlega að ég teldi það ekki raunhæft málinu til framgangs og að raunhæfara væri að leggja fram tillögu um beina fjárveitingu til jafnréttisráðs, þannig að jafnréttisráð gæti ráðið sér starfsmann sem gæti gert skyndikönnun á því hvernig þessi samningur rímar við ástandið hér á landi.