12.11.1985
Sameinað þing: 14. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í B-deild Alþingistíðinda. (433)

1. mál, fjárlög 1986

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Fjárlög eru ein veigamesta undirstaðan í efnahagsstjórn ríkisins. Niðurstöðutölur þeirra í heild og einstökum atriðum hafa ómæld áhrif á allt gagnverk þjóðlífsins. Þau snúa ekki einvörðungu að efnahagsstarfsemi í þröngri merkingu þess orðs. Fjárlög ríkisins eru með beinum og óbeinum hætti hluti af heimilishaldi hverrar einustu fjölskyldu í landinu og hvers einstaklings. Í þeim er fólgin engu minni fjölskyldupólitík en efnahagspólitík ef menn vilja greina viðfangsefnið þannig sundur. Afgreiðsla fjárlaga á Alþingi markar því hverju sinni ákveðin þáttaskil.

Fjárlögin eru allt í senn spegilmynd af efnahagslegum aðstæðum, ákvörðunum fyrri þinga og pólitík þeirrar ríkisstjórnar er í hlut á. Þannig eru fjárlögin mikilvægur áttaviti. Fólkið í landinu, atvinnufyrirtækin eiga að geta ráðið nokkuð af þeim hvert stefnir, tekið ákvarðanir um eigin fjárhagsmálefni með tilliti til þess. Nauðsynlegt er að slíkur áttaviti taki rétt mið af umhverfi öllu og aðstæðum. Þannig verður frv. til fjárlaga jafnan að gefa sem skýrasta mynd af raunverulegri stöðu ríkisfjármálanna þegar það er lagt fram. Nauðsynlegt getur síðan verið að frv. taki breytingum í meðförum Alþingis til samræmis við það sem vitað er nýjast um stöðu og horfur í efnahagsmálum áður en það er samþykkt sem lög frá Alþingi.

Breyting til bóta hefur orðið á vinnubrögðum í þessum efnum undanfarin ár og með því frv. sem lagt var fram af fyrrv. fjmrh. og ég mæli hér fyrir í dag úrðu enn viss þáttaskil bæði að formi og efni. Formbreytingunum hyggst ég víkja að síðar, en efnislegu markmiðin, sem sett voru fyrir fjárlagagerðina, voru í aðalatriðum þau að erlendum lántökum hins opinbera skyldu settar þær skorður að eigi skyldi tekið meira af erlendum lánum en sem næmi afborgunum af eldri lánum og sem næst jöfnuður skyldi vera milli tekna og gjalda ríkissjóðs.

Miðað við þann þrönga stakk sem þjóðarbúskapnum og ríkissjóði er sniðinn náðist því verulegur árangur með gerð frv. Hitt var ljóst að ef ganga ætti að marki í skrokk á þeim viðskiptahalla sem við blasir á árinu 1986 yrði að koma til veruleg lækkun útgjaldaáforma ríkis og þjóðar. Sýnt var og að frumkvæði og fordæmi í því efni varð að koma frá ríkinu sjálfu. Þyngri byrðar verða ekki lagðar á launafólk í því skyni að ná þeim markmiðum. Einnig var ljóst að hluti af þeirri nýju skattheimtu sem ráðgerð er í frv. var ótryggur. Ástæða var því til að leita annarra leiða til að jafna reikningana.

Skömmu eftir að ríkisstj. gekk frá frv. um miðjan september urðu miklar hræringar á erlendum gjaldeyrismörkuðum. Flest bendir til að þær leiði til versnandi viðskiptakjara eða minni kaupmáttar útflutningstekna. Með hliðsjón af þessum breyttu aðstæðum var ljóst orðið að öll rök hníga að því að draga enn frekar saman seglin í ríkisbúskapnum á næsta ári en ráð var fyrir gert. Um þetta urðu ríkisstj. og stjórnarflokkar fljótt sammála og hefur síðan verið unnið að þeirri endurskoðun, sem nauðsynleg var í þessu skyni, á vegum sérstakrar nefndar stjórnarflokkanna og fjmrn.

Það verður ekki með sanni sagt að almennar efnahagshorfur hér á landi séu sérlega bjartar um þessar mundir. Sjávarútvegurinn býr enn við erfið rekstrarskilyrði þrátt fyrir tiltölulega góð aflabrögð á þessu ári. Sæmileg velgengni er eigi að síður á ýmsum sviðum atvinnurekstrar. Þær ákvarðanir sem stjórnvöld taka um efnahagsstjórn á næstu vikum, svo og ákvarðanir annarra, ekki síst um launa- og kjaramál, geta skipt sköpum um hvort þjóðin ratar út úr efnahagsþrengingunum á næstu misserum eða ekki. Verði ekki gripið á þessum viðfangsefnum af bæði lipurð og festu gæti gangverk efnahagslífsins farið að snúast öndvert við hagsmunum launafólks og atvinnufyrirtækja eins og síðustu misserin áður en núv. ríkisstj. tók við völdum vorið 1983. Við eigum alla möguleika á að byggja upp og treysta undirstöður hagsældarríkis á Íslandi. Því megum við ekki missa tökin á verkefnum okkar við svo búið.

Verðbólgan innanlands er nú um það bil 35% og gæti, ef illa tekst til, orðið enn verri viðureignar en nú. Viðskiptajöfnuðurinn við útlönd er með þeim hætti að ekki verður við unað til lengdar, enda skuldir þjóðarbúsins erlendis allt of miklar og greiðslubyrði erlendra lána of þung. Hér má ekkert út af bregða ef ekki á illa að fara. Meiri halli á viðskiptum við önnur lönd og meiri verðbólga mundu smám saman grafa undan lánstrausti þjóðarinnar og gera henni erfiðara fyrir að standa við skuldbindingar sínar út á við. Slíkt ástand mundi einnig kippa stoðunum undan nýju hagvaxtarskeiði og vonum um bætt lífskjör. Ég er ekki viss um að allir geri sér grein fyrir þeirri alvöru sem þeirri afturför hlyti að fylgja.

Mjög mun reyna á þrek og styrk ríkisstj., þingsins og þjóðarinnar við að afstýra því að svo illa fari. Meginatriðið er að treysta viðskiptajöfnuðinn, takmarka skuldasöfnunina erlendis og koma böndum á verðbólguna þannig að varanlegt verði. Á þann veg einan plægjum við jarðveginn svo að hann gefi af sér betri ávöxt fyrir alþýðu alla.

