23.04.1986
Efri deild: 91. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4570 í B-deild Alþingistíðinda. (4379)

442. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Það er lítið orðið eftir af fundartíma á þessu þingi og ég skal reyna að hraða máli mínu þótt ég viti nú ekki hvort mér tekst að tala jafnhratt og hv. síðasti ræðumaður. Til að stytta okkur sporin vil ég byrja á því að taka undir það síðasta sem síðasti ræðumaður kom inn á, að á vanda þess hóps sem hvað verst hefur orðið úti í húsnæðisfárviðrinu, ef svo má segja, sem hefur geisað undanfarin ár, er hreint ekki tekið í þessu frv. Það eru enn sem komið er engin teikn á lofti af hálfu stjórnvalda í þá veru að taka skuli á þeim vanda. Ég vil þess vegna taka undir þá gagnrýni sem fram kom í máli síðasta ræðumanns þar um.

Mér þykir mjög miður að ekki skuli gefast meiri tími til að ræða þetta mál hér. Við höfðum hálftíma í gær í hv. deild og við höfum eitthvað álíka, kannske aðeins meira núna. En verst af öllu er þó að ekki skuli hafa gefist meiri tími til að vinna þetta mál í þinginu. Ég vil minna á það sem ég sagði við 1. umr. þessa máls í gær að það liðu heilar þrjár vikur frá því að kjarasamningarnir, sem þetta frumvarp er í raun fylgifrumvarp við, voru undirritaðir þangað til fullskipuð nefnd tók til starfa við að vinna þetta frv. Þar fóru þrjár vikur í akkúrat ekki neitt og ljóst að þinginu var ekki ætlaður mikill tími, alveg frá upphafi, til að fjalla um þetta mál. Það eru mér líka vonbrigði að félmn. Nd. skuli ekki hafa séð sér fært að flytja fleiri brtt. við þetta frv. en raun ber vitni því ljóst var að í þeirri deild mundi málið ráðast og þýddi lítið að róta við því hér í Ed.

Ég skrifa undir nál. félmn. Ed. með fyrirvara. Nú vil ég gera grein fyrir þessum fyrirvara því hann er í mörgum liðum en taka það jafnframt fram að sú hækkum og lenging lána sem frv. hefur í för með sér er vitaskuld af því góða og það styð ég.

Í fyrsta lagi helgast fyrirvari minn af því að ég tel frv. ganga of skammt í þá átt að styðja svonefnda húsnýtingarstefnu sem felur það í sér að þeir sem vilja festa kaup á eldra húsnæði njóti sömu lánskjara og þeir sem byggja nýtt húsnæði. Að vísu, eins og fram kom á sameiginlegum fundum félmn. beggja deilda, er stórt skref fram á við tekið í þessa átt í frv. þar sem nú er lögfest að svonefnd G-lán, sem eru lán til kaupa á eldri íbúðum, skuli vera 70% af svonefndum F-lánum sem eru lán til nýbygginga. Það hefur ekki verið lögfest fyrr hversu hátt hluttallið skuli vera og á tímabili var í lögum aðeins heimild til að láta G-lánin ná sama hlutfalli, vera sömu upphæð og F-lánin, en í reynd fóru G-lánin á tímabili allt niður í um 32% af F-lánum. Hér er því vitaskuld um einhverja framför að ræða þótt skrefið sem stigið er sé engan veginn nógu stórt og það harma ég.

Jafnframt harma ég það að í þessu frv. er ekkert tillit tekið til þess að menn eru misjafnlega í stakk búnir til að nýta sér þau réttindi sem þetta frv. kveður á um og eru óneitanlega töluverð þegar um það er að ræða að menn séu að kaupa sér íbúð í fyrsta skipti. Ég hefði viljað sjá ákvæði í þessu frv. sem tryggði það að þeir sem ekki gætu nýtt sér þessi réttindi í fyrsta sinn gætu þá átt þau til góða og nýtt sér þau í annað sinn sem tilraun væri til gerð. Enn fremur er ég ósátt við þá meginstefnu, sem er í frv., að það sem er ákvarðandi fyrir lánsréttindi manna er það í hvaða sinn þeir eru að reyna að koma sér þaki yfir höfuðið. Nú getur það tekið suma aðeins eitt skipti að koma sér upp fullnægjandi húsnæði á meðan það tekur aðra kannske tvö, þrjú og jafnvel fjögur skipti að komast í jafnstórt húsnæði. Þess vegna held ég að það sé stærð húsnæðisins en ekki hversu oft menn þurfa að leggja til atlögu við lánakerfið og nýja skuldunauta sem eigi að ráða því hversu mikið lán menn fá. Ég hefði frekar viljað sjá stærðarmörk en skiptamörk, ef svo má segja, á þessum reglum.

