14.11.1985
Sameinað þing: 15. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í B-deild Alþingistíðinda. (484)

85. mál, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga

Fyrirspyrjandi (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Á þskj. 95 hef ég borið fram fsp. til hæstv. félmrh. er varðar Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og er hún í tveimur liðum.

„1. Hversu mikil skerðing verður á ráðstöfunarfé Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga árið 1985 vegna greiðslna til Innheimtustofnunar sveitarfélaga? Hver hefur skerðingin verið tímabilið 1980-1984?

2. Hyggst ráðherra breyta þeim reglum sem nú gilda um greiðslur á framlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga þannig að sömu reglur gildi um hreppa og kaupstaði?"

Í örstuttu máli vil ég gera grein fyrir þessum fsp. Framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga hafa verið eini verðtryggði tekjustofn sveitarfélaganna í landinu. Sveitarstjórnarmenn hafa því lagt ríka áherslu á það að framlög sjóðsins væru ekki skert, enda eru jöfnunarsjóðsframlögin allt að 20% tekna sumra minni sveitarfélaga.

Samband ísl. sveitarfélaga hefur nú látið sveitarstjórnir vita um að horfur séu á því að framlög Jöfnunarsjóðs verði verulega lægri en áætlað var á þessu ári. Sveitarstjórnir eiga hins vegar fárra kosta völ um tekjuauka eða niðurskurð til að mæta tekjutapi þegar svo langt er liðið á árið og er vandséð hvernig við því verður brugðist. Vitað var að Jöfnunarsjóður yrði að standa undir verulegum greiðslum til Innheimtustofnunar sveitarfélaga í kjölfar breytinga á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga. Hins vegar var ekki búist við því að sjóðurinn skertist svo sem allt bendir til að verði.

Því spyr ég hæstv. félmrh. um það hversu mikil skerðingin verði vegna Innheimtustofnunar í ár og hvernig hún hafi verið næstliðin fimm ár. Á grundvelli þeirra upplýsinga verður væntanlega unnt að meta á hvern veg brugðist skuli við til að styrkja sjóðinn og koma í veg fyrir að ráðstöfunarfé hans skerðist svo mjög.

Í síðari lið fsp. er óskað svars við því hvort hæstv. félmrh. hyggist breyta þeirri skipan sem verið hefur á greiðslu framlaga til sveitarfélaganna úr Jöfnunarsjóði. Um það hefur sú regla gilt að kaupstaðir fá greiðslurnar beint mánaðarlega en framlög hreppa eru greidd til sýslumannsembætta. Með þessari skipan er gert upp milli sveitarfélaga án þess að sambærilegar ástæður séu fyrir hendi. Vænti ég þess að hæstv. félmrh. hafi góðan skilning á þessu svo vel sem hann þekkir til um þörf hreppanna fyrir það að greiðslur úr Jöfnunarsjóði berist milliliðalaust.