18.11.1985
Efri deild: 15. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í B-deild Alþingistíðinda. (511)

105. mál, hitaveita Reykjavíkur

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Þegar flm. þessa frv., hæstv. forseti Ed. Stefán Benediktsson, flutti framsöguræðu sína fannst mér að þetta mál væri sjálfsagt og þyrfti ekki mikilla umræðna við. Ég bjóst því við að hér yrðu litlar umræður eftir hans framsöguræðu þar sem hann skýrði þetta mál og benti á hvað þetta væri í eðli sínu sjálfsagt, en sú hefur ekki orðið raunin á. Vera má að þær umræður, sem hér hafa farið fram, séu ákveðin vinnuskipulagning forsetanna. Ég á við að varaforseti hafi séð að eyða var að skapast í starfsemi deildarinnar og hann hafi þá stutt aðalforsetann í því að halda áfram störfum deildarinnar um tíma þar til ráðherra hefði tíma til að mæla fyrir sínum málum. Þetta er í eðli sínu góð skipulagning og til hennar gripið til þess að missa ekki þm. af vinnustaðnum.

Ég vildi fylgja eftir öðrum nm. úr iðnn., sem voru búnir að koma upp hver á fætur öðrum, og lýsa yfir stuðningi mínum við þetta mál. Ég tel það alveg sjálfsagt að lögum um Hitaveitu Reykjavíkur verði breytt á þann veg að ekki standi þar lengur bær heldur borg og einnig tel ég að það sé ekki neitt því til fyrirstöðu að Hitaveitu Reykjavíkur verði leyft að framleiða rafmagn ef borgarstjórn dytti einhvern tíma slíkt í hug í samkeppni við Reykjavíkurborg sem er einn af aðaleigendum Landsvirkjunar.

Málið verður sjálfsagt grandskoðað og rætt eins vel í iðnn. og í stefnir að það verði rætt hér. Ég efast ekki um að frv. fái eðlilegan og góðan gang í gegnum þingið.