22.04.1986
Sameinað þing: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4445 í B-deild Alþingistíðinda. (4207)

Úthlutun raðsmíðaskipa

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það er ekki málið hvort Akureyringar fá skip eða hverjir fá skip heldur að þegar boðið er út verður að fara eftir réttum leikreglum. Það er málið. Og þetta var gert. Ég bara spyr: Telja menn að það séu réttar leikreglur þegar er sent skeyti til Kópaskers hálfum öðrum sólarhring áður en fresturinn er settur? Það kom engin formleg eða óformleg tilkynning þangað. Það hef ég beint eftir Birni Jósef, lögfræðingi á Akureyri. Ég hef það ekki annars staðar frá.

Þó að þeir á Kópaskeri hefðu farið suður til Reykjavíkur komust þeir ekki fyrr en á þriðjudeginum eftir lokun, þó þeir hefðu farið flugleiðis. Eru þetta réttar leikreglur? Fólkið í landinu verður að treysta því að það sé farið eftir réttum leikreglum þegar svona er.

Það eru margar spurningar sem þyrfti að spyrja og velta fyrir sér. Það kom fram hjá hæstv. sjútvrh. að embættismannanefndin hefði alls ekki fjallað um þetta þegar þessi staða kom upp. Tókuð þið eftir því? Hún hefur ekki fjallað um þetta. Var það rétt?

Akureyri þarf skip. Það er ekki málið. Allir þurfa skip sem buðu í skipin. En menn verða að treysta því að þeir sem ráða í landinu fari eftir leikreglum.

Hæstv. fjmrh. vildi ekki láta staði fá skipin eftir matsverði. Hann sagði: Ég læt bjóða þau út. Hæstbjóðanda verða seld skipin. Var það gert?

Nei, ég held að það væri þarft að hafa meiri tíma til að ræða þessi mál því að nauðsynlegt er að sú tortryggni sem er um þessi vinnubrögð öll sé látin víkja og það rétta komi í ljós, en því miður er langt í frá að þessar munnræpur hafi komið í veg fyrir þá tortryggni sem er uppi, hv. þm. Halldór Blöndal.

Einhvern tímann hefðu þetta verið kölluð bolabrögð, kálfabrögð hefði kannske verið réttara.