23.04.1986
Efri deild: 89. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4517 í B-deild Alþingistíðinda. (4286)

248. mál, póstlög

Egill Jónsson:

Virðulegur forseti. Það fór fram hjá mér áðan við umræðu um þetta mál að henni lauk og þar af leiðandi hafa ekki staðið efni til þess að samgn. Ed. fjallaði aftur um póstlögin. Ég held að mér sé líka óhætt að fullyrða að það hefði ekki verið vilji fyrir því að gera þar neitt sem torveldaði framgang málsins þótt ég sé hins vegar sannfærður um að okkur muni þar flestum þykja sú niðurstaða sem fékkst eftir meðferð málsins í Nd. vera með þeim hætti sem við eigum erfitt með að sætta okkur við. En það koma dagar og koma ráð og að því marki sem ég gæti orðið stuðningsmaður þess ásamt öðrum ágætum deildarmönnum að taka þetta mál upp í upphafi næsta þings, og þá að sjálfsögðu með tilliti til þess mikla vilja sem fyrir því er hér í deildinni, skal ekki á minni liðveislu standa við framgang málsins. Ég vona að menn geti orðið sæmilega sáttir eftir atvikum og við getum átt samleið með að laga þessi mistök Nd. þótt síðar verði.