Það er alveg ljóst að í þeirri glímu er hlutur ríkisfjármálanna afar veigamikill. Raunar er það grundvallaratriði að stefnan í fjármálum hins opinbera sé með þeim hætti að hún dragi úr þenslu og eftirspurn í hagkerfinu. Sama máli gegnir um peningamálastjórnina. Á þessum viðkvæmu tímum skiptir höfuðmáli að ekki verði hvikað frá markaðri stefnu í þeim efnum. Raunar verður að beita öllum tiltækum ráðum til að draga úr umframeftirspurninni í efnahagslífinu og mun í því efni ekki síst reyna á ábyrgðartilfinningu og lagni þeirra sem semja munu um kaup og kjör á hinum almenna vinnumarkaði nú eftir áramótin. Þar verður að sigla krappan sjó milli skers og báru. Annars vegar að reyna að tryggja launþegum viðunandi kaupmátt á næsta ári, hins vegar að reyna að halda kostnaðarhækkunum atvinnuveganna í lágmarki til að koma í veg fyrir nýja verðbólguöldu og meiri viðskiptahalla.

Verðlagsbreytingar á næsta ári munu að talsverðu leyti byggjast á niðurstöðu kjarasamninga í ársbyrjun. Það er yfirlýst stefna ríkisstj. að beita ekki kaupskerðingu í því skyni að hafa hemil á þeirri þenslu sem nú á sér stað í hagkerfinu. Að svo miklu leyti sem verðmætasköpunin vex á næsta ári og næstu árum þurfum við að hagnýta hana jöfnum höndum til þess að verja kaupmátt launafólks og greiða niður erlendar skuldir. Á miklu veltur því hvernig staðið verður að samningsgerð. Fram hafa komið hugmyndir um eins konar allsherjarsáttmála launafólks, atvinnurekenda og ríkisvalds. Ég ætla ekki að fjalla um þær í einstökum atriðum við þetta tækifæri. En markmiðið með slíkum hugmyndum hlýtur að vera í aðalatriðum tvenns konar:

1. Að þeir aðilar sem hlut eiga að máli nái samkomulagi um kaupmátt eða lífskjarastig sem þeir reyna að verja með tilteknum aðgerðum.

2. Við það yrði miðað að kjarasamningar yrðu ekki til þess að auka verðbólgu og skuldasöfnun.

Bæði þessi meginmarkmið skipta sköpum þegar til lengri tíma er litið fyrir afkomu heimila og þjóðarbúsins í heild. Með hliðsjón af þessum aðstæðum tel ég að ríkisstj. sé bæði rétt og skylt að hlusta á hugmyndir sem fram eru settar um einhvers konar allsherjarsáttmála af þessu tagi. Þetta hefur verið gert áður í meira og minna mæli.

Í þessu sambandi á ekki að útiloka tilraun til ákveðins tíma og að þeim tíma liðnum yrði unnt að meta árangurinn og ákveða hvort unnt væri að semja til lengri tíma með þessum hætti.

En áður en bollaleggingar um þessar hugmyndir halda áfram er nauðsynlegt að gera skýra grein fyrir því að ríkisstj. getur ekki gengið til viðræðna við aðila vinnumarkaðarins á grundvelli sem þessum nema samstaða sé milli stærstu heildarsamtaka launþega þar að lútandi. Í þessu efni getur ekki eitt gilt fyrir launafólk á almennum vinnumarkaði og annað fyrir opinbera starfsmenn.

Enn hefur ekki komið í ljós hvort raunverulegur vilji og samstaða eru um hugmyndir sem þessar. Komi það hins vegar á daginn er ríkisstj. fyrir sitt leyti reiðubúin til viðræðna.

Mun ég nú víkja nokkrum orðum að launamálum opinberra starfsmanna.

Um komandi áramót renna út kjarasamningar opinberra starfsmanna innan Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Kjarasamningar starfsmanna innan Bandalags háskólamanna gilda hins vegar til loka febrúar. Kjarasamningar stærstu launþegasamtakanna á almennum vinnumarkaði renna einnig út um áramótin. Búast má við að um það leyti og á fyrstu vikum hins nýja árs verði ljóst hvert horfir í gerð kjarasamninga fyrir það ár, bæði hjá opinberum starfsmönnum og öðrum launþegum.

Meðallaun opinberra starfsmanna hafa hækkað um 35-40% á milli áranna 1984 og 1985. Í heild hefur launaþróun hjá opinberum starfsmönnum verið mjög áþekk því sem orðið hefur hjá öðrum launþegum þótt á ýmsu hafi gengið varðandi forustu um breytingar og tímasetningu á þeim. Kaupmáttur launa opinberra starfsmanna á árinu 1985 virðist ætla að verða eitthvað hærri en hann var á árinu 1984 og í heild hefur tekist að ná því markmiði, sem sett var í upphafi árs 1984, að kaupmáttur færi ekki niður fyrir það sem hann var á 4. ársfjórðungi 1983. Hollt er að minnast þess að á samningstímabilunum á fyrri hluta árs 1984, eftir að hætt var að semja um sjálfvirka verðtryggingu launa, hefur tekist betur að viðhalda þeim kaupmætti sem um var samið en á fyrri samningstímabilum þegar vísitölubinding var allsráðandi í launasamningum og reyndar bundin í lögum.

Kjarasamningar ríkisins við starfsmenn sína, sem gilda eiga frá upphafi næsta árs, munu vafalaust mótast af þeim sjónarmiðum sem hér greinir að framan, auk þess sem þróun launamála á almennum vinnumarkaði mun að sjálfsögðu hafa veruleg áhrif þar á. En eins og ég hef þegar lagt svo ríka áherslu á er það meginverkefni ríkissjóðs við núverandi aðstæður að rifa seglin í eigin útgjöldum, láta öðrum eftir stærri hlutdeild í þjóðarkökunni. Í því efni koma bæði við sögu rekstrar og framkvæmdaútgjöld sem unnt er að lækka þegar á næsta ári, en ekki síður ýmsar kerfis- og skipulagsbreytingar hjá hinu opinbera sem miða að því að hamla gegn vexti ríkisútgjalda til lengri tíma. Í þessu efni verður að líta fordómalaust á alla helstu útgjaldaþætti og málefnasvið, en þó þannig að tryggt sé að ekki sé hróflað við öryggi og velferð þeirra sem hafa úr minnstu að spila. Einnig koma hér við sögu ýmis atriði er varða skiptingu verkefna milli ríkis og sveitarfélaga er verið hafa til umræðu árum saman og ástæðulaust er að draga lengur að hrinda í framkvæmd.

