22.04.1986
Neðri deild: 94. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4355 í B-deild Alþingistíðinda. (4116)

16. mál, húsnæðissparnaðarreikningar

Frsm. 2. minni hl. (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá 2. minni hl. fjh.- og viðskn., okkar hv. þm. Svavars Gestssonar, um þetta frv. til l. um breytingu á lögum um húsnæðissparnaðarreikninga. Minni hl. mælir með samþykkt frv. með þeirri breytingu á orðalagi 2. mgr. 3. gr. frv. sem flutt er á þskj. 1016 og ég vík nánar að á eftir.

Ég vil fyrst rifja upp, herra forseti, að þetta mál er 16. mál á málaskrá 108. löggjafarþings, m.ö.o. það er lagt fram í byrjun þings í haust og má út af fyrir sig gagnrýna að málið skuli ekki hafa komið úr nefnd fyrr því að leitað var umsagna um málið og við það miðað að umsagnir væru komnar fyrir áramót, að vísu óskað eftir frekari umsögnum eftir áramót en þá gert ráð fyrir því í febrúarmánuði að málið yrði tekið til endanlegrar afgreiðslu. Það er ekkert launungarmál að það hefur gætt lítt dulbúinnar tregðu til þess að láta þetta mál hafa eðlilegan gang.

Flm. þessa máls eru hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Kristín S. Kvaran og Guðrún Agnarsdóttir. Það er svo langt um liðið frá því að málið var fyrst flutt að það er ástæða til þess að rifja upp meginatriði málsins.

Í athugasemdum með frv. til l. um húsnæðissparnaðarreikninga, sem var samþykkt í júní á s.l. ári, kemur fram að meginreglur frv. séu þær að reglubundinn sparnaður manna á húsnæðissparnaðarreikningum í bönkum og sparisjóðum skapi rétt til skattafsláttar. Fram kemur í athugasemdum með frv. að nauðsynlegt sé að hvetja til sparnaðar áður en hafist er handa um öflun íbúðarhúsnæðis eða meiri háttar endurbóta, auk þess sem almenn þjóðhagsleg rök hníga að auknum sparnaði innanlands.

Það gengur þvert á ofangreind markmið laganna ef túlkun á framkvæmd þeirra er svo þröng að þeim sem stofna húsnæðissparnaðarreikninga vegna öflunar húsnæðis er mismunað allt eftir því hvernig eignaraðild eða eignarhaldi húsnæðis er háttað þó að ákvæði laganna séu að öðru leyti uppfyllt. Megintilgangur laganna hlýtur að vera að hvetja til sparnaðar vegna öflunar húsnæðis. Verður að telja að það sé ekki í samræmi við vilja Alþingis eða anda laganna ef útiloka á stóra hópa frá þeim rétti sem lögin um húsnæðissparnaðarreikninga veita, jafnvel þó að eignarhald eða ráðstöfunarréttur á húsnæði sé á einhvern hátt takmarkaður eins og oftast er um félagslegar íbúðabyggingar. Á þetta hefur þegar reynt því að fyrir liggur að fjmrn. hefur synjað félagsmönnum í húsnæðissamvinnufélaginu Búseta um þann rétt sem lögin um húsnæðissparnaðarreikninga veita þó að ekki verði annað séð en að félagsmenn í Búseta uppfylli ákvæði laganna.

Frv. þetta er flutt til þess að taka af allan vafa í þessu efni og tryggja að sparnaður vegna öflunar húsnæðis, hvort sem er hjá húsnæðissamvinnufélögum eða öðrum félagslegum íbúðabyggingum, veiti sama rétt skv. ákvæðum laga um húsnæðissparnaðarreikninga og önnur kaup á húsnæði til eigin nota.

Í nál. 1. minni hl. fjh.- og viðskn., þ.e. hv. þm. Páls Péturssonar, segir að minni hl. telji óhjákvæmilegt að lögum um húsnæðissparnaðarreikninga verði breytt og viðkomandi ráðuneyti komi sér saman um túlkun laganna. Við erum eindregið þeirrar skoðunar að ef ráðuneyti geta ekki komið sér saman um túlkun laga eigi Alþingi að skera úr og það sem við gerum er að flytja tillögu um að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem fram koma í umsögn félmrn. en það hlýtur að mega líta svo á að það sé yfirvegað álit hæstv. húsnæðismálaráðherra, Alexanders Stefánssonar. Spurningin er þess vegna: Það er Alþingi sem á að skera úr í þessum ágreiningi milli fjmrn. og félmrn. og okkar tillaga er sú að breytingin, sem félmrn. leggur til, verði samþykkt. Ég vil, herra forseti, rifja upp þessa umsögn félmrn. en þar segir svo:

Sem svar við bréfi, dags. 6. nóv. 1985, þar sem fjh.og viðskn. Nd. óskar umsagnar ráðuneytisins um frv. til l. um breytingu á lögum nr. 49/1985, um húsnæðissparnaðarreikninga, skal eftirfarandi tekið fram:

Ráðuneytið telur að túlkun fjmrn. á 2. mgr. 3. gr. laga um húsnæðissparnaðarreikninga sé þröng og jafnvel í andstöðu við tilgang laganna. Hvað snertir frv. það sem hér er til álita skal tekið fram að ráðuneytið er samþykkt meginefni frv. Hins vegar telur ráðuneytið að í frv. sé sá annmarki að þar komi ekki nægilega skýrt fram að hér getur annars vegar verið um að ræða að fólk tryggi sér umráðarétt yfir húsnæði gegn greiðslu ákveðins framlags, eins og t.d. í tilvikinu um búseturéttaríbúðir, og hins vegar að keyptur sé eignarhluti í leiguíbúð skv. 4. mgr. 58. gr. laga nr. 60, um Húsnæðisstofnun ríkisins, sbr. c-lið 33. gr. sem margfræg er orðin. Til þess að þetta komi skýrt fram leggur ráðuneytið til að 2. mgr. 3. gr. frv. verði svohljóðandi: - sem síðan kemur nánar fram á þskj. 1016 sem er brtt. okkar hv. þm. Svavars Gestssonar þar sem við tökum upp nákvæmlega orðrétt tillögu félmrn.

Herra forseti. Þetta er eitt af þeim málum sem fyrst voru lögð fram á þingi. Hér liggja fyrir umsagnir frá ráðuneytum og bönkum. Það er rétt sem hv. þm. Páll Pétursson segir, það er ágreiningur milli fjmrn. og félmrn. í þessu máli, en það er einmitt hlutverk Alþingis að kveða upp úr um það hver skilningur þess er og hver tillaga þess er og við leggjum það til að hæstv. húsnæðismálaráðherra og hans ráðuneyti fái stuðning hér á hinu háa Alþingi við sína túlkun og sína tillögu um orðalag á þessari grein. Ég trúi ekki öðru en að hæstv. félmrh. njóti þeirrar tiltrúar, a.m.k. í sínum þingflokki, meðal þeirra framsóknarmanna, að hann fái stuðning þeirra við þessa tillögu.