14.11.1985
Sameinað þing: 16. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í B-deild Alþingistíðinda. (502)

Hafskip og Útvegsbankinn

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það hefur verið beint til mín nokkrum fsp.

Hv. 3. þm. Reykv. spurði hvað liði störfum bankanefndarinnar eða hinnar svokölluðu Gylfanefndar sem Gylfi Þ. Gíslason er formaður fyrir. Þessi nefnd hefur ekki lokið störfum. Ég mun eiga viðræður við formann nefndarinnar á morgun eftir hádegi.

Ég vil bæta því við að ég mun leggja mig fram um að þessi nefnd ljúki störfum. Ég er þeirrar skoðunar að ríkisbönkunum beri að fækka. Þeir verða stærri og sterkari einingar eftir því sem þeir verða færri. En eins og jafnan áður verður að nást um það nokkuð breið samstaða hér á hv. Alþingi. Ég man ekki hversu mörg ár eru síðan alvarlegar viðræður áttu sér stað um sameiningu Útvegsbanka og Búnaðarbanka, en um það náðist ekki pólitísk samstaða eins og þm. eflaust rekur minni til:

Hv. 3. þm. Reykv. sagði að bankarnir lánuðu sérstökum gæludýrum og nefndi einkum þrjú fyrirtæki. Eitt þeirra var Hafskip sem hér hefur verið mjög til umræðu. Annað var Skeljungur sem ég held að sé nú með betri fyrirtækjum á landinu. Þriðja er sálað. Það hét Olíumöl og hefur oft komið á dagskrá. Minntist hv. þm. á forustumann í því félagi, formann þingflokks Sjálfstfl., og sagði að þetta hefði verið eitt af gæludýrum Sjálfstfl. Mig skortir þá mjög minni ef það er ekki rétt munað hjá mér að framkvæmdastjóri þessa félags hafi verið einn af frammámönnum Alþb. í nágrannakaupstað höfuðborgarinnar sem ég held að hafi aldrei brugðist Alþb. Mér þykir ansi hart af hv. 3. þm. Reykv., formanni Alþb., að segja um þennan ágæta Alþýðubandalagsmann að hann hafi verið gæludýr Sjálfstfl.

Hv. 2. landsk. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagðist treysta því að það yrði aukið eftirlit með bönkum og bankastarfsemi í landinu. Vitaskuld má alltaf um það deila á hverjum tíma hvort eftirlitið sé nógu gott og eftirlit þarf víða, það vitum við. En vegna þess sem hún sagði og sömuleiðis hv. 3. þm. Reykv. varðandi eftirlit, þá tók ég fram í yfirliti mínu að það hefði verið lagt fram fyrsta bréfið fyrir viðskrh. varðandi Hafskip á þessu ári 30. júlí. Þar kemur fram að tryggingastaða bankans var veikari en talið hafði verið áður. „Það er ljóst“, segir hér, „að málið þurfti mun nánari athugunar við, einkum að því er varðaði möt á eignum sem bankinn hefur veð í.“ Síðan eru þessar tölur endurskoðaðar og sendar ráðuneytinu 9. sept. og loks berst þessi ítarlega endurskoðun, sem ég gerði að umræðuefni og er miðuð við 30. júní en staða Hafskips við 30. okt., mér í hendur 21. okt. s.l.

Ég vil út af þessum athugasemdum hv. 3. þm. Reykv. minna á að athuganir hafa verið gerðar af bankaeftirlitinu hjá Útvegsbanka Íslands á undanförnum árum sem hér segir: 31. mars 1975, 14. okt. 1977 og 7. nóv. 1977. Þessar tvær athuganir eru sérstök athugun á Hafskipi hf. Síðan er aftur athugun 30. nóv. 1978 og því næst 25. apríl 1980, þ.e. frá lánadeild og bankaeftirliti, og sú athugun sem er núna miðuð við 30. júní 1985 og ég var að skýra frá.

Þessar sérstöku athuganir hafa verið gerðar, en vitaskuld hafa verið gerðar margvíslegar athuganir innan hagdeildar bæði þessara banka og annarra.