Ég mun nú gera grein fyrir þeim breytingum sem ríkisstj. og stjórnarflokkarnir hafa orðið ásátt um að leggja til við Alþingi að gerðar verði á frv. Breytingarnar ná til tekju-, gjalda- og lánaþátta frv. Stefnt er að nokkurri lækkun tekna frá því sem kynnt er í frv. eða um 300 millj. kr. og gjöld verði lækkuð um 574 millj. kr. Rekstrarafkoma ríkissjóðs verður því 397 millj. kr. sem er nokkuð betra en fram kemur í frv. sjálfu. Auk þessa er ráðgert að lækka erlendar lántökur ríkissjóðs um 500 millj. og er þetta gerlegt vegna bættrar rekstrarafkomu og einnig með aukinni innheimtu afborgana og lækkun lánveitinga og hlutafjárframlaga. Þessu til viðbótar er samkomulag um að lækka erlendar lántökur fyrirtækja með eignaraðild ríkissjóðs um 300 millj. kr. Með þessum hætti næst það markmið að dregið verður úr eftirspurn og erlendar lántökur lækka um 800 millj. kr. samtals.

Ákveðið hefur verið að hverfa frá fyrri áformum um að leggja söluskatt á ýmsar vörur og þjónustu sem ekki hefur verið söluskattsskyld. Nemur þetta um 400 millj. kr. Af öðrum breytingum á tekjuhlið er lagt til að aflað verði 100 millj. kr. tekna, aðallega með því að fella niður undanþágur til niðurfellingar á aðflutnings- og sölugjaldi. Þyngst í þessu vegur gjaldfrelsi á innflutningi ýmiss konar þjónustu og framkvæmdavörum til Pósts og síma.

Lagt er til að útgjöld ríkisins verði lækkuð um 574 millj. frá því sem greinir í frv. Ráðgert er að af sparnaði í rekstrarútgjöldum náist tæplega 50 millj. kr. með lækkun einstakra rekstrarverkefna eða frestun þeirra um stundarsakir, en 120 millj. kr. náist með sérstökum sparnaðaraðgerðum á vegum ráðuneyta og stofnana ríkisins. Er fyrirhugað að setja ákveðin mörk á fjárveitingar til einstakra útgjaldaliða, m.a. ferða- og bílakostnað, risnu og aðkeypta þjónustu af ýmsu tagi.

Ætlunin er að lækka launaútgjöld um 130 millj. með því að endurráða ekki strax í störf þeirra sem hætta, draga úr yfirvinnu og ráðningu afleysingafólks. Nú er unnið að gerð ítarlegra tillagna um framkvæmd þessa atriðis. Rétt er að fram komi að sá sparnaður í launaútgjöldum, sem hér er um rætt, svarar til heilsárskostnaðar við um 230 stöðugildi hjá ríkinu af þeim 10 þús. stöðugildum sem fyrir hendi eru hjá A-hluta aðilum. Launakostnaður vegna þeirra er í frv. áætlaður um 8 milljarðar kr. þannig að hér er í raun verið að tala um mjög lítinn sparnað miðað við heildarlaunakostnað ríkisins.

Tillögur um lækkun framkvæmdaframlaga skiptast á marga liði. Áformað er að dregið verði úr framlögum til ýmissa málaflokka og fresta verður nokkrum þörfum verkefnum. Framlög til sjúkrahúsabygginga lækki um 35 millj. kr. Áformum um innréttingar Víðishúss og húsnæðis Hollustuverndar ríkisins verði frestað, en við það sparast 44 millj. Þá nefni ég framlag til byggingar Listasafns Íslands, en það lækkar um 15 millj. kr. Að auki eru nokkrir liðir lækkaðir, t.d. styrking dreifikerfa í sveitum um 10 millj., bygging íþróttamannvirkja um 6 millj. kr., þjóðarbókhlaða um 4 millj. og Háskóli Íslands og Raunvísindastofnun um 11 millj. kr. Þá er frestað áformum um nýja símstöð stjórnarráðsins sem sparar um 10 millj. kr. Ýmsir smærri framkvæmdaliðir nema 10 millj. kr.

Varðandi framlög til sjóða er ætlunin að framlög ríkisins til Kvikmyndasjóðs lækki um 16 millj., Félagsheimilasjóðs um 6 millj. og Iðniánasjóðs um 12 millj. kr. Alls lækka sjóðaframlög því um 34 millj. frá því sem ráð er fyrir gert í fjárlagafrv.

Ekki er ráðgert að skerða framlög til vegaframkvæmda. Aftur á móti er talið gerlegt að lækka fjárfestingaráform áhaldahúss Vegagerðarinnar um 30 millj., en þar er um að ræða endurnýjun tækja og véla. Verkefni Vegagerðarinnar hafa í auknum mæli verið boðin út á almennum markaði og tækjaþörf stofnunarinnar ekki eins og áður var.

Hvað B-hlutann snertir er ljóst að þau ríkisfyrirtæki sem höfðu áformað nokkra fjárfestingu verða nú að rifa seglin. Ýmis þessara fyrirtækja hafa haft mjög rúman fjárhag undanfarin ár og getað ráðist í miklar fjárfestingar. Gert er ráð fyrir að dregið verði úr framkvæmdum og endurnýjun búnaðar hjá Pósti og síma, Ríkisútvarpinu, Áburðarverksmiðju ríkisins og Rafmagnsveitum ríkisins, auk fleiri aðila sem smærri eru í sniðum.

Sérstaklega ætla ég að fara nokkrum orðum um málefni Pósts og síma. Fjárhagur stofnunarinnar er nú betri en oft áður. Áætlaðar tekjur skv. gjaldskrá fyrirtækisins eru taldar verða hærri en fyrirhugað er að ráðstafa í fjárfestingu. Þrátt fyrir það að um 200 millj. kr. af tekjuafgangi Pósts og síma verði með einu eða öðrum hætti ráðstafað til lækkunar á erlendum skuldum og fjárfestingarútgjöldum verður hægt að halda verulega aftur af gjaldskrárhækkun á árinu 1986.

