23.04.1986
Efri deild: 91. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4567 í B-deild Alþingistíðinda. (4378)

442. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Frsm. minni hl. (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Við erum staddir á sjötta tíma þinglausnadags og menn orðnir sammála um að reyna að ljúka deildafundum ekki síðar en kl. hálfsjö þannig að menn verða að gera langa sögu stutta ef þeir ætla að standa við slík fyrirheit. Ég tala fyrir nál. um frv. til l. um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins nr. 60/1984, sbr. lög nr. 77 1985, frá minni hl. félmn. Skipa ég þennan minni hl. einn.

Því hefur verið haldið fram af ríkisstj. og náttúrlega stjórnarliðum að það frv. sem við erum að tala um gjörbreyti uppbyggingu húsnæðiskerfisins. Ég byrja á því að andmæla þeirri skoðun þó að það hafi kannske ekki mikið upp á sig í sjálfu sér. Þessi fullyrðing er náttúrlega alröng því að það verður ekki nein gjörbreyting á neinu öðru en því hvernig einstaklingar ávinna sér lánsrétt. Sú breyting er að mínu mati síst til batnaðar því að áður höfðu landsmenn allir almenn réttindi hvað lánum úr þessum sjóði viðkom en núna eru það orðin sérréttindi sem menn verða að ávinna sér með ærinni fyrirhöfn og eftir mjög flóknum leiðum að verða hæfir til fullrar lántöku í þessum sjóði. Þeir aðilar standa best að vígi til lántöku í þessum sjóði sem eru t.d. karl og kona sem með einhverjum hætti, t.d. því að stunda bara það sem menn kalla svarta atvinnu eða eitthvað þess háttar, hafa gegnt heimilisstörfum s.l. tvö ár áður en þau sóttu um lán. Þar með hafa þau án þess að leggja nokkuð af mörkum til lífeyrissjóða samkvæmt 3. gr. þessa frv. öðlast full réttindi: „Hafi maður haft heimilisstörf að aðalstarfi og ekki haft meiri launuð störf á vinnumarkaði en nemur fjórðungi ársverks eða meiri árslaun en 75 þús. kr. miðað við kauplag á árinu 1985 á hann hámarkslánsrétt skv. 1. mgr. sé hann ekki í hjúskap eða sambúð en annars á hann sama lánsrétt og maki hans.“ Ég gleymdi að geta þess í upphafi að þau mega náttúrlega alls ekki hafa gift sig á þessum tíma, það er alveg dauðasynd. Við sjáum alveg þjóðfélagið fyrir okkur í framtíðinni þegar allir menn búa orðið í óvígðri sambúð og stunda heimilisstörf að jafnaði því að Íslendingar verða fljótir að finna leið í gegnum þessa lagagrein, þ.e. þá greiðustu og beinustu leið að lánsréttindum sem hægt er að fá. Ekki þýðir fyrir þá að reyna að eldast um aldur fram. Elli- og örorkulífeyrisþegar, sem greitt hafa til lífeyrissjóðs samtals í a.m.k. tvö ár, eiga sama rétt og einstaklingar skv. 1. mgr. Hafi elli- og örorkulífeyrisþegi lífeyri frá fleiri en einum lífeyrissjóði miðast lánsréttur við skuldabréfakaup þess sjóðs sem greiðir honum mestan lífeyri á þeim tíma sem sótt er um lánið. Þeir elli- og örorkulífeyrisþegar sem fullnægja ekki skilyrðum þessarar mgr. - og maður hefði nú kannske haldið að það væri það fólk sem frekast þyrfti að hjálpa, sem orðið er gamalt og/eða öryrkjar og hefur ekki greitt í lífeyrissjóð, sem er bara nokkuð vandasamt miðað við lagasetningar dagsins í dag því að sú skylda hefur þó alla vega legið skv. lögum á landsmönnum síðan 1979 að greiða í lífeyrissjóð - eiga lágmarkslánsrétt skv. 1. mgr. þessarar greinar. Sama máli gegnir um þá sem hafa verið utan vinnumarkaðar vegna fötlunar og örorku.