Menn eru eitthvað að furða sig á þeim miklu breytingum sem hafa orðið á rekstri Hafskips, en þá er á að líta að á árinu 1984 verður mikil raunlækkun farmgjalda hjá íslensku skipafélögunum. Raunlækkun farmgjalda tel ég að hafi fyrst og fremst orðið vegna hinnar miklu samkeppni. Ég hygg að svo sé þó að ég geti ekki dæmt um það. Það verður um leið, eins og allir vita, stórfelldur samdráttur á flutningum fyrir varnarliðið. Það verður gengislækkun krónunnar um haustið, meiri gengislækkun en stjórnvöld höfðu reiknað með í kjölfar samninga eins og allir vita og að lokum tefur verkfall BSRB siglingar og afgreiðslu á flutningi vara. Allt þetta er talið að hafi kostað þetta eina fyrirtæki á árinu hvorki meira né minna en nokkuð á þriðja hundrað milljónir. Og mér þykir líka rétt að geta þess til þess að varpa enn skýrara ljósi á það sem hefur verið að gerast í sambandi við mat og matsreglur að þrjú skip félagsins, Selá, Skaftá og Rangá, voru metin á 6 millj. bandaríkjadala fyrir um það bil tveimur árum, en þegar verið er að ræða og endurskoða þetta mat er það núna innan við þriðjung af þessu mati. Og er þá að furða þó að hafi orðið allsnögg umskipti á þessum árum? Ég held að menn verði að taka þetta allt með í reikninginn þegar þeir tala um þessa stöðu. Ég sé enga ástæðu til annars en að ítarleg skýrsla verði gefin um viðskipti banka almennt.

Ég vil að fram komi út af því, sem hv. 3. þm. Reykv. ræddi um, að viðskrh. fengi reglubundnar skýrslur frá bankaráði, að þetta er tryggt þegar nýju lögin koma til framkvæmda um næstu áramót. Þá er gert ráð fyrir að viðskrh. skipi sérstakan löggiltan endurskoðanda við hvern ríkisviðskiptabanka. Þessir endurskoðendur verða því trúnaðarmenn viðskrn. til hliðar við bankaeftirlitið. Þessi ákvæði laganna eiga að tryggja aukið upplýsingastreymi beint frá endurskoðendum til ráðuneytis og bankaeftirlitið kemur til með að starfa áfram. Því er með þessu lögð áhersla á vilja nokkurra þeirra hv. þm. sem hér hafa talað.

Það sýnir afskaplega mikinn ókunnugleika, eins og hjá hv. 1. landsk. þm., þegar talað er um þetta eins og komið sé fyrir togurum og hvort það séu einhverjar tryggingar til. Við vitum að þróun gengismála á undanförnum árum hefur verið með þeim hætti að þegar dollarinn hækkaði einu sinni á milli ára um 127 eða 128% þýddi það að skuldir hækkuðu um sömu upphæð, eigið fé þeirra manna sem áttu fiskiskipin brann upp á nokkrum mánuðum. Hvað átti þá að gera? Átti strax að stöðva útgerðina og bjóða upp skipin? Nei, það voru settar skrúfur á menn að borga til stofnlánasjóðsins meira af brúttóafla. Útgerð þessara dýru innlendu skipa, skipa sem byggð voru hér heima, fékk ekki staðist. Þess vegna hafa farið fram þau uppboð þar sem Fiskveiðasjóður hefur boðið í þessi skip og fengið þau, en aðrir sjóðir hafa tapað sínu. Á að reka alla sem hafa stjórnað þessum sjóðum og hafa lánað vegna þessa atburðar? Er þetta fyrir slæman rekstur? Er þetta fyrir óaðgæslu? Hvað hefði verið gert? Þetta er fyrir það að við höfum lifað í það mikilli verðbólgu að við höfum ekki náð tökum á gengisskráningunni á þessu tímabili fyrr en nú að það hefur nokkuð rofað til. Þetta finnst mér að allir verði að hafa í huga.

Mér fannst ansi mikil fullyrðing hv. 5. þm. Reykv. um pólitíska skömmtunarskrifstofu Sjálfstfl. í bönkum. Ég veit ekki til að það sé nema einn maður af þremur bankastjórum í bönkum sjálfstæðismaður. Það er verið að gera lítið úr þeim hinum ef þeir sem eru sjálfstæðismenn eiga öllu að ráða þar. Ég held að þeir séu töluvert fyrir sér hinir líka. En vitaskuld vil ég ekki hugsa svona. Ég hef talað við bankastjóra á liðnum árum og áratugum og það fyrir fleiri fyrirtæki en hv. 5. þm. Reykv. sagði mig hafa rekið. Ég hef líka rekið sjálfstæða útgerð o.fl. o.fl. Ég hef ekkert síður átt góð samskipti við bankastjóra sem hafa verið pólitískir andstæðingar mínir. Þeir hafa metið og vegið það sem maður hefur komið með á hverjum tíma. Mér finnst leiðinlegt að svona fullyrðing komi fram og ég mótmæli algerlega þeirri fullyrðingu hv. 5. þm. Reykv. að það sé lagður pólitískur þrýstingur á Eimskipafélag Íslands eða stjórnendur þess félags að kaupa Hafskip. (Gripið fram í.) Ég verð að segja að stjórn Eimskipafélags Íslands verður ein og sjálf að ákveða hvort hún vill ganga inn í þessi kaup eða ekki. Ég segi fyrir mitt leyti: Ekki vil ég taka neina ábyrgð á því sem viðskrh. að ég hafi þrýst á stjórnendur Eimskipafélagsins að ganga lengra en þeir telja sér fært að ganga. En við megum ekki heldur gleyma því, eins og ég sagði hér áðan, að auðvitað ætla þeir að selja þennan flota, telja hann úreltan. Eimskipafélagið hefur rekið þá stefnu að endurnýja mjög oft sín skip.