Lækkun útgjalda hjá ríkisfyrirtækjum er því í senn til að draga saman fjárfestingu opinberra aðila og til að halda aftur af hækkunarþörf á gjaldskrám þeirra.

Ég gat þess að ákveðið væri að draga úr lántöku fyrirtækja með eignaraðild ríkissjóðs um 300 millj. kr. Lántaka til framkvæmda Landsvirkjunar lækkar um 250 millj. kr. og nemur hún því samtals 490 millj. Í þessu felst m.a. frestun á gangsetningu Blönduvirkjunar til ársins 1990. Þá er jafnframt ráðgert að lækka lántöku Þróunarfélagsins um 50 millj. kr. og verður hún því 100 millj. kr. Samtals er því um að ræða samdrátt í umsvifum og erlendum lántökum hins opinbera um 1,2 milljarða, en þar af fara um 800 millj. kr. til að draga úr erlendum lántökum.

Ég fagna því að um þessar breytingar skuli hafa náðst samstaða innan stjórnarflokkanna. Ríkisstj. mun óska eftir því við fjvn. að hún leggi fram brtt. hér á Alþingi við fjárlagafrv. til samræmis við það sem hér hefur verið greint frá.

Mun ég nú víkja að fjárlagafrv. fyrir árið 1986 eins og það var lagt fram.

Skv. frv. er ráð fyrir því gert að rekstrarafgangur ríkissjóðs nemi 123 millj. kr. á næsta ári. Rekstrarafkoman er betri sem nemur 300 millj. kr. vegna breyttrar framsetningar þar sem fjármagnstekjur og gjöld endurlánareiknings eru nú talin með A-hluta ríkissjóðs. Með uppsetningu fyrri ára væri því u.þ.b. 180 millj. kr. halli á frv. Eins og ég gat um hér að framan munu þær breytingar sem áformaðar eru á frv. leiða til þess að rekstrarafgangur verður tæpar 400 millj. kr. í stað 123 millj. kr. eins og frv. gerði ráð fyrir.

Heildartekjur skv. frv. eru áætlaðar 33,5 milljarðar kr., en verða 33,2 milljarðar kr. þegar tekið hefur verið tillit til fyrirhugaðra breytinga. Heildarútgjöld skv. frv. nema 33,4 milljörðum kr., en verða 32,8 milljarðar kr., lækka um tæpar 600 millj. kr. eða 1/2 % af þjóðarframleiðslu.

Breytingar af lánahreyfingum, hlutafjárframlögum og viðskiptareikningum sýna minni fjárþörf að fjárhæð um 200 millj. kr. Lánsfjárþörf A-hluta ríkissjóðs er nú áætluð 4 milljarðar kr. sem er lækkun um tæpar 500 millj. frá frv. Fyrirhugað er að lækkun þessi komi öll fram í minni erlendum lántökum á árinu 1986.

Fjárlagafrv. og þjóðhagsáætlun fyrir árið 1986 byggja í meginatriðum á samræmdum forsendum um þróun launa, verðlags og gengis. Við frumvarpsgerðina var áætlað að meðaltalshækkun verðlags milli áranna 1984 og 1985 yrði 31-32% og verðbreyting frá upphafi til loka þessa árs næmi 30% . Hins vegar gera nýjar spár um verðlagshorfur ráð fyrir að verðlagsbreytingar verði nokkru meiri. Nú er spáð að hækkun framfærsluvísitölu milli ára verði allt að 33% og verðbreyting innan ársins 1985 nánast það sama. Gengisforsenda frv. er sú að erlendir gjaldmiðlar hækki um tæp 11% en nýjar spár sýna hækkun um 15% frá upphafi til loka þessa árs.

Af þessu má ljóst vera að verðlagsforsendur frv. eru nokkuð aðrar en raun verður á. Nauðsynlegt er því að tekið verði tillit til þessa þegar verðforsendur fyrir árið L986 verða ákveðnar og frv. samræmt þeim við lokameðferð málsins á Alþingi.

Í þjóðhagsáætlun er spáð 2% hagvexti árið 1986 sem er heldur minna en talið er að verði í ár. Þjóðarframleiðsla yrði þá um 11/2 til 2% meiri en hún var 1980. Til samanburðar má nefna að á þessu tímabili hafa þjóðartekjur ýmissa iðnríkja vaxið um 15-30%. Og þótt tekist hafi að snúa vörn í sókn nú á síðustu árum dugar það ekki til að bæta svo lífskjörin hér á landi að nægi til að vinna það upp sem við höfum dregist aftur úr öðrum þjóðum. Með átaki í atvinnumálum og auknum hagvexti verður að reyna að brúa það bil.

Tekjuhlið frv. einkennist öðru fremur af tveimur meginþáttum. Annars vegar af lækkun tekjuskatts og umfangsmiklum breytingum á sviði tollamála, hins vegar af ráðstöfunum til þess að mæta tekjutapi vegna þessara skatt- og tollabreytinga svo og til að koma í veg fyrir halla á ríkissjóði á næsta ári.

Með lækkun tekjuskatts er fram haldið þeirri stefnu ríkisstj. að fella niður tekjuskatt af almennum launatekjum sem felur í sér 400 millj. kr. lækkun álagðs tekjuskatts einstaklinga á næsta ári frá því sem ella hefði orðið. Við ríkjandi aðstæður þykir ekki unnt að stíga stærra skref í þessa átt. Lauslega áætlað virðist skattbyrði einstaklinga til ríkisins af beinum sköttum nema 3,8% á árinu 1986 miðað við tekjur greiðsluárs, en í ár er hún talin vera um 4,4%. Á árunum 1981 - 1983 nam þetta hlutfall um 5,5% í stað 3,8% sem áætlað er á næsta ári.

Tollalöggjöf, sem fyrirhugað er að taki gildi frá og með næstu áramótum, mun hafa í för með sér að aðflutningstekjur ríkissjóðs munu lækka um 250 millj. kr. Til að mæta þessum tekjumissi, svo og vegna lækkunar tekjuskatts ásamt því að tryggja jafnvægi í ríkisfjármálum, hefur verið ákveðið að leggja fram frv. um breytta tilhögun núgildandi vörugjaldsinnheimtu. Hækkun tekna ríkissjóðs vegna breytts vörugjalds er áætlað rúmlega 1 milljarður kr. Verðlagsáhrif þessarar auknu skattheimtu eru áætluð þau að framfærsluvísitala hækki um 1%, en byggingarvísitala lækki um 0,5% vegna lækkunar tolla á byggingarvörum.