Þetta, herra forseti, er aðeins til að undirstrika það að hér er um þá einu grundvallarbreytingu að ræða frá því sem áður var að það er orðið ólíkt flóknara í raun og veru að öðlast lánsrétt en var áður. Haldi menn því nú fram sem vilja að það sé jafneinfalt eða jafnauðvelt og það var áður að öðlast lánsrétt eru þeir líka um leið að segja það að þessi skilyrði sem sett eru í 3. gr. frv. séu gjörsamlega tilgangslaus og hefði eins mátt sleppa.

En það er nauðsynlegt að nota þessi skilyrði hérna vegna þess að í samningunum sem að baki þessum lögum liggja, þ.e, samningum aðila vinnumarkaðarins við ríkisstjórnina, sín á milli og við ríkisstjórnina, felst það að það þarf að fjárkúga lífeyrissjóðina. Með einhverjum hætti þarf að koma þeim til þess að leggja fram fé til þessara mála og það er ekki hægt að gera það með þeim einfalda hætti að bjóða þeim góð kjör heldur skal gera það þannig að setja svipuna á lífeyrissjóðsmeðlimina og þannig höfða til betri samvisku þeirra sem sjóðunum stjórna.

Ég vil halda því fram að þessi fjárkúgunaraðferð veki grun um það að ríkissjóður ætli sér ekki eða treysti sér ekki með vissu til þess að uppfylla ávöxtunar- og endurgreiðsluloforð sín við lífeyrissjóðina því að ef ríkissjóður býður lífeyrissjóðunum þá ávöxtun á skuldabréfum Húsnæðisstofnunar sem boðin er á spariskírteinum í dag ættu kaup lífeyrissjóðanna að vera sjálfgerð því að það eru bestu kjör sem hægt er að fá á lánamarkaðinum þannig að ég skil ekki alveg hvað þarf til. Og þessi grunur minn um þessa stöðu málsins styrkist þegar fram er komin ný grein í þessu frv. eftir 2. umr. í Nd. sem er sú að fulltrúar ASÍ og VSÍ eru gerðir pólitískt samábyrgir með því að þeir fá aðild að stjórn stofnunarinnar beint. Það virðist vera orðið í tísku að ASÍ og VSÍ setjist í stjórn allra stofnana sem ríkið stendur að. Í gær heyrði ég fleygt þeirri hugmynd að þeir ættu að fara að setjast í stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna og þá fer að fækka þeim stofnunum sem þeir eru ekki með einhverjum hætti aðilar að. Eins og þið þekkið sem hér starfið þá eru þeim send öll mál til umsagnar - alveg sama hver þau eru - hvort sem það er um sóknargjald eða annað og ekki er hægt raunverulega að samþykkja lög öðruvísi en að þeir hafi á einhvern hátt tjáð sig um málið.

Það sem ég hef aðallega að þessu frv. að finna og kemur fram í þeim brtt. sem við hv. þm. Kolbrún Jónsdóttir höfum lagt fram við málið er það að hér er ekki um grundvallarstefnubreytingu að ræða, hér er haldið áfram þeirri byggingar- og útþenslustefnu með þeirri lánapólitík sem hér er rekin og við höfum kynnst undanfarin ár og áratugi. Í stað þess að nýta þær fjárfestingar sem við höfum á að ýta fólki áframhaldandi út í viðbótarfjárfestingar og offjárfestingu á þessum markaði sem er nú þegar staddur þannig að Íslendingar búa við stærstan húsakost allra þjóða í veröldinni. Séu teknir byggðir fermetrar í íbúðarhúsnæði og íbúafjöldi er engin þjóð í veröldinni sem býr við jafnstóran húsakost í fermetratölu á mann. Þess vegna tel ég að rökrétt afleiðing eigi að vera sú að leggja miklu meiri áherslu á lán til kaupa á notuðu húsnæði en nýju. Þetta hafa menn kallað í orðræðu undanfarin ár húsnýtingarstefnu og hún verður náttúrlega ekki að veruleika nema að þess sjái stað í lögunum að lántakendur geti borgið hag sínum betur með kaupum á notuðu húsnæði en nýju. Húsnýtingarstefnan hefur líka það sér til ágætis að viðhald verðgildis notaðs húsnæðis helst betur með því að leggja áherslu á kaup á notuðu húsnæði, viðgerðir, viðhald og endurnýjun á notuðu húsnæði, frekar en síaukna áherslu á nýbyggingar og útþenslu í byggð.