Eimskipafélagið hefur oft orðið fyrir þungum búsifjum á langri starfsævi þess félags, en þetta félag hefur verið þróttmikið og hefur mikið lagt til þjóðarbúsins og það var mikill fengur þegar það var stofnað og það hefur verið fengur í því allan þann tíma sem það hefur verið rekið.

Við skulum ekki heldur líta fram hjá því að Hafskip hefur verið rekið í 27 ár. Það er margfalt yngra félag en Eimskipafélagið og það hefur aldrei náð traustleika í eiginfjárstöðu neitt á við Eimskip. En Hafskip hefur líka, eins og Eimskip, skilið mikið eftir sig. Það hefur haldið uppi atvinnu fyrir marga. Það hefur borgað sína skatta og skyldur til samfélagsins á hverjum tíma. Allt þetta er mikils virði. Þess vegna finnst mér leitt að hv. 5. þm. Reykv., sem sagðist vera hluthafi í Eimskipafélaginu, - ég veit ekki hversu mikið hann á, enda varðar mig ekkert um það, en sennilega er hann ekkert mjög stór, þó vil ég alls ekki gera mjög lítið úr hans hlutafjáreign, - skuli segja alveg skilyrðislaust: Ég vil ekki að Eimskip kaupi. Mér finnst það ansi hart gengið. Ég á smáhlut, ábyggilega bara 1/10 á við formann Alþfl., í Eimskip. Ég vil ekki segja við stjórnendur Eimskips: Þið eigið ekkert að hugsa um það. Ef stjórnendur Eimskips telja það heppilegt vegna viðskipta verð ég að treysta þeim. Þeir hafa verið kjörnir í stjórn þessa félags og þetta eru reyndir menn og með duglegan og þróttmikinn forstjóra sem hefur sýnt að hann stendur fyrir sínu. Þess vegna vil ég sem lítill hluthafi á við 5. þm. Reykv. ekki taka svona upp í mig alveg á stundinni eins og hann gerði.

Ég held að ég hafi ekki alveg farið með réttar dagsetningar þegar ég sagði að mat trygginga hefði lækkað. Ég held að ég hafi sagt í byrjun júní. Það var frá 28. júní til 9. okt. ef ég hef ekki farið alveg með rétta dagsetningu. En það rýrnaði yfir 20%. Á þessu sjá menn hvað rýrnun trygginga hefur verið ör.

En umfram allt ætla ég, áður en ég lýk máli mínu, að segja að ég tel að það sé miklu meira í húfi en það hvort Útvegsbankinn starfi áfram sem sjálfstæð stofnun eða ekki. Útvegsbankinn hefur lagt þessu þjóðfélagi mikið og gott til á liðnum árum. Hann hefur oft orðið fyrir skakkaföllum, en hann hefur líka oft gert vel. Og hvað sem verður um hann getur ekkert okkar á þessari stundu, þó öll gögn væru í höndunum, sagt: Hvað verður tapið mikið? Það liggur ljóst fyrir að það verður töluvert. En hitt er mitt höfuðáhyggjuefni, ef þessari lánastofnun verður lokað, hvað á að gera við alla viðskiptamenn Útvegsbankans, útgerð, iðnað, verslun, sveitarfélög og fjölmarga einstaklinga. Það mundi verða stórfelld stöðvun atvinnutækja í landinu og stórfellt atvinnuleysi af völdum þess vegna þess hversu erfiðlega gengur að komast í viðskipti hjá öðrum bönkum sem telja sig ekki vera aflögufæra. Þetta finnst mér vera langstærsta og mesta málið. Hin málin eru nógu stór og erfið. En ég skal heita því sem viðskrh. að fylgja eins og mögulegt er þessum málum eftir, bæði við útvegsbankann og sömuleiðis í samvinnu við Seðlabanka og bankaeftirlit. Ég vona sem sagt að það verði úr samningum við Eimskipafélag Íslands, en ég geri mér grein fyrir að þar getur oltið á ýmsu og það er ekkert hægt að fullyrða í þeim efnum. Það verður fyrst og fremst að vera ákvörðun stjórnar Eimskipafélags Íslands hvort það fari út í þessi kaup eða ekki.