Þá er enn fremur gert ráð fyrir að ýmsar þjónustutekjur ásamt skilum og hagnaði frá Seðlabanka Íslands auki tekjur ríkissjóðs um 200 millj. kr.

Í fjárlagafrv. er ætlað að afla aukinna tekna af söluskatti að fjárhæð 400 millj. kr. með því að afnema undanþágur frá söluskatti. Frá þessu hefur verið fallið eins og áður er komið fram.

Heildargjöld ríkissjóðs eru talin verða 33,4 milljarðar kr. í frv. útgjöld til samneyslu, þ.e. launa og reksturs ríkisstofnana, hækka um 11,3% frá fjárlögum, vaxtakostnaður um 28,9% og ýmsar rekstrar- og neyslutilfærslur til atvinnuvega og einstaklinga um 9,1%.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fara mjög mörgum orðum um einstaka útgjaldaliði frv., enda eru þeim gerð greinargóð skil í frv. og athugasemdum með því. Nokkra útgjaldaliði vil ég þó draga hér fram:

Í fyrsta lagi eru framlög til vegamála áætluð rúmir 2 milljarðar kr. eða um 400 millj. kr. lægri fjárhæð en vegáætlun, sem samþykkt hefur verið af Alþingi, gerði ráð fyrir.

Í öðru lagi fer nú til húsnæðismála mun hærri fjárhæð en 1985 eða alls 1600 millj. kr. Þar af er sérstök fjáröflun 665 millj. kr., en að auki leggur ríkissjóður fram 935 millj. kr. Auk þess er ráðgerð 1200 millj. kr. lánsfjáröflun hjá lífeyrissjóðum.

Í þriðja lagi þarf vegna fyrrnefndra tveggja verkefna að takmarka framlög til annarra framkvæmda. Því mun yfirleitt ekki fallist á að hefja nýjar byggingarframkvæmdir. Áherslan hvílir á því að koma áfram og ljúka verkum sem unnið er að.

Í fjórða lagi nemur fjárútvegun til Lánasjóðs ísl. námsmanna skv. frv. 1100 millj. kr. Þar af eru 750 millj. kr. fjárveiting og 350 millj. kr. lántaka. Sjóðurinn er orðinn annar stærsti lánasjóður í fjárlögum á eftir Byggingarsjóði ríkisins. Ljóst er að fyrirhuguð fjárútvegun til sjóðsins kallar á endurskoðun á reglum um úthlutun námslána. Menntmrh. hefur ákveðið að fjármál sjóðsins verði endurskoðuð.

Í fimmta lagi eru niðurgreiðslur á vöruverði og raforku miðaðar við að niðurgreiðslur í krónutölu verði óbreyttar. Alls er fyrirhugað að verja til þessa 1000 millj. kr.

Í sjötta lagi eru 600 millj. kr. ætlaðar til Aflatryggingasjóðs sem er endurgreiðsla á uppsöfnuðum söluskatti í útgerð og fiskvinnslu. Sambærileg fjárhæð í fjárlögum 1985 er 430 millj. kr.

Í sjöunda lagi eru framlög til almanna- og atvinnuleysistrygginga við það miðuð að lækka megi útgjöldin um 250 millj. kr. frá því sem væri að óbreyttu. Gera þarf sérstakar ráðstafanir á þessum sviðum til að ná fram þessum sparnaði.

Þegar litið er á framlög til svonefndra velferðarmála síðustu fjögurra ára kemur í Ijós að framlög til mennta og tryggingamála eru svo til óbreytt sem hlutfall af þjóðarframleiðslu. Hins vegar hefur orðið aukning á framlögum ríkisins til heilbrigðis- og félagsmála. Aukningin nemur um 1% af þjóðarframleiðslu til hvors málaflokks frá árinu 1982. Sú aukning mæld í fjárhæðum á núverandi verðlagi nemur rúmlega 2 milljörðum kr.

Í síðasta lagi vek ég sérstaka athygli á fjármagnsútgjöldum ríkissjóðs. Í fjárlögum 1975 námu vaxtagreiðslur 1,5% af heildargjöldum. 1980 námu þær 3,5%, 4,6% 1984, 5,4% 1985 og eru áætlaðar 6,2% 1986 eða 2006 millj. kr. skv. eldri framsetningu fjárlaga. Miðað við þá framsetningu sem nú er á fjárlögum nema vaxtagreiðslur 3244 millj. og er það um 9,6% af heildarútgjöldum. Í langtímahorfum um fjárhag ríkissjóðs er talið að þetta hlutfall geti orðið 12% árið 1988.

Ég gat þess áður að frv. til lánsfjárlaga og lánsfjáráætlun eru nú lögð fram sem hluti af fjárlagafrv. og samtímis því. Í VI. kafla fjárlagafrv. er lánsfjáráætlun skýrð og gerð grein fyrir horfum í helstu þáttum hennar, þ.e. heildarfjárfestingu, ráðstöfun lánsfjár og hvernig ríkisvaldið hyggst afla þess. Ég ætla nú að gera nokkra grein fyrir helstu atriðum:

Fjárfesting sem hlutfall af þjóðarframleiðslu stefnir í það að verða heldur minni 1986 en 1985. Þetta hlutfall hefur farið stöðugt lækkandi á undanförnum áratug eða úr rúmum 30% af vergri þjóðarframleiðslu 1984 í um 21% á árinu 1986 skv. því sem ráðgert er. Hins vegar virðist ekkert lát á viðskiptahallanum við útlönd, enda áhyggjuefni hve innlendur sparnaður hefur dregist saman. Innlendur sparnaður var um og yfir 25% á síðasta áratug, en hefur farið lækkandi hin síðari ár og er nú áætlaður aðeins tæp 18% á árinu 1986. En í þessu sambandi er þó rétt að minna á að peningalegur sparnaður í bankakerfinu hefur aukist og eru það verulegar framfarir á þessu sviði og góð batamerki.

