23.04.1986
Efri deild: 91. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4558 í B-deild Alþingistíðinda. (4365)

448. mál, málefni Arnarflugs hf.

Stefán Benediktsson:

Frú forseti. Ég vil í upphafi máls míns upplýsa það að fyrir hendi er samkomulag um að koma þessu máli hér í gegnum deildina og ég hef staðið að því. Ég get samt sem áður ekki látið hjá líða að ræða þetta frv. þó að það verði kannske ekki með jafnumfangsmiklum hætti og ég hefði kosið ef aðstæður hefðu verið aðrar. Ef við snúum okkur beint að frv. sjálfu, án þess að skoða beint hver afstaða mín eða okkar bandalagsmanna er til þess, þá er best að byrja á orðum hæstv. fjmrh. þar sem hann sagði í máli sínu að nokkuð óvenjulegt væri að veð vantaði fyrir þessari ríkisábyrgð. En þannig háttar til með ríkisábyrgðir að til þess að þær megi veita samkvæmt lögum, þá eru veðmörk 70% sem kallað er, þ.e. að samtals áhvílandi lán sem eru á undan í veðröð + ábyrgðarlán mega nema þessari prósentu samanlagt af matsverði eigna.

Nú er það þannig að allar aðrar eignir Arnarflugs eru svo veðsettar að þar er ekki nokkurs staðar pláss fyrir veð af þessu tagi né varla nokkurt annað veð og því verður að fara þessa mjög svo sérkennilegu leið að taka í raun og veru veð í engu.

Það skal upplýst áður en lengra er haldið að ég er andvígur þessu frv. og mun greiða atkvæði gegn því. Ég tel að mál eins og þetta gefi hvað allra besta mynd af því hvers lags skötulíki er orðið á flokkakerfi íslenskra stjórnmála. Ræði maður við venjulegt fólk á götunni, þá heldur það margt hvert í sakleysi sínu að hin helsta flokkaskipting hér á Íslandi sé sú að annars vegar standi Sjálfstfl., útvörður hins frjálsa framtaks, einstaklingsframtaksins svokallaða og frjálsra viðskipta, en á hinum endanum standi Alþb. grátt fyrir járnum, verjandi ríkiseignar á allri framleiðslu og rekstri, og berjist fyrir því að koma öllum hlutum undir hramm ríkisins. Hérna erum við með frv. þar sem hlutunum er gersamlega snúið við, því að hérna er Sjálfstfl. í forgöngu um það að taka að sér rekstur Arnarflugs næstu 3-4 árin, gera Arnarflug að ríkisflugfélagi. Þannig ætla menn að standa að því að bjarga því heilaga máli sem kallast frjáls samkeppni og sér er nú hvert frelsið í henni þá orðið.

Það fær enginn séð hvaða skaði er að því þó að Arnarflug fari á hausinn, eins og sagt er. Auðvitað tapa einhverjir menn þar einhverjum peningum, menn sem lögðu í ákveðna áhættu. En það þarf enginn að segja mér það að þeir hafi ekki gert sér grein fyrir því að þeir voru að taka áhættu þegar þeir lögðu út í hana. Það er lögmál frjálsrar samkeppni að menn annaðhvort standa eða falla. Og ef þetta lögmál fær ekki að ráða þá erum við ekki að tala um frjálsa samkeppni.

Nú gerum við okkur grein fyrir því að þetta fyrirtæki fór af stað á vitlausri löpp þar sem því var gert að innbyrða og kyngja öðru flugfélagi sem fyrir var og hafði í raun og veru farið á hausinn en var „bjargað“ með þeim hætti að troða því upp á eigendur þessa flugfélags. Þær skuldbindingar sem tengdust þessu fyrra flugfélagi urðu því sem hér um ræðir náttúrlega ofviða þegar fram liðu stundir. Við stóðum hér í mjög svipuðum sporum fyrir tveimur árum síðan, árið 1984. Þá var um það að ræða að veita ríkisábyrgð upp á u.þ.b. 150 þús. dollara sem var hægt að finna veðmöguleika fyrir með nákvæmri skoðun. Þá lögðu menn einna mesta áherslu á rekstraráætlun Arnarflugs fyrir næstu tvö árin, þ.e. 1984 og 1985. Samkvæmt þeirri rekstraráætlun átti hagnaður af Arnarflugi við árslok 1985 að vera 616 þús. bandaríkjadollara. Á þessu byggðu menn einna helst röksemdir sínar og réttlætingu á því að veita ríkisábyrgð fyrir þessu 150 þús. dollara láni sem þá var verið að tala um.