Einnig er það öllum ljóst sem sjá vilja að hlutur landsbyggðarinnar er hraklega fyrir borð borinn með þessari nýbyggingar- og útþenslustefnu því að verðgildi eigna landsbyggðarfólks stendur náttúrlega í enn þá sterkara samhengi við áherslu stjórnvalda í húsnæðismálum en verðgildi eigna á höfuðborgarsvæðinu. Það má fullyrða það að þegar þetta frv. er fram komið, með þessari mismunun á milli þeirra sem byggja og kaupa nýtt og þeirra sem kaupa notað eða gera við notað, á það eftir að hafa áhrif til enn þá meiri lækkunar á verði fasteigna úti á landi, enn þá meiri verðmismunar milli eigna úti á landi og eigna hér á höfuðborgarsvæðinu. Og þeir sem halda því fram að þetta hafi ekki áhrif á byggðamál eru með lokur fyrir báðum augum. Ég held að svona aðgerðir hafi miklu meiri áhrif, miklu alvarlegri áhrif en margar þeirra aðgerða sem menn eru að efna til með annars konar löggjöf þegar menn eru að lýsa vilja sínum í byggðamálum.

Ég held að það liggi alveg í augum uppi hvernig gallarnir á þessu frv. eru til komnir. Þeir aðilar sem stóðu að því að semja grundvöll þessa frv. voru þar í hlutverki gæslumanna mjög sértækra hagsmuna, annars vegar vinnuveitenda og hins vegar launþega. Þeir sjá náttúrlega enga brýna ástæðu til þess að gæta neinna altækra hagsmuna þar sem þeirra umboð er miklu afmarkaðra en umboð þm. Það sem aftur á móti átti ekki að koma fyrir og var í raun og veru alveg ónauðsynlegt var að flytja þessa sértæku hagsmunagæslu inn í frv. með þeim hætti sem gert er. Þess vegna ganga mínar brtt. líka nokkuð mikið í þá átt að losa frv. að nokkru leyti úr tengslum við samninginn því að ég get ekki séð að samningurinn standi ekki alveg út af fyrir sig þó að ekki sé sífellt verið að vitna til hans í lögunum. Ég held t.d. að einföld breyting á 1. gr. núgildandi laga, þ.e. að markmið laganna sé það að tryggja að allir landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum hvort sem þeir eiga eða leigja íbúð, sé miklu ákveðnara og haldbetra en greinar um það hvernig skuli staðið að fjáröflun til sjóðsins sem við vitum að er mjög auðvelt að breyta með smábreytingartillögum ár frá ári.

Herra forseti. Ég hefði gjarnan viljað tala um mörg fleiri atriði í þessu máli en verð að ljúka máli mínu þar sem reikna verður með því að fleiri vilji tala og er ekki síður nauðsynlegt að þeir fái að komast að. Að síðustu vil ég eingöngu minna á það að vegna þess hversu afmarkaðra hagsmuna var gætt þegar grundvöllur þessa frv. var saminn er t.d. sá hópur sem verst hefur orðið úti vegna kjaraskerðingar ríkisstj. enn þá skilinn eftir úti. Hann er ekki inni í þessu frv. Hann hefur ekkert upp á að hlaupa annað en loðin loforð manna um upphæðir og aðgerðir sem hann enn þá hefur lítið sem ekkert séð af. Þar held ég að hvað alvarlegast sé það loforð sem gefið var fyrir bráðlega hálfu ári síðan, um það að ríkisstj. mundi beita sér fyrir skuldbreytingum lána í bönkum, sparisjóðum og lífeyrissjóðum. Enn þá hafa þessar stofnanir ekki heyrt eitt einasta orð frá ríkisstj. um þetta mál og er þó margsinnis og ítrekað búið að reka á eftir því héðan úr báðum deildum þingsins.