Áætlað er að fjármunamyndun í landinu muni dragast saman um 2,5% á árinu 1986, framkvæmdir atvinnuvega eru taldar dragast saman um 2,7% og opinberra aðila um 4,2%. Hins vegar er gert ráð fyrir óbreyttu umfangi í íbúðabyggingum, en útlit er fyrir að þær dragist saman um 10% í ár. Samdráttur í opinberum framkvæmdum var talinn verða um 4,2%. Með þeim tillögum sem ég hef kynnt dregur enn frekar úr opinberum framkvæmdum. T.d. er milli þriðjungs og helmings samdráttur í framkvæmdum Landsvirkjunar. Við gerð lánsfjáráætlunar fyrir árið 1986 var stefnt markvisst að takmörkun erlendrar lántöku. Óhjákvæmilega komu slíkar ráðstafanir niður á mikilvægum framkvæmdaliðum og seinka verklokum framkvæmda. Á árinu 1984 nam hlutdeild lánsfjár í opinberum framkvæmdum 31%. Horfur eru á að þetta hlutfall lækki í 24% í ár. Í frv. er stefnt að enn frekari lækkun þessa hlutfalls eða í um 19% og með þeirri lækkun sem ég hef kynnt hér verður hluttallið komið niður í 16%.

Hér að framan hefur verið dregin upp gróf mynd af fjárfestingaráformum á árinu 1986 og er þá komið að fjáröfluninni.

Lánsfjáráætlun, sem fram kemur í frv., gerir ráð fyrir að heildarlántökur opinberra aðila, lánastofnana og atvinnufyrirtækja nemi 11,5 milljörðum kr. Þar af er ráðgert að afla 3,6 milljarða kr. innanlands og 7,9 milljarða kr. með erlendum lántökum. Ekki er ætlunin að fjalla um lántökur og lánsfjárráðstöfun allra þessara aðila að þessu sinni, heldur takmarka umfjöllunina við ríkissjóð. Lánsfjármál annarra aðila munu fá viðeigandi umfjöllun þegar mælt verður fyrir frv. til lánsfjárlaga 1986.

Lántökur ríkissjóðs eru áætlaðar 4,6 milljarðar kr., en þar af renna 920 millj. kr. til ráðstöfunar B-hluta fyrirtækja og 3654 millj. kr. til eigin þarfa A-hluta ríkissjóðs. Ráðgert er að afla 1850 millj. kr. innanlands með sölu spariskírteina og 2724 millj. kr. með erlendum lántökum.

Í sem skemmstu máli er nú stefnt að lækkun erlendrar lántöku til A-hluta ríkissjóðs um 500 millj. kr. þannig að alls verði aflað erlendis frá 2224 millj. kr. Með þessum hætti er gengið lengra en svo að erlendar lántökur samsvari afborgunum af erlendum lánum. Helst hefði ég kosið að lækka erlendar lántökur ríkissjóðs enn frekar, en það verður ekki unnt á árinu 1986.

Sérstaklega vil ég leggja áherslu á að lánsfjár á ekkí að afla til hvaða verkefna sem er. Í rauninni er með öllu óverjandi að taka erlent fé að láni til reksturs hins opinbera. Miðað við að raunvextir á erlendu lánsfé eru nú á bilinu 5 - 6% segir það sig sjálft að þau verkefni sem fjárins er aflað til verða að vera arðsöm.

Að ýmsu leyti hefur innlendur lánsfjármarkaður undanfarin tvö ár ekki verið í því jafnvægi sem skyldi. Eftirspurn einkaaðila og hins opinbera eftir lánsfé hefur verið umfram framboð. Afleiðingarnar hafa komið fram í alvarlegu misvægi á lánamarkaði og þurrð á sparifé til varanlegrar fjárfestingar. Snúist hefur verið gegn þessum vanda með raunhæfari ávöxtunarkjörum af hálfu hins opinbera og auknu frjálsræði. Aukin og harðnandi samkeppni um sparifé, sem af þessu hefur leitt, hefur um sinn gert opinberum aðilum sérstaklega erfitt fyrir um innlenda lánsfjáröflun. Ástandið virðist þó smám saman vera að færast til betri vegar með betra jafnvægi milli inniána og útlána, bæði á vegum bankakerfisins og almennt á lánamarkaði.

Ég tel ekki ástæðu til langrar umfjöllunar um lánsfjármálin fyrr en mælt verður fyrir lánsfjárlagafrv. Hitt sýnist mér þó einsýnt að stjórnvöld þurfa að halda fast við þá stefnu að auka ekki skuldir þjóðarbúsins og okkur er bráðnauðsynlegt að beina lánsfénu til arðsömustu framkvæmda, hvort heldur þær eru á vegum hins opinbera eða hjá atvinnuvegunum sjálfum.

Allir sem komið hafa að opinberum fjármálum vita að ýmsar þær breytingar sem hugur manna og rök standa til taka nokkurn tíma í framkvæmd. Það reynir því stundum á þol og þrautseigju. Ég ætla nú að gera grein fyrir nokkrum málum er ég mun beita mér fyrir. Sum þessara mála eru þegar vel á veg komin í undirbúningi, en önnur skemmra.

Áætlun frv. um tolltekjur á næsta ári tekur mið af breytingum á skipan tollamála sem gert er ráð fyrir að geti tekið gildi um næstu áramót. Breyting á tollum og öðrum aðflutningsgjöldum er liður í áformum ríkisstjórnarinnar um gagngera endurskoðun á ríkisfjármálum. Í því sambandi er fyrirhugað að skipan tolla og tengdra gjalda verði einfölduð, uppsöfnunaráhrifum eytt og gjöld felld niður eða lækkuð. Gert er ráð fyrir að samfara nýrri tollalöggjöf verði gerðar skipulagsbreytingar á yfirstjórn tollamála. Felast þær m.a. í því að skipan tollumdæma verði breytt, yfirstjórn tollamála verði að hluta til færð frá ráðuneytinu til embættis tollstjórans í Reykjavík. Enn fremur er fyrirhugað að embættið yfirtaki vissa þætti tollendurskoðunar sem nú fara fram hjá Ríkisendurskoðun.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja á ný fram frv. til laga um virðisaukaskatt er komi í stað gildandi söluskatts. Eins og Alþingi er kunnugt var frv. þessa efnis lagt fram á fyrsta starfsári þessarar ríkisstjórnar og þá einkum til kynningar. Frv. var síðan endurflutt í fyrra nær óbreytt, en það dagaði uppi án þess að rækilega væri um það fjallað.