Hvað sem því líður er alveg greinilegt að bjartsýni manna 1984 hefur ekki ræst og ég tel í sjálfu sér ekki neina ástæðu til að ætla það að bjartsýni manna rætist neitt frekar. Og jafnvel þó að bjartsýni manna varðandi rekstur fyrirtækisins rætist, þá er enn þá alls ekki fyrir endann séð á því hvaða áhrif það hefur á stöðu fyrirtækisins, þar sem allar eignir þess - og ekki eignir þess heldur einfaldlega leigusamningur - er meira og minna allt saman veðsett upp í topp.

Ég verð að viðurkenna það að þegar ég horfi upp á hæstv. fjmrh., formann Sjálfstfl., koma hér í ræðustól og biðja um þessa heimild, þá sé ég hann fyrir mér sem fulltrúa stærsta sósíalistaflokks landsins og þó víðar væri leitað. Því að ég get ekki séð að sá flokkur, sem býður sig fram hér hvað eftir annað í kosningum sem sporgöngumaður hins frjálsa framtaks, geti varið það að standa í því að rugla frjálsa samkeppni með jafnheimskulegum hætti og hér um ræðir. Ef það er hægt að reka flugfélag hér á Íslandi í millilandaflugi í samkeppni við Flugleiðir, þá er það hægt. En þá er það bara einfaldlega ekki hægt á þeim grundvelli sem þetta flugfélag er rekið. Þá verður það bara að fá að fara á hausinn og það verður að verða til annað flugfélag sem þá er hugsanlega stofnað til og rekið með eitthvað öðrum og betri hætti en þetta. En þessi leið til að bjarga málum er ekki hin rétta og er gjörsamlega í andstöðu við allt það sem talað er um þegar menn eru að tala um aukið frjálsræði hér í atvinnurekstri, og þess vegna einnig gjörsamlega í andstöðu við ölI þau góðu áform sem menn hafa uppi um bætta stöðu í efnahagslífi. Ég held að það verði mjög erfitt fyrir skattgreiðendur og mjög erfitt fyrir ýmsa þá, sem um sárt eiga að binda núna í sínum eigin efnahagsmálum, að horfa upp á það að menn skuli allt í einu geta réttlætt jafnstórfengleg útlát, eins og þetta getur kostað okkur, með jafnlitlum forsendum og raun ber vitni, á meðan menn ganga hér grátandi á milli banka og lánastofnana til þess að reyna að bjarga eigum sínum undan nauðungaruppboðum.

Það er eitt annað atriði líka í þessu máli sem ég vildi aðeins minnast á undir lokin sem snertir það grundvallaratriði að ríkið reki eða eigi, eða eigi aðild að með þeim hætti sem hér um ræðir rekstri stórfyrirtækja sem þjóna jafnmörgum og þau þjóna. Þannig háttar til að fyrirtæki eins og þetta selur þjónustu sína á mjög mismunandi verði. Eitt sæti í flugvél er selt jafnvel í sama flugi á mismunandi verði eftir því hvort menn eru að ferðast með einhverjum svokölluðum afsláttarfargjöldum eða ekki. Þ.e. annars vegar er farið fram á það að þeir hinir sömu, sem njóta þjónustu þessa fyrirtækis, leggi hugsanlega ærið fé af mörkum til þess að halda því gangandi. Hins vegar er ætlast til þess að þegar þeir setjast upp í flugvélina þá greiði þeir mjög mismunandi gjöld fyrir þá þjónustu sem þeir sjálfir standa undir. Það er ekki samræmi í þessu. Í raun og veru ætti hin beina afleiðing að vera af þessu líka að fyrir alla þá aðila, sem eru að leggja sitt af mörkum til þess að þetta flugfélag haldist í rekstri, gildi það sama. Að þeir eigi jafnan rétt hvað viðvíkur kostnaði á fargjöldum, eitt og sama fargjald fyrir alla sem með þessu flugfélagi ferðast. Ég trúi því að þeir menn sem leggja til hlutafé í þetta félag fái fyrir það einhverja umbun þegar þeir nýta sér þjónustu þess annaðhvort sem farþegar eða sem flytjendur. Og ég get ekki séð annað en að skattgreiðendur í þessu landi eigi þar engu síðri rétt en þeir sem kalla sig eigendur, en kalla sig ekki eigendur nema með því skilyrði einu að skattgreiðendur hér á landi taki á sig áhættuna af því að halda úti rekstri þessa fyrirtækis.