Einnig er ég í grundvallaratriðum heldur ósátt við þá stefnu sem liggur til grundvallar þessu frv., en það er sjálfseignarstefnan. Ég hef út af fyrir sig ekkert við hana að athuga svo lengi sem nægilegt svigrúm er gefið til byggingar leiguhúsnæðis og annarra íbúðabygginga þar sem ekki er gert ráð fyrir að menn þurfi að eiga hvern einasta fermetra sjálfir. Sú meginstefna sem þetta frv. grundvallast á, sjálfseignarstefnan, er mér ekki alls kostar að skapi.

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða sérstaklega einstakar greinar frv. Til þess gefst ekki tími hér. Ég vil þó gera að umtalsefni 22. gr. í frv. eins og það var upphaflega sem nú er orðin að 23. gr. Þetta er gildistökugrein laganna og aftan við gildistökutímann kemur þetta ákvæði: „Á tímabilinu september til desember 1986 skal lánsréttur einstaklinga ráðast af því hve háu hlutfalli af ráðstöfunarfé sínu á árinu 1986 lífeyrissjóðir þeirra verja til kaupa á skuldabréfum Húsnæðisstofnunar.“ Með öðrum orðum: það fer eftir því hversu mikið lífeyrissjóðirnir hafa fjárfest í Húsnæðisstofnun á þessu ári sem ræður því hvort fólk nýtur þeirra lánakjara sem frv. kveður á um.

Þá er þess að gæta að mjög fáir lífeyrissjóðir ná hámarkshlutfalli í skuldabréfakaupum á þessu ári því þeir eru margir þegar búnir að ráðstafa fé sínu annað. Fyrir þá sem eru í sjóðum sem eru þegar búnir að ráðstafa fé sínu annað en til Húsnæðisstofnunar ríkisins taka lög þessi í raun og veru ekki gildi fyrr en eftir áramót, þ.e. ef lífeyrissjóður viðkomandi gerir þá bindandi samning við Húsnæðisstofnun. Þess vegna held ég að nauðsynlegt sé að hér komi fram að það er ekki rétt að menn geti að öllu jöfnu vænst þess að njóta þessara réttinda strax 1. september. Fyrir langflesta koma þau ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar á næsta ári. Ég held að mjög mikilvægt sé að þetta berist út fyrir veggi Alþingis vegna þess að mér er kunnugt um að það er fjöldi fólks sem bindur miklar vonir við að hljóta þessi réttindi strax 1. september. En það er ekki rétt. Það getur ekki orðið vegna þess að lífeyrissjóðirnir eru þegar búnir að binda fé sitt annars staðar og kom það reyndar fram hjá fulltrúum lífeyrissjóðanna sem voru kallaðir á sameiginlega fundi félmn. beggja deilda.

Það er annað sem bendir til þess að þetta sé rétt metið og það er að með þessu frv. fylgir ekkert fylgifrv. um breytingar á lánsfjárlögum eins og þurft hefði ef stjórnendur ríkissjóðs hefðu búist við því að lífeyrissjóðirnir mundu fjárfesta fé sitt í skuldabréfakaupum hjá Byggingarsjóði ríkisins strax á þessu ári. Það er ekkert fylgifrumvarp um aukna lántökuheimild ríkissjóðs sem er nauðsynlegt ef ákvæði þessa frv. ættu í raun og veru að standa á þessu ári. Þetta segir okkur ótvírætt að ríkisstj. býst ekki við því að lífeyrissjóðirnir muni fjárfesta í Húsnæðisstofnun ríkisins á þessu ári, enda eru þeir búnir að ráðstafa fé sínu annað. Þannig er alveg ljóst að það er ekki rétt, sem hér stendur í 23. gr., að lögin taki gildi 1. september n.k. Í raun taka þau ekki gildi fyrr en í janúar á næsta ári.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns hef ég miklar áhyggjur af þeim hópi fólks sem hefur farið illa út úr húsnæðismálunum á undanförnum árum og ég harma það og þykir það í raun og veru alveg óverjandi að á málum þessa hóps er alls ekki tekið í þessu frv. Þetta frv. horfir fram á við en ekki aftur á bak, það er reyndar rétt, en fyrst verið er að afgreiða þetta hér nú hefði verið við hæfi og sæmandi fyrir hv. alþm. að taka á vandamálum þess hóps sem í mörgum tilvikum hefur þurft að líða sára neyð á undanförnum árum. Það má segja að kannske sé vandi þess hóps enn brýnni en þeirra sem þetta frv. kemur til með að ná til.