Tillögur um grundvallarbreytingar á langstærsta tekjustofn ríkissjóðs hljóta að teljast meðal mikilvægustu viðfangsefna þessa þings. Eins og flestum má vera kunnugt er núverandi söluskattskerfi að mörgu leyti stórgallað. Ber þar helst að nefna uppsöfnunaráhrif söluskattsins, en þau hafa m.a. óeðlilega mismunun á samkeppnisstöðu hinna ýmsu atvinnugreina í för með sér. Þá hafa hin fjölmörgu og oft og tíðum flóknu undanþáguákvæði reynst mikill dragbítur á trygga og snurðulausa framkvæmd og eftirlit með réttum skilum á skattinum. Því má segja að það liggi í augum uppi að við núverandi söluskattskerfi verði ekki búið öllu lengur. Ógerningur er að koma við þeim róttæku breytingum á því er gerðu það viðunandi og sæmilega réttlátt. Af þeim sökum verður ekki undan því vikist að byggja upp nýtt kerfi.

Ljóst er að virðisaukaskattur, er kæmi í stað núverandi söluskatts, leysir sjálfkrafa úr ýmsum helstu göllum söluskattskerfisins. Þó er ljóst að kerfisbreyting af þessu tagi mun valda tilflutningi á skattbyrði milli vöruflokka og þjónustu og þar með á milli þjóðfélagshópa. Hér er um að ræða viðkvæmasta atriðið varðandi upptöku virðisaukaskatts í stað söluskatts. Óvissan í þessum efnum mun einkum hafa átt sök á því að frv., sem lagt var fram í fyrra, fékk ekki nauðsynlega umfjöllun.

Í þessum efnum koma ýmsir kostir til greina og eru þeir nú til athugunar og úrvinnslu. Ríkisstjórnin mun að þessari athugun lokinni gera ákveðnar tillögur til lausnar þessum vanda og um gildistöku laganna 1. janúar 1987 og falla þá niður endurgreiðslur á uppsöfnuðum söluskatti til atvinnuveganna.

Um árabil hefur þótt skorta á að fjárlög gæfu nægilega skýra mynd af heildarumfangi ríkisfjármálanna. Með lögum nr. 84/1985, sem fyrrv. fjmrh. beitti sér fyrir, um breytingu á lögum um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga, var rutt úr vegi lagaákvæðum sem komu í veg fyrir breytta framsetningu fjárlaga. Áður voru almannatryggingar og endurlánareikningur ríkissjóðs bundinn í B-hluta fjárlaga, en hafa nú verið flutt í A-hlutann. Í sömu lögum segir að efni fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar skuli teljast hluti af grg. fjárlagafrv.

Lánsfjárlagafrv. sjálft er lagt fram sem sjálfstætt frv. til umfjöllunar í deildum, en öll efnisatriði þess frv. fá umfjöllun í grg. fjárlagafrv. og verða þar af leiðandi skoðuð í fjvn. Alþingis og í nefndum þingdeilda. Verulegur árangur hefur þannig náðst í því að bæta framsetningu og umfjöllun um opinber fjármál. Í framhaldi af þessu þurfa að koma til athugunar atriði er varða vinnubrögð við undirbúning og framkvæmd fjárlaga og eftirlit Alþingis. Til álita kemur að auka ábyrgð og sjálfstæði einstakra ráðuneyta með því að ákveða þeim heildarútgjaldaramma svo þau hefðu meira svigrúm en nú er til að ráðstafa sjálf til verkefna ráðuneytanna.

Rétt er að fara örfáum orðum um horfur og mat á ríkisfjármálum til lengri framtíðar. Fjmrh. ber skylda samkvæmt lögum að leggja fram með fjárlagafrv. áætlun um horfur í ríkisfjármálum til næstu ára. Í þeirri áætlun ber að sýna meginstefnu í ríkisfjármálum og samhengi fjármálastefnunnar við efnahags- og atvinnumálin í heild. Unnið hefur verið að mótun þessarar áætlunar. Samkvæmt því sem fram kemur í athugasemdum með frv. eru horfurnar í mjög fáum orðum þær að erfitt mun reynast að lækka skatttekjur ríkissjóðs nema til komi lækkun ríkisútgjalda.

Samkvæmt niðurstöðunum eru horfur á að rekstrarhalli ríkissjóðs geti numið um 1,6% af þjóðarframleiðslu 1988 sem er ekki óveruleg fjárhæð í efnahagslegu tilliti. Jafnframt bendir margt til þess að lánsfjárþörf ríkissjóðs fari enn vaxandi. Fyrir árið 1986 var hún metin 3,9% af þjóðarframleiðslu, en samkvæmt langtímaáætlun gæti hún numið 5,1% 1988. Allar spár eru að vísu ótryggar, en ég tel að ríkisfjármálahorfurnar til næstu ára sýni að útgjaldaáform og stöðu ríkissjóðs þurfi að endurmeta með hliðsjón af þessum viðhorfum.

Ríkið er stærsti vinnuveitandinn í landinu. Afkoma ríkissjóðs er þó með allt öðrum hætti tengd launagreiðslum ríkisins en afkoma atvinnufyrirtækja tengist launagreiðslum þeirra. Þessi staðreynd gerir þá kröfu til ríkisins að starfsmanna- og launastefna sé mörkuð. Gera þarf starfsmannahald ríkisins og opinberra stofnana markvissara en verið hefur. Starfsmannahald og eftirlit með því er nauðsynlegur liður í því útgjaldaeftirliti sem viðhafa verður til þess að draga úr aukningu ríkisútgjalda. Enn fremur þarf að stefna að því með öllum tiltækum ráðum að bæta og auka virkni opinberrar þjónustu án þess að til þurfi að koma fjölgun ríkisstarfsmanna. Endurskoða þarf starfsmannahald ríkisstofnana með tilliti til heimilda og fjárveitinga og gera ráðstafanir til þess að ekki verði farið umfram þær ákvarðanir í þessu efni sem teknar eru af Alþingi og ríkisstjórn.

Það er ríkinu ekki síður en öðrum vinnuveitendum kappsmál að hafa í þjónustu sinni hæfa og dugandi starfsmenn. Því kemur til skoðunar hvort ríkinu beri ekki að halda uppi virkri starfsmannastefnu. Hér er ég með í huga endurmenntun starfsmanna, hreyfingu þeirra milli starfa og stofnana og hvatningu af ýmsu tagi til starfa.

Ég mun nú í örfáum orðum greina frá afkomuhorfum ríkissjóðs 1985 og niðurstöðu síðasta árs. Greiðsluafkoma A-hluta ríkissjóðs fyrstu níu mánuði þessa árs sýnir greiðsluhalla að fjárhæð 2,8 milljarða kr. sem er 3,9 milljörðum kr. verri afkoma en var á sama tíma í fyrra. Rekstrarafkoma ríkissjóðs er um 2,8 milljörðum kr. verri en var á sama tímabili 1984. Gjöld hafa hækkað um 47%, en tekjur aftur á móti um 27%.

Spár um afkomuhorfur A-hluta ríkissjóðs í árslok 1985 sýna að hagur ríkissjóðs mun versna verulega frá því sem fjárlög ársins gerðu ráð fyrir. Fjárlög þessa árs áformuðu að rekstrarhalli yrði um 750 millj. kr. Nú er hins vegar áætlað að hann verði um 1,9 milljarðar kr. Þá er talið að aukin fjárþörf vegna láns- og viðskiptareikninga sé um 660 millj. kr. þannig að viðbótarfjárþörf A-hluta ríkissjóðs vegna ársins 1985 nemur alls 1,8 milljörðum kr. Heildarfjárþörf A-hluta ríkissjóðs á árinu 1985 verður því 3,3 milljarðar kr.

Meginskýringarnar á auknum rekstrarhalla frá fjárlögum ársins eru:

1. Áhrif kjarasamninga ríkisstarfsmanna og hækkun lífeyris- og sjúkratrygginga vega þyngst í auknum útgjöldum eða tæpum 1,5 milljörðum kr.

2. Komið hafa til ákvarðanir um viðbótarútgjöld að fjárhæð 1,4 milljarðar kr. Þar valda mestu hækkun framlaga til húsnæðismála, útflutningsbóta, niðurgreiðslna og fjárframlaga til Áburðarverksmiðju ríkisins.

3. Tekjur ríkissjóðs aukast á árinu aðeins um 1,8 milljarða kr. eða um 7% frá fjárlögum 1985 meðan útgjöldin hækka um 11% mæld á sama hátt. Aukin fjárþörf vegna lána- og viðskiptareiknings frá fjárlögum nemur alls 660 millj. Meginástæða þess er sú að í fjárlögum var gert ráð fyrir að greiða afborganir til Seðlabanka Íslands að fjárhæð 160 millj. kr. Í endurskoðaðri áætlun er hins vegar áformað að greiða umsamdar afborganir, sem nema alls 690 millj. kr., til bankans á þessu ári.

Til að mæta viðbótarfjárþörf A-hluta ríkissjóðs í ár er leitað lántökuheimilda til langs tíma í lánsfjárlögum fyrir árið 1986 allt að 1,5 milljarði kr. Það sem á vantar er gert ráð fyrir að taka í ár sem skammtímalán hjá Seðlabanka Íslands sem greiðist á árinu 1986. Er sú fjárhæð 860 millj. kr. eins og fram kemur í fjárlagafrv. því sem hér er til umræðu.

Ríkisreikningur A- og B-hluta fyrir árið 1984 hefur verið afhentur alþm. og jafnframt yfirskoðunarmönnum Alþingis til meðferðar. Afkoma A-hluta ríkissjóðs á árinu 1984 varð hagstæðari en ráð var fyrir gert. Þegar litið er til áranna 1983 og 1984 kemur glöggt í ljós hve afkoma ríkissjóðs er sveiflukennd og háð þróun annarra efnahagsþátta utan ríkiskerfisins. Afkoma A-hluta ríkissjóðs skv. rekstrarreikningi fyrir árið 1984 var jákvæð um 1,6 milljarða kr. Það er betri afkoma sem nemur 3 milljörðum kr. frá árinu 1983. Gjöld reyndust 20,5 milljarðar kr. sem er hækkun frá fyrra ári um tæp 23% þegar tekið hefur verið tillit til óreglulegra gjalda sem færð voru í ríkisreikningi á árinu 1983. Tekjur urðu 22,1 milljarður kr. og höfðu hækkað frá árinu 1983 um tæp 36%. Lántökur A-hluta ríkissjóðs til lengri tíma námu á árinu 1984 2 milljörðum kr. Þar af voru 370 millj. endurlánaðar ýmsum aðilum.

Herra forseti. Ég hef í aðalatriðum gert grein fyrir frv. til fjárlaga fyrir 1986 ásamt þeim breytingum sem ráðgerðar eru. Meginatriðin í því efni eru þessi:

1. Frv. fól í sér jöfnuð milli tekna og gjalda. Það er verulegur ávinningur sem náðist með aðhaldssemi í útgjaldaákvörðunum og aukinni tekjuöflun.

2. Gerðar hafa verið breytingar eða tillögur um breytingar á frv. er fela í sér: að dregið er enn frekar úr útgjöldum, að fallið er frá áður ákveðinni viðbótarskattheimtu að hluta til um leið og framkvæmd eru fyrirheit um áframhaldandi lækkun tekjuskatts af almennum launatekjum, að erlendar lántökur verða minni en ráð var fyrir gert, að ekki er raskað við velferðarkerfinu.

3. Mikilvægt er að endurmeta sjálfvirk útgjöld ríkissjóðs til þess að koma í veg fyrir stóraukna skattheimtu á næstu árum sem ella er óumflýjanleg.

4. Rétt er að minna á að við blasa ýmsir hættuboðar að því er varðar almenna efnahagsstjórn í landinu. Með frv. og þeim breytingum, er ákveðið hefur verið að gera á því, er af ríkisins hálfu reynt að stuðla að betra jafnvægi.

Við fjárlagagerð er togað úr ýmsum áttum og ólíkir hagsmunir vegast á. Flestir hafa áhuga á margs konar verkefnum er auka útgjöld, en fæstir eru talsmenn aukinnar skattheimtu. Aðstæður í þjóðarbúskapnum kalla svo einatt á að fjárlögin séu á hverjum tíma þáttur í að ná fram heildarmarkmiðum í efnahags-, kjara- og atvinnumálum sem að er keppt. Með tilliti til þeirra ólíku hagsmuna, sem hafa verður í huga í þessu sambandi, er þetta frv. auðvitað ekki gallalaust, en á móti því verður þó ekki mælt að í því felst ríkisfjármálastefna er miðar að útgjaldaaðhaldi án þess að rýra kaupmátt og velferð. Það hlýtur að teljast mikilsverður árangur.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjvn.