22.04.1986
Sameinað þing: 78. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4382 í B-deild Alþingistíðinda. (4143)

90. mál, langtímaáætlun um jarðgangagerð

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Jarðgangagerð á Íslandi er stórmál, eins og 4. þm. Norðurl. e. gat um í sínu máli, og vissulega þarf að vinna skipulega að þeim málum og gera áætlanir á því sviði. Það má aftur á móti segja að það horfir misjafnt við mönnum hversu gæfulegt þeim sýnist að vísa málum til ríkisstj. Við Vestfirðingar höfum forsrh. og samgrh. í þeirri ríkisstj. sem nú situr og viljum ekki fyrir fram trúa því að það sé slæm málsmeðferð að vísa máli sem þessu til ríkisstj.

Ég get aftur á móti tekið undir margt í máli hv. þm. því að ég held að menn mikli það mjög fyrir sér. Því miður er andrúmsloftið í landinu á þann veg að sumir hverjir sjá nánast svart þegar minnst er á jarðgöng og við höfum allt til þessa neitað að ræða um jarðgöng sem jafneðlilegan hlut og það að brúa fjörð eða brúa stórfljót, en ég vona að það viðhorf eigi eftir að breytast.

Hins vegar vitnaði hv. 4. þm. Norðurl. e. í sunnlenska bændur þegar þeir komu til Reykjavíkur og mótmæltu því að taka átti ákvörðun um að leggja sæstreng frá Íslandi og til Evrópu. Sá landlægi misskilningur hefur legið að menn hafa borið það á sunnlenska bændur að þeir hafi verið á móti tækninni þegar þeir mótmæltu þessu. Það er mikill misskilningur. Skáldið Einar Benediktsson hafði sannfært sunnlenska bændur um að loftskeytatæknin væri á svo hraðri framfarabraut að sú tækni sem í dag er notuð í gegnum Skyggni kæmi innan skamms. Þess vegna væru það skammsýnir menn og afturhaldsmenn sem legðu til að sæstrengur yrði lagður á milli Íslands og Evrópu. Og í trausti þess að Einar hefði rétt fyrir sér en hinir væru að leggja til úreltar tillögur riðu sunnlenskir bændur og mótmæltu. Þetta tel ég rétt að komi hér fram í sölum þingsins því að hinni sögutúlkuninni er búið að flíka það oft að menn hafi verið að forheimska sig á því að vita ekki hvað raunverulega gerist.

Umr. (atkvgr.) frestað.