Við Kvennalistakonur höfum lagt mikla áherslu á störf milliþinganefndarinnar sem skipuð var upp úr þinglokum á síðasta þingi til að leysa vanda húsbyggjenda og húsnæðiskaupenda og til að móta framtíðarstefnu í húsnæðismálum. Ég vil láta það koma hér fram að það samráð sem haft var við milliþinganefndina um gerð þessa frv. var í minnsta lagi. Það voru haldnir þrír fundir þar sem milliþinganefndinni var gert fært að koma athugasemdum sínum á framfæri og eitthvað af þeim tekið til greina, en það var allt samráðið sem haft var. Hér er um svo mikilvægt mál að ræða og flókið að mér hefði fundist hæfilegra að nefndin sem samdi þetta frv. hefði nýtt sér betur þá þekkingu og þá reynslu sem milliþinganefndin hefur aflað sé af sjö mánaða starfi.

Hins vegar lögðum við mikla áherslu á að það yrði skýrt á um það kveðið í áliti félmn. Nd. að milliþinganefndinni væri áfram falið að vinna að framtíðarstefnumótun í húsnæðismálum og einkum og sér í lagi að leysa vanda þess fólks sem hefur orðið illa úti á undanförnum árum í misgengisvitleysunni allri saman. Í nál. neðrideildarnefndarinnar er skýrt kveðið á um það í tíu töluliðum að hún eigi að taka þessi atriði sérstaklega til athugunar. Vil ég leggja áherslu á það við þetta tækifæri að það geri hún og að stjórnvöld sýni tillögum hennar og því starfi sem hún vinnur þann skilning, þann áhuga og þann kraft sem þarf til að leysa megi þau mál sem þessi nefnd hefur á sinni könnu.

Í raun og veru er stærsta vandanum vísað til milliþinganefndarinnar og ég hlýt að ganga út frá því hér og ítreka að mér þykir það ekki góð trygging að vísu fyrir því að sá vandi verði leystur, en sæmileg verður hún víst að teljast, og ég legg áherslu á að með þeim skilningi hefur þetta mál verið afgreitt hér í gegnum þingið.

Fyrirvari minn á þessu frv. er einnig í því fólginn að ég hefði að sjálfsögðu kosið að tekið hefði verið betur á þeim þáttum sem tilgreindir eru sem verkefnasvið milliþinganefndarinnar strax og að öruggari trygging hefði legið fyrir því að það sé vilji af hálfu stjórnvalda til að taka á þessum þáttum. Ég hef líka þann fyrirvara á undirskrift minni við nál. meiri hl. félmn. að ég hef töluverðar efasemdir um fjármögnun þessa nýja lána kerfis og ítreka það, sem ég sagði við 1. umr. málsins, að það er forsenda fyrir því að þetta lánakerfi fái staðist að það verði veruleg vaxtalækkun núna á næstu mánuðum. 5-6% vaxtamunur á teknum lánum og veittum eins og nú er gengur vitaskuld alls ekki. Það kollkeyrir þetta kerfi á fáeinum árum.

Ég vil líka taka það fram að fyrirvari minn helgast af því hvernig þetta mál ber að. Mín skoðun er sú að stjórnvöld á hverjum tíma eigi að fara með stjórn húsnæðismála og að það sé að mörgu leyti óheppilegt að frv. til laga um húsnæðismál sé skilað inn í þingið með þeim hætti sem þetta frv. kom, sem hluta af kjarasamningum. Ég hafði marga fyrirvara við þessa kjarasamninga og það samkomulag og var á móti mörgu sem þar var gert. Fyrirvari minn við þetta frv. helgast einnig af fyrirvara mínum við kjarasamningana.

Virðulegi forseti. Þar sem ég vil halda það samkomulag sem gert var um að menn styttu mjög mál sitt hér skal ég láta máli mínu lokið. Ég vil að síðustu víkja örfáum orðum að brtt. sem er að finna á þskj. 1101 og eru bornar fram af hv. þm. Stefáni Benediktssyni og Kolbrúnu Jónsdóttur. Þessar brtt. eru nýframkomnar og í raun og veru er ekki nokkur lifandi leið að átta sig á þeim til fulls á þessum fáu mínútum sem hér hafa verið til að skoða þær ásamt því að gera fjöldamargt annað í leiðinni. Ég mun því sitja hjá við afgreiðslu þeirra þó að ég sjái við fyrstu sýn ýmislegt sem ég er sammála. Ég hefði gjarnan sjálf viljað flytja margs konar brtt. við þetta mál, en til þess er ekkert færi og er því ekki um annað að ræða en að sitja hjá við brtt. þær sem hér um